Spurning: Ég er 53 ára kona í Hafnarfirði sem hef skokkað reglulega í nokkra mánuði. Áður stundaði ég lyftingar ca 3 sinnum í viku í þrjú ár þannig að ég er í ágætu formi miðað við aldur. Ég er að skokka þetta ca 6 km á 40 mín tvisvar til þrisvar í viku. Ég hef áhuga á að bæta mig og gera betur og einnig að koma mér í hlaupahóp hér í Hafnarfirði. Eru upplýsingar um hlaupahópana í Hafnarfirði réttar frá því árið 2001? Hvað er raunhæft fyrir mig að stefna að? Er hálf maraþon of mikið?
Svar: Það er mjög gott að setja sér takmark. Þau þurfa að vera raunhæf en um leið góð áskorun. Ef þú hefur undirbúninginn langan getur þú stefnt á hálft maraþon. Þú getur t.d. sett þér það takmark að hlaupa hálfmaraþon í ágúst í Reykjavíkur maraþoni. Það þýðir að þú þarft að auka æfingar í 3 til 4 í vor og breyta æfingum. Einu sinni lengra hlaup í hverrri viku (smá auka úr 6 km upp í 18 km eða lengra) og einu sinni hraðar í hverri viku. Gott að setja sér önnur takmörk á þessari leið. T.d. að hlaupa tvö 10 km hlaup, eitt í maí eða júni og annað í júlí. Mjög gott hjá þér að finna einhverja til að hlaupa með. Þannig færð þú aðhald og þekkingu frá hlaupafélugunum sem væntanlega hafa farið í gegnum svipaða hluti og þú ert að spá í.
Kveðja, Gunnar Páll.
|