Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Pistlar/Vi­t÷l
Vi­t÷l
Yfirheyrslur
Pistlar Stefßns
Hlaupasumari­ mitt
S÷gur ˙r hlaupum
Frßsagnir hlaupara
Hugrenningar
Pistlar Sigur­ar P.
Frß umsjˇnarmanni
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Pistlar/Vi­t÷l  >  S÷gur ˙r hlaupum
17.6.2016
Kaupmannahafnarmara■on 2016 - upplifun ═R skokkara.

Í upphafi ársins kviknaði sú hugmynd hjá nokkrum félögum í ÍR skokk, aðallega kvennkyns, að taka þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu. Strax myndaðist stemming fyrir hugmyndinni sem varð síðan að veruleika núna í vor. Ein úr hópnum, Unnnur Árnadóttir skrifaði ferðasögu um upplifun sína og félaga sinna af Kaupmannahafnarmaraþoninu 2016. Gjörið svo vel.


Allur hópurinn rétt fyrir start.

Að vera í skokkhóp getur verið kostur. Sem dæmi má nefna að þú ert aldrei einn á æfingu, þú getur alltaf reynt að bæta þig með því að ná félaganum sem er rétt á undan þér, þú færð hvatningu frá félögunum á æfingu þegar illa gengur eða dagsformið er ekki alveg upp á það besta og þú ákveður að skrá þig í maraþon með félögunum á hlaupaæfingunni þar sem gleðin er í hámarki! Spurning hvort þetta síðastnefnda sé einn af kostunum.

Einhversstaðar byrjar allt og að þessu sinni snérist umræðan hjá okkur stelpunum í ÍR skokk um að ná lágmörkum fyrir Boston maraþonið 2017 en þá verða liðin 50 ára frá því fyrsta skráða konan, Kathrine Switzer,  hljóp í maraþoninu. (hennar tími var 4 klukkustundir og 20 mínútur. En ári áður, 1966, varð Bobbi Gibb fyrsta konan sem hljóp maraþonið en hún var ekki skráður keppandi.) Um miðjan janúar sl. kom fyrsti tölvupósturinn:  „Sælar stúlkur, eigum við að láta slag standa og skrá okkur í þetta hlaup. Eða eruð þið kannski búnar að því?" Upp frá því var ekki aftur snúið og áður en janúarmánuði lauk voru átta ÍR skokkarar skráðir í Kaupmannahafnarmaraþonið og einn „wannabe ÍR skokkari."


Í hópnum voru sjö konur og tveir karlar og að auki var ráðinn liðsstjóri með mikla reynslu af hlaupum en það sem gerði útslagið með ráðninguna var góð reynsla af Kaupmannahafnarmaraþoninu. Kvenkynshluta liðsins var fundið nafn og mikill metnaður var lagður í að finna keppnisbúning. Liðið var nefnt „ligeglade islandske løbekvinder", skammstafað LIL.

Eins og allir vita sem hafa hlaupið maraþon þarf að fara fram gríðarlegur undirbúningur en ekki verður farið nánar í hann í þessum pistli heldur farið beint í aðalefnið, þ.e. Kaupmannahafnarmaraþonið 2016.

Sunnudagurinn 22. maí rann upp bjartur og fagur og hópurinn var kampakátur þar sem rölt var niður að Íslandsbryggju snemma morguns. Allir tilbúnir í verkefni dagsins, kílómetrana 42,2 sem framundan voru en spenningurinn lá í loftinu og ekki laust við að fiðrildin í maganum áberandi. Allir voru búnir að plana sitt hlaup miðað við þau markmið sem sett voru í upphafi. Mitt markmið var að hlaupa á fjórum klukkustundum en það er lágmarkið fyrir minn aldursflokk í Boston maraþoninu.

Ég var búin að ákveða að fylgja fjögurra klukkustunda blöðrunni í upphafi og sjá svo til hvernig gengi. Að loknum myndatökum var öllum óskað góðs gengis og svo hélt hver sína leið inn á startsvæðið. Að venju voru langar biðraðir við kamrana og við Sigga biðum í hálftíma í röðinni án þess að hún þokaðist nokkuð að ráði. Klukkan var að verða 9:30 en þá átti hlaupið að hefjast. Ég ákvað að ég þyrfti ekki að komast á kamarinn, halda inn í mannhafið og finna blöðruna með mínu markmiði. Við Sigga kvöddumst og sáumst ekki aftur fyrr en að loknu hlaupi.

Það var gleði og eftirvænting í loftinu þegar við loksins hreyfðumst úr stað og komumst yfir ráslínuna, u.þ.b. sjö mínútum á eftir fyrstu hlaupurum. Þau voru fjögur sem héldu uppi hraðanum fyrir fjögurra klukkustunda hópinn, tvær konur og tveir karlar og voru þau dugleg að hvetja okkur áfram. Stemmingin á götum Kaupmannahafnar var mikil og allsstaðar fólk að hvetja hlaupara og njóta dagsins.


Hópurinn samankominn á Íslandsbryggju eftir maraþonið.

"De ligeglade islandske løbekvinder"
Að fá hvatningu og stuðning frá áhorfendum er ólýsanlegt og veldur oft á tíðum gæsahúð og getur gert gæfurmuninn á erfiðum stundum í hlaupi. Sigrún liðsstjóri var búin að láta okkur hlauparana vita af sinni staðsetningu á brautinni en þrátt fyrir góðan vilja sá ég hana aldrei. Hún, ásamt Rúnu aðstoðarliðstjóra, var þó með allt á hreinu og fylgdist grannt með sínu fólki í gegnum maraþon-appið. Fyrstu 20 kílómetrarnir gengu vel, ég náði að halda í við hraðastjórana og líðanin var góð. Var samt aðeins farin að finna fyrir skrokknum í kringum 18 km og ákvað þá að hægja aðeins á mér og láta hraðastjórana lönd og leið - hugsaði þá að ég gæti alltaf aukið hraðann undir lok hlaupsins en það hafði ég getað í mínu fyrra maraþoni í Berlín 2012. Veðrið lék við hvurn sinn fingur í kóngsins Köben þennan dag og sólin skein glatt. Ég man sérstaklega eftir því að á einum stað sá ég fjölskyldu vera að gæða sér á „brunch" á hliðarlínunni og hugsaði að kannski ætti ég bara að vera þarna í stað þess að erfiða í hlaupinu!

Drykkjarstöðvar voru á tæplega fimm km fresti og rétt áður en komið var að þeim, skellti ég í mig orkugeli og drakk svo eitt vatnsglas á hverri stöð. Á einni stöð skellti ég hálfu vatnsglasi yfir höfuðið til að kæla mig og fann hvað það var frískandi. Drykkjarstöðvarnar voru einnig notaðir til að ganga en mér er lífsins ómögulegt að drekka á hlaupum!


Gleðin við völd þrátt fyrir erfiðan dag.

Kaupmannahafnarmaraþon er að hluta til tveir hringir og á fyrri hring sjást kílómetramerkingar frá 29 til 41 og ég man sérstaklega eftir merkingunni 32 km þegar ég var einungis búin með rúma tíu km. Fannst það svolítið erfitt en reyndi eftir bestu getu að stilla kollinn og hugsa jákvætt, ég var jú búin með einn fjórða hlaupsins og það var jákvætt. Víkur nú sögunni aftur að tempóinu og minni líðan.

Hitin eykst og lærin þyngjast
Ég var farin að finna fyrir þunga í lærum að loknum 25 km og klukkan í kringum 12 á hádegi. Þegar ég lít til baka, átta ég mig á því að á þessum tímapunkti var hitinn farinn að aukast og hafa áhrif á mig og fleiri hlaupara. Hinsvegar var ég algerlega ómeðvituð um að það væri svona heitt og að það gæti hugsanlega verið að hafa áhrif á mig, mína líðan og mitt hlaup.

Eftir hlaup fékk ég upplýsingar um að hitastigið hefði farið upp í 27°C. Mitt tempó hafði fram að þessum tímapunkti verið í kringum 5:40 per kílómetra, stundum hraðar, stundum aðeins hægar. Þarna vissi ég að fjögurra klukkustunda múrinn yrði ekki rofinn í þessu hlaupi og ég einsetti mér að klára, annað skipti ekki máli. Á þessari stundu var það bara kollurinn sem kom mér áfram en nýtt markmið var sett sem fólst í því að setja annan fótinn fram fyrir hinn og telja svo niður kílómetrana sem eftir voru. Annað markmið var að hlaupa (ekki ganga) á milli drykkjarstöðva en þá fengi ég „verðlaun", þ.e. að ganga á meðan ég skellti í mig mikilvæga vökvanum sem í boði var! Það sem var gleðilegt á þessum erfiða tíma í hlaupinu var að þarna hitti ég tvær af LIL systrunum. Fyrst var Þóra Gréta á ferðinni og okkar samskipti snérust að mestu um hversu erfitt þetta væri orðið. Ég held að við höfum ekki haft rænu á að hvetja hvor aðra áfram eins og við vorum vanar að gera á æfingum og segir það kannski eitthvað um í hvaða ástandi við vorum á þessari stundu. Rétt eftir orðaskipti okkar Þóru Grétu sé ég aðra LIL systur, Birnu og hennar viðbrögð voru svipuð okkar, þetta var erfitt og hún sagðist alveg vera búin á því. Held að ég hafi heldur ekki hvatt hana áfram með góðum orðum, hugsaði ekki út í neitt nema að koma sjálfri mér áfram.

Áfram hélt hlaupið en að loknum 30 km hafði heldur hægst á mér og tempóið komið í kringum 6:00 per kílómetra og stuttu síðar 6:30. Ég hélt mér við efnið með því að telja niður og gladdist yfir hverjum sigruðum kílómetra. Hljóp á milli drykkjarstöðva, gekk á meðan ég vökvaði líkmann og á hverri stöð skelli ég mér undir kalda sturtu til að kæla kroppinn. Varð var við fleiri og fleiri hlaupara sem voru að ganga og það var alltaf röð í að komast undir sturtuna. Man sérstaklega eftir einum hlaupara sem stóð nokkuð lengi undir kaldri bununni og við hin biðum óþolinmóð eftir að komast að.

Lærin voru farin að hrópa ansi hátt á hvíld og það varð erfiðara og erfiðara að hlaupa af stað eftir hverja drykkjarstöð. Áhorfendur voru hvetjandi og mjög vinsamlegir en á þessum tímapunkti hafði það engin áhrif á mig.


De ligeglade islandske løbekvinde eins og þær kalla sig.

"Búin, algerlega búin"
Líkaminn var komin að þolmörkum og komst ekki hraðar þrátt fyrir góða hvatningu. Varð ofboðslega glöð þegar 40 kílómetra markinu var náð en varð að ganga stuttu síðar þó ég hafi sett mér þá reglu að slíkt væri aðeins „leyfilegt" á drykkjarstöðvum. Komst af stað aftur og vissi að þetta var að takast.

Nokkrum kílómetrum áður höfðu hraðastjórar fyrir 4 klukkustundir og 10 mínútur farið fram úr mér og ég og þá vissi ég að maraþontíminn minn yrði ekki bættur. Í Berlín hafði ég skilað mér í mark á 4:07:11 og í því hlaupi leið mér vel allan tímann og átti auka orku þegar fimm km voru eftir af hlaupinu. Ekkert slíkt var í pokahorninu í dag. Áfram silaðist ég og þegar komið var að Langebro gladdist ég yfir því að nú væri þetta senn á enda. Ég hugsaði jákvætt og hvatti sjálfa mig áfram í hverju skrefi en á þessum tíma var tempóið komið langt yfir 7:00 min per kílómetra. Þegar komið var niður á Íslandsbryggju fannst mér marklínan vera óralangt í burtu en reyndi eftir bestu getu að hraða mér og koma brosandi í mark. Átti greinilega einhversstaðar auka orku sem braust út á síðustu metrunum því samkvæmt hlaupaúrinu komst ég á 5:10 tempó sem er að mínu mati óútskýranlegt og ótrúlegt! Í mark komst ég og lokatíminn 4:19:03. Hafði bætt 12 mínútum við tímann minn í stað þess að bæta hann um 7 mínútur eins og upphaflega markmiðið hafði verið. Var algerlega búinn á því og eftir að hafa náð í pokann minn úr geymslu var mitt fyrsta verk að senda manninum mínum skilaboð sem voru: „Búin, alveg búin!"

Allir hlaupararnir í mínum hópi kláruðu hlaupið en einungis Inga og Þóra Björg hlupu undir Boston lágmörkum. Öll áttum við í erfiðleikum vegna hitans, sumir meira en aðrir. Í samræðum eftir hlaup kom fram að hjá öllum okkar gerist eitthvað í kringum 25 km. Við vorum öll að ganga mikið í hlaupinu sem ekkert okkar hefur gert áður og nokkrir innan hópsins hafa góða reynslu af maraþonhlaupum. Ein LIL systra var að hlaupa sitt áttunda maraþon og hún sagðist aldrei hafa upplifað svona mikla erfiðleika.


Skrásetjari, Unnur Árnadóttir eftir hlaup.

Kaupmannahafnarmaraþonið fer í reynslubankann. Ýmislegt sem ég gerði rangt, bæði fyrir hlaup og í hlaupinu sjálfu. Í fyrsta lagi innbyrti ég ekki neitt auka salt dagana fyrir hlaup. Það hefði örugglega haft áhrif á vökvabirgðir líkamans í hlaupinu en ég hafði verið dugleg að drekka vikuna fyrir hlaup. Í öðru lagi drakk ég ekki nóg í hlaupinu sjálfu sem var ekki gott. Hefði átt að drekka nokkur glös á hverri drykkjarstöð í stað þess að drekka bara eitt. Einnig hætti ég að taka orkugel þegar rétt um 30 km voru búnir af hlaupi. Veit ekki af hverju en að sjálfsögðu átti ég að halda mig við fyrirfram ákveðið plan.

10% hlaupara náðu ekki að klára
Ég læri vonandi af þessu og geri betur næst! Já, ég er ákveðin í því að fara aftur í maraþon og þó ég hafi ekki náð lágmarki fyrir Boston 2017 verða aðrar leiðir skoðaðar til að komast í hlaupið. Er glöð að hafa klárað þetta hlaup og stolt af því að vera „finisher"! Upplýsingar á heimasíðu hlaupsins eftir hlaup gáfu til kynna að a.m.k. 10% hlaupara hafi ekki náð að klára og margir lentu í vandræðum vegna hitans og þurftu aðstoð bráðaliða, bæði á brautinni og eftir hlaup.

Ferðin í heild sinni var mjög skemmtileg enda hópurinn samsettur af jákvæðu, glaðværu og skemmtilegu fólki. Allir voru sammála um að markmið hlaupsins og ferðarinnar í heild væri að hafa gaman og njóta.

Þrátt fyrir að á brattann væri að sækja í hlaupinu sjálfu var gleðin aldrei langt undan og þó að upphafleg hlaupamarkmið hafi ekki náðst hjá öllum glöddumst við yfir því að hafa komist alla leið. Lokaorðin koma frá góðum félaga í ÍR skokk: „Ég sé eitt mjög jákvætt við þetta. Alla þessa tíma er hægt að bæta"!

Unnur Árnadóttir ÍR skokkari.

ÍR skokkarar í Kaupmannahafnarmaraþoni 2016.
Anna Sigrún Björnsdóttir
Sigrún Edwald liðsstjóri
Þóra Björg Magnúsdóttir
Þóra Gréta Þórisdóttir
Ingigerður Guðmundsdóttir
Sigríður Gísladóttir
Sigurður Þórarinsson
Sævar Þór Guðmundsson
Og einnig "wannabe" ÍR skokkarinn Birna Pála Kristinsdóttir

 

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is