Almennar upplýsingar Jökulsárhlaup 2007 er nú haldið í fjórða skipti þann 28. júlí og verður hlaupið frá eftirfarandi 3 stöðum.
- Dettifossi - Ásbyrgi 32,7 km
- Hólmatungur - Ásbyrgi 21,2 km
- Vesturdalur - Ásbyrgi 13,2 km
Skráning og skráningargjald Forskráning fer fram á netinu hér á hlaup.is en einnig er hægt að hafa samband við skipuleggjendur á jokulsarhlaup@kopasker.is varðandi greiðslu þátttökugjalda. Skráningu og greiðslu þátttökugjalda lýkur kl. 20:00 þann 25. júlí.
- Hlaup frá Dettifossi: kr. 5.000, Innifalið rúta, bolur, merki, grill
- Hlaup frá Hólmatungum: kr. 5.000, Innifalið rúta, bolur merki, grill
- Hlaup frá Vesturdal: kr. 4.000. Innifalið rúta, bolur merki, grill
- Ganga Vesturdal: kr. 4.000. Innifalið rúta, bolur, merki, grill.
Mæting á hlaupsstað Hlauparar þurfa að mæta í Gljúfrastofu, gestastofu þjóðgarðsins, í mynni Ásbyrgis, laugardaginn 28. júlí, til að fá hlaupanúmer. Tímasetning mætingar er mismunandi eftir vegalengd sem hlaupin er:
- Dettifoss-Ásbyrgi (32,7km), mæting kl. 10:00, brottför rútu kl. 10:30. Hlaupið hefst kl. 12:00.
- Hólmatungur-Ásbyrgi (21,2 km), mæting 11:30, brottför rútu kl. 11:50. Hlaupið hefst kl. 13:00.
- Vesturdalur-Ásbyrgi (13,2 km), mæting 12:40, brottför rútu kl. 13:10. Hlaupið hefst kl. 13:45.
Hægt er að skipta um föt í þjónustuhúsi tjaldstæðanna.
Rútuferðir að rásmarki Sem fyrr segir er farið á rútum að rásmarki á stöðunum þremur. Aðstæður við rásmark eru mismunandi en gert er ráð fyrir að eftir rútuferðina hafi hlauparar einhverja stund (10-20 mín.) til að liðka sig fyrir hlaupið. Engin búningsaðstaða er við rásmörk og ekki eru vatnssalerni við Hólmatungurásmark.
Þátttakendur geta skilið eftir merkta poka með hlífðarfötum oþh. í rútunni og nálgast þá við markið í Ásbyrgi að hlaupi loknu. Ekki er tekin ábyrgð á verðmætum í þessum pokum.
Hlaupaleiðin Hlaupið er um stórbrotið land með útsýni yfir Jökulsárgljúfur, þmt. Ásbyrgi. Óhætt er að þessi hlaupaleið eigi ekki sinn líka hvað umhverfið varðar. Hrjóstrugasti hluti leiðarinnar er leggurinn Dettifoss-Hólmatungur, en þar er hlaupið á sandi, klöppum og grófum melum. Fyrir ofan Hólmatungur taka við moldargötur í grónu landi og eftir því sem neðar dregur tekur kjarrlendi við. Vaða þarf yfir eina á, Stallá, en þar verða laxapokar fyrir þá sem vilja. Frá Rauðhólum neðan Hljóðakletta eru hlaupnar götur eftir gömlum farvegi Jökulsár, frá þeim tíma er Ásbyrgi myndaðist og er víða yfir klappir að fara. Síðasti hluti leiðarinnar liggur norður meðfram Ásbyrgi, eftir göngu-/fjárgötum í birkiskógi. Getur það reynst þreyttum fótum heldur tafsamur áfangi.
Kort af leiðinni Hægt er að finna kort af Dettifoss-Ásbyrgi og Vesturdalur-Ásbyrgi leiðinni hér á hlaup.is undir Hlaup/Kort/Almenningshlaup. Sjá einnig hæðarsnið af leiðinni.
Drykkjarstöðvar Boðið verður upp á drykk (vatn/orkudrykk) með uþb. 5 km millibili á eftirfarandi stöðum: Við Dettifoss norðan Hafragils, Hólmatungum, Stallá, Vesturdal, Kvíum, fyrir botni Ásbyrgis og við Tófugjá austan Ásbyrgis.
Öryggisgæsla Öryggis hlaupara verður gætt á þeim stöðum þar sem hlaupið er nálægt gljúfurbarmi eða ástæða þykir til. Það skal tekið fram að þátttakendur hlaupa á eigin ábyrgð.
Verðlaunaafhending Afhending verðlauna fer fram við endamark í Ásbyrgi og er áætlað að það verði kl. 17:00.
Sveitakeppni Boðið er upp á þriggja manna sveitakeppni sem hægt er að mynda óháð kyni og aldri. Keppt er um minnstan samanlagðan tíma. Skráning í sveitir fer fram samhliða almennri skráningu eða um leið og afhending gagna fer fram þann 28. júlí.
Bað / sund Hægt er að komast í bað í þjónustumiðstöð tjaldstæðisins í Ásbyrgi. Sundlaugin í Lundi er 5 km austan Ásbyrgis, boðið er upp á heitan pott og sund.
Veitingar Grillmatur frá Fjallalambi er innifalinn í hlaupagjaldi. Áætlað er að veitingar verði tilbúnar þegar verðlaunaafhendingu lýkur, um kl. 17:30.
Gisting Í héraðinu er boðið upp á gistingu á allnokkrum stöðum:
- Tjaldstæðin í Ásbyrgi / Vesturdal
- Ferðaþjónustan í Skúlagarði, s: 465-2280
- Ferðaþjónustan í Lundi, s: 465-2247
- Ferðaþjónustan í Keldunesi, s: 465-2275 / 847-1593
- Ferðaþjónustan á Hóli, s: 465-2270 / 465-2353 846-3835 / 855-2272
- Gistiheimilið á Kópaskeri, s: 465-2314
- Víðihóll – orlofsíbúðir Kópaskeri, s: 465-2122 / 869-8166
Nánari upplýsingar Einnig er hægt að sjá þessar upplýsingar á vefsíðu fyrir Jökulsárhlaup.
Ganga úr Vesturdal í Ásbyrgi Gengið úr Vesturdal/Hljóðaklettum í Ásbyrgi undir leiðsögn landvarðar. Gangan hefst kl. 10:30 og mæting í Ásbyrgi (tjaldstæði) er kl. 10:00. Þátttökugjald í gönguna er kr. 3.000 fyrir 16 ára og eldri og 1.000 kr. fyrir börn. Grill, rúta og bolur innifalið en göngufólk þarf að hafa með sér drykk (nesti). Göngutími áætlaður 4-5 klst. Best er að skrá sig í gönguna á jokulsarhlaup@kopasker.is eða hér á hlaup.is.
Myndir frá Jökulsárhlaupi 2004 Skoðið myndir frá hlaupinu 2004 hér á hlaup.is
Upplýsingar um staðhætti
 |
Jökulsá á Fjöllum á upptök sín í Vatnajökli og rennur til sjávar í Öxarfjörð. Við hálendisbrúnina lækkar landið og áin steypist í stórum fossum niður í gljúfrin sem eru við hana kennd. Jökulsárgljúfur eru ein stærstu og hrikalegustu árgljúfur á Íslandi, um 25 km löng, ½ km á breidd og dýptin víða um eða yfir 100 m.
Jökulsárgljúfur og umhverfi þeirra hafa heillað margan ferðalanginn. Gífurleg hamfarahlaup, Jökulsárhlaup, eru talin hafa myndað og mótað gljúfur, gil, klappir og byrgi. Frægust þeirra er Ásbyrgi. Hljóðaklettar við Vesturdal eru innviðir fornra eldstöðva þar sem Jökulsá hefur sópað öllu lausa gosefninu í burtu en litlu norðar standa Rauðhólar, hinir upprunalegu gjallgígar.
|

|
|
|