Spurning: Ég er nýlega byrjaður að hlaupa (46 ára), byrjaði um mitt sumar. Ég hef aldrei hlaupið áður nema lítils háttar á hlaupabrettum innandyra, þetta var frekar erfitt í byrjun, úthaldið lítið, alltof þungur og allskonar verkir og kvillar komu upp. Nú eru verkirnir óðum að hverfa en þyngdin stendur í stað. Ég er þó sæmilega ánægður með árangurinn er kominn úr 2 x 500 m í 4-5 km samfellt hlaup án þess að stoppa og líkar þetta nokkuð vel. Þessi vegalengd tekur mig á bilinu 28-32 mín að hlaupa Síðustu daga hefur kólnað eins og lög gera ráð fyrir og ég hef velt því fyrir mér hvernig best sé að undirbúa sig fyrir veturinn svo hægt sé að stunda hlaupin áfram þrátt fyrir kalt veður. Ég er frekar kvefsækinn og hef áhyggjur af að kuldi geti valdið þrálátu kvefi og óþægindum í öndunarfærum.
Áttu góð og praktísk ráð fyrir mig varðandi hlaup á vetrum. Er það ullarfötin og lýsið sem gildir til að verjast kvefi? Er eitthvað annað sem rétt er að hafa í huga þegar hlaupið í kulda?
Að lokum vil ég þakka fyrir frábæra heimasíðu sem hefur upplýst mig um margt varðandi hlaup s.s. æfingaáætlanir, ráðgjöf, reynslusögur annarra sem byrjuðu að hlaupa á líkum aldri og ég. Frásagnirnar voru mér mikil hvatning þegar ég byrjaði sjálfur í sumar. Vonandi tekst mér að halda áfram á sömu braut og lengja skrefin.
Svar: Þú ert búinn að leggja inn góða grunnvinnu og hefur unnið þig upp af skynsemi. Til að vinna betur á þyngdinni þarft þú að vera að lengur, reyna að ná 50 mín samfelldu hlaupi, helst tvisvar í viku.
Nú tilgreinir þú ekki hve oft í viku þú hleypur en ef þú hleypur 4 daga í viku og ert með 1 - 2 daga í 50 mín+ þá ferð þú að sjá þyngdina fara niður. Yfirleitt er fólki óhætt að stunda útihlaup yfir veturinn, sérstaklega ef veðurlag er eins og t.d. síðasta vetur. Ef kuldi er mikill, er þeim sem viðkvæmir eru í öndunarvegi, opnir möguleikar að hlaupa inni á hlaupabandi.
Það hefur orðið bylting í klæðnaði til vetraræfinga á síðustu 30 árum. Áður voru menn gjarnan í nokkrum lögum af fötum og einhverju yst sem hleypti engu í gegn svo menn svitnuðu mikið. Í dag er rétt að notfæra sér mjúkan sérunninn fatnað næst sér sem þornar fljótt og heldur ekki rakanum í sér. Þar fyrir utan er best að vera í léttum jakka og buxum sem hlífa fyrir vindi, eru nokkuð vatnsheld, og hleypa lofti í gegnum sig. Ef þú ert viðkvæmur í t.d. hjám getur verið lykilatriði að vera í vindheldum ytri buxum þegar vindur er kaldur.
Með þannig fatnað er allt annað líf að stunda útihlaup að vetri til. Fatnaðurinn er það léttur að hann hindrar ekki hreyfingar en er samt mjög einangrandi. Þessi sérhannaði fatnaður er nokkuð dýr en endist líka nokkuð vel. Fæst í sérverslunum fyrir útivist og íþróttir og á Hlaupasíðunni, en ég ætla ekki að mæla með sérstökum merkjum en þau eru mörg góð á markaðinum.
Það sem skiptir líka miklu máli er að koma sér fljótt úr rökum fötum í þurr eftir æfingu í kulda. Oft taka menn inniæfingar, teygjur eða styrk, eftir útihlaup og þá er lykilatriði að fara úr blautum fötum og hafa þurrt til skiptanna. Fleiri kvefast við slíkar aðstæður frekar en vegna útihlaupsins sjálfs.
Það er oft yndislegt að hlaupa úti að vetri til í kyrru og fallegu veðri og ég myndi ekki taka hlaupabandið framyfir nema það sé mikið frost eða færð virkilega slæm. Það er áskorun að takast á við veður og vinda þó auðvitað verði skynsemin að ráða þegar aðstæður eru mjög slæmar. Margir aðhyllast lýsi, alhliða vítamín og auka c-vítamín inntöku á veturna í miklu álagi. Það er endalaust deilt um nauðsyn slíkra inntöku, ég get bara sagt að ég og margir aðrir hafa góða reynslu af því.
Gangi þér vel. Gunnar Páll.
|