Hausmynd2018-RM2017
Squeezy Sport Nutrition
Pistlar/Vi­t÷l
Vi­t÷l
Yfirheyrslur
Pistlar Stefßns
Hlaupasumari­ mitt
S÷gur ˙r hlaupum
Frßsagnir hlaupara
Hugrenningar
Pistlar Sigur­ar P.
Frß umsjˇnarmanni
Leit
┴hugavert
Hlaupadagskrß 2020
Skrßningar Ý hlaup
Panta prˇgram
100km hlauparar
FÚlag mara■onhl.
HvÝtt bil 10 ß hŠ­
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 3
Ăfingadagbˇk - 115x79
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 1
hlaup.is ß Facebook
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
English
HvÝtt bil 10 ß hŠ­ - 2
Póstur torfi@hlaup.is
Pistlar/Vi­t÷l  >  S÷gur ˙r hlaupum
27.4.2020
Pistill eftir Rannveigu Oddsdˇttur: Covid-ßskoranir hlauparans

Covid-faraldurinn sem nú gengur yfir heimsbyggðina hefur víðtæk áhrif á íþróttastarf jafnt áhugafólks sem fremstu afreksmanna. Hömlur hafa verið settar á samgöngur og samskipti fólks, æfingaaðstaða er víða lokuð og mótum hefur verið aflýst. Hlauparar standa betur en margir aðrir í þessu fári því hlaup eru jú einstaklingsíþrótt sem krefst ekki snertingar við annað fólk og hægt er að stunda þau nánast hvar og hvenær sem er svo lengi sem algjört útgöngubann er ekki í gildi.

Engu að síður hefur faraldurinn áhrif á hlaupaíþróttina eins og flest annað. Keppnishlaupum hefur verið aflýst, aðstaða til inniæfinga er víðast hvar lokuð og frelsi hlaupara til að æfa í hópum hefur verið skert. Margir hlauparar finna fyrir óvissu og skertum áhuga á æfingum á þessum skrýtnu tímum. Þeir sakna hlaupafélaganna, hafa sig ekki af stað í gæðaæfingar einir og vita ekki almennilega hvert þeir eiga að stefna með æfingunum meðan óvissa ríkir um það hvaða hlaup verða haldin og hvenær.

Í þessum pislti  er fjallað um þær áskoranir sem hlauparar þurfa að takast á við og hvaða brögðum er hægt að beita til sigrast á þeim.


Rannveig hefur verið einn besti utanvegahlaupari landsins undanfarin ár.

Hlaupin sem ekki verða hlaupin
Eitt helsta aðdráttarafl hlaupaíþróttarinnar er hve auðvelt er að setja sér persónuleg markmið. Markmiðin geta verið allskonar en fleiri markmið en færri tengjast með einhverjum hætti almenningshlaupum. Fólk kemur sér í form til að geta verið með í Reykjavíkurmaraþoni, æfir af kappi heilan vetur til að koma sér í nægilega gott stand til að geta hlaupið Laugaveginn og kappsamir hlauparar sem komnir eru í fremstu röð setja markið á ákveðin hlaup þar sem þeir ætla að bæta persónuleg met eða jafnvel slá Íslandsmet.

Almenningshlaup gegna þannig mikilvægu hlutverki í því að viðhalda hlaupaáhuganum hvort sem markmið hlauparans er að reyna við Íslandsmet, persónuleg met eða bara halda sér í formi til að geta hlaupið ákveðna vegalengd. Nú eru þessi plön meira og minna í uppnámi. Fjölda hlaupa hér heima og erlendis hefur verið frestað eða aflýst á undanförnum vikum og enn ríkir óvissa um öll hlaup sumarsins. Það er því óljóst hvenær hægt verður að nálgast markmiðin sín, það er að segja þau sem snúast um það að taka þátt í ákveðnum viðburði eða ná viðurkenndum árangri í ákveðinni vegalengd.

Af þessum sökum finnst mörgum hlaupurum þeir vera í lausu lofti með markmið og tilgang hlaupanna. Það er erfitt að æfa markvisst þegar ekki liggur fyrir hvaða hlaup verða haldin eða hvenær. Það virkar jafnvel eins og sóun á æfingum að vera að koma sér í gott stand ef það verður síðan ekki hægt að taka árangurinn út í keppnishlaupi eins og til stóð. Hér er hins vegar um ákveðna hugsanavillu að ræða. Ef skynsamlega er æft og æfingarnar miða að því að byggja hlauparann upp stig af stigi þá mun hann aldrei tapa á því að æfa vel. Þótt ekki náist að njóta árangurs erfiðisins með því að bæta tímann sinn eða sigrast á ákveðnu hlaupi munu æfingarnar skila sér þótt síðar verði.

Önnur leið til að halda sér áhugasömum þrátt fyrir óvissu með keppnishlaupin er að setja sér markmið sem hægt er að meta með öðru en þátttöku í opinberu hlaupi. Markmiðið getur verið að hlaupa ákveðið marga kílómetra á viku eða byggja sig upp til að geta hlaupið ákveðna vegalengd eða leið sem síðan er farin á fyrir fram ákveðnum tíma þótt ekki sé um opinbert keppnishlaup að ræða. 

Einveran
Það eru ekki bara keppnishlaupin sem eru horfin af yfirborði jarðar um stundarsakir. Sökum samkomutakmarkana liggja hópæfingar líka niðri og það er því takmarkaður félagsskapur í boði á hlaupaæfingum. Félagsskapurinn er ekki síður mikilvægur en almenningshlaupin til að viðhalda hlaupaáhuganum. Mörgum finnst erfitt að hafa sig af stað einir og þegar æfingarnar eru ekki lengur á ákveðnum stað á ákveðnum tíma vill skipulagið líka fara úr skorðum. Æfingu er frestað til næsta dags því það fannst ekki tími eða veðrið var ekki nógu gott. Allt í einu er liðin vika frá síðasta hlaupi og það verður erfiðara að hafa sig af stað.

Hér getur hjálpað að búa sér til einhverskonar tengslanet. Margir hafa leyft sér að halda í einn til tvo hlaupafélaga en virða tveggja metra regluna þegar hlaupið er saman. Aðrir eru svo heppnir að hafa æfingafélaga innan nánustu fjölskyldu sem getur hjálpað til við að halda áhuganum lifandi og auðveldað að hafa sig af stað. Nú er líka kjörið tækifæri til að reyna að smita aðra fjölskyldumeðlimi af hlaupabakteríunni meðan nær allar aðrar íþróttaæfingar liggja niðri.

Ef engin félagsskapur er í boði á æfingum geta samfélagsmiðlarnir líka gert sitt gagn til að veita aðhald og innblástur. Hlaupahóparnir hafa verið duglegir að nota samfélagsmiðla til að halda tengslum, áfram eru settar inn upplýsingar um æfingar, fólk deilir sínum æfingum og fær pepp frá hvert öðru. Auðveldlega má koma upp sínum eigin stuðningshópi líka á samfélagsmiðlum svo sem með því að mynda æfingahópa á strava og nýta kommentakerfið þar til fylgjast með hvert öðru og setja inn hvatningarorð.

Einveran getur samt líka verið dýrmæt og það felast ákveðin tækifæri í því að hlaupa einn. Í fyrsta lagi er þá hægt að hlaupa á þeim tímum sem hentar og hægt er að stilla æfingaprógramminu upp algjörlega eftir eigin hentisemi. Það að hlaupa einn getur líka verið ákveðin slökun og núvitundaræfing, tími sem hlauparinn á algjörlega fyrir sig, kúplar sig frá öllu öðru og hugsar um það eitt að segja annan fótinn fram fyrir hinn meðan hlaupið er. 

Kraðak á göngustígum
Það er ánægjulegt að sjá hversu margir gefa sér tíma til að njóta útiveru og hreyfingar á þessum erfiðu tímum. Það hefur hins vegar skapað það vandamál að umferð á göngu- og hjólastígum hefur vaxið umtalsvert og hafa hlauparar heyrst kvarta yfir því að það sé orðið erfitt að æfa á helstu göngustígum borgar og bæja. Hér er má segja um ákveðið lúxusvandamál að ræða. Við erum vön því að hafa stígana svo gott sem út af fyrir okkur og sennilega myndu hlauparar í öðrum löndum hlægja að okkur ef þeir sæju hvað við flokkum sem „of mikla umferð á göngustígum". Það getur samt sem áður verið erfitt að hlaupa innan um fjölda fólks sem fer ýmist hægar yfir eða þeytist frammúr manni á hjólum, ekki síst ef maður ætlar að virða tveggja metra regluna.

Hér eru góð ráð dýr. Hlauparar eiga ekki neitt meira tilkall til þessara stíga en aðrir þótt þeir hafi fram til þessa notað þá meira og ekki viljum við vera dónaleg við þá sem eru loksins að uppgötva dásemdir útiverunnar. Það er því má segja þrennt sem hægt er að gera í stöðunni. Fyrsti möguleikinn er að aðlaga eigin æfingar að umferðinni á göngustígunum. Það er hlaupa á þeim hraða sem hentar hverju sinni og láta það ekki fara í taugarnar á sér þótt reglulega þurfi að hægja ferðina eða taka sveig til að mæta fólki eða hleypa hjólandi vegfaraendum fram úr sér. Og reyndin er sú að á langflestum æfingum meðalhlauparans er þetta lítið mál og eyðileggur ekki æfinguna. Annar möguleiki er að aðlaga æfingatímann sinn að umferðinni á stígunum og reyna að fara út á þeim tímum sem umferðin er minni. Þriðji möguleikinn er síðan að leita uppi stíga þar sem er minni umferð. Víða leynast stígar innanbæjar sem fáir vita af og á Íslandi búum við líka svo vel að víðast hvar þarf ekki að leita langt til að komast á fáfarna náttúrustíga. 

Tími til að njóta
Þetta eru vissulega svolítið erfiðir tímar og það eru ákveðnar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. En þetta er líka góður tími til að staldra aðeins við og velta því fyrir sér til hvers við erum að þessu. Er það bara þátttaka í næsta hlaupi sem dregur okkur áfram? Erum við ef til vill orðin þrælar markmiðanna okkar þannig að við berjum okkur áfram til þess eins að ná næsta markmiði? Mætum við bara á æfingu til að vera hluti af hlaupahóp því það er hipp og kúl núna? Eða vegna þess að okkur finnst við þurfa að drösla okkur áfram í einhverja líkamsrækt til að verða ekki feit og löt?

Nú er góður tími til að staldra aðeins við og núllstilla sjálfan sig. Hlaupa til að njóta og velta því fyrir sér hver raunverulegur tilgangur manns er með æfingunum. Erum við bara að hlaupa til að geta klárað næsta hlaupaafrek? Eða gefa hlaupin okkur raunverulega lífsfyllingu sem er áfram jafn mikils virði þótt óljóst sé hvenær verður næst hægt að taka þátt í keppnishlaupi.

  

Til baka
 
 
Athugasemdir
 
 
Settu inn athugasemd:

 
Sportv÷rur 2XU Jan 2020
HvÝtt bil 5 ß hŠ­ - 3
 
© Allur rÚttur ßskilinn. Birting ß ■essu efni ß ÷­rum mi­lum er ˇleyfileg nema me­ leyfi hlaup.is