Framfarir, hollvinafélag millivegalengda- og langhlaupara, kynnir 15. víðavangshlauparöð sína á haustdögum 2018.
Tímasetningar og staðsetningar Hlaupin eru fjögur og með sama sniði og undanfarin ár, hefjast kl. 10:00 á laugardagsmorgnum (ekki sunnudögum eins og áður var auglýst) í október og nóvember. ( breyttur rástími miðað við fyrri ár).
Vegalengdir Um tvær vegalengdir er að ræða, "stutt" og "langt" hlaup, og hefst styttra hlaupið á undan. Stutta hlaupið er yfirleitt um 800-1000m og það langa 5-8 km.
Eftirfarandi eru staðsetningar og dagsetningar: 1. 6.október á frisbígolfvellinum í Fossvogi 2. 13.október við Perluna 3. 20.október við Tjaldstæðið í Laugardal (Víðavangshlaup Íslands) 4. 3.nóvember við Borgarspítalann í Reykjavík
Þátttökugjald Keppnisgjald er 500kr en ókeypis fyrir börn undir 12 ára aldri. Skráning á staðnum.
Stigakeppni Stigakeppni er í flokkum karla og kvennaþ Þáttakendur mega og eru hvattir til að taka þátt í báðum hlaupum á sama degi. Bæði hlaup á gefnum degi gilda til stiga einstaklings í stigakeppninni en aðeins þrír bestu keppnisdagar gilda í lokin. Þannig er óhætt að forfallast í einu hlaupi án þess að heltast úr lestinni í stigakeppninni.
Annað Allir hlauparar, óháð getustigi eru hvattir til að taka þátt í Framfarahlaupunum í haust! Allir eru velkomnir, hvort sem um ræðir hlaupara í fremstu röð eða frístundaskokkara. Hlaupaleiðirnar eru við allra hæfi. Nefndarmenn í Langhlaupanefnd FRÍ eru sammála um að hlaup af þessu tagi séu ein besta æfing sem hlaupari getur tekið og skemmtileg tilbreyting frá malbikinu.
Stuðst verður við úrslit úr Víðavangshlaupi Íslands og Framfarahlaupunum við val á landsliði Íslands til þátttöku í norðurlandamótiði í víðavangshlaupum sem haldið verður á tjaldstæðinu í Laugardal þann 10.nóvember.
Áhugasömum um landsliðsval í víðavangshlaupum er bent á viðmiðanir FRÍ fyrir götuhlaup og á Facebook-hópinn, Landsliðsval fyrir NM í víðavangshlaupum 2018.
Nánari upplýsingar Nánari upplýsingar veitir Burkni Helgason, burknih@gmail.com, s. 6600078
Kort og hlaupaleiðir Kort og lýsingar á brautum fara hér á eftir:
Hlaup nr.1 - Frisbígolfvöllurinn í Fossvogi, 6.október Hringurinn er um 860 að lengd, mestmegnis á grasi með nokkru af malarstígum og á einum stað er stokkið yfir læk. Hægt er að hlaupa á gaddaskóm. Hlaupnir eru einn hringur (860m) í stutta hlaupinu og sjö hringir (6km) í því langa. Bílastæði eru við Fossvogsskóla.

Hlaup nr.2 - Perlan 13. október Hringurinn er um 1.5km að lengd og afar hæðóttur. Undirlagið er gras, möl og sléttir steinar. Ekki er mælt með að hlaupa á gaddaskóm. Hlaupinn er einn hringur (1.5km) í stutta hlaupinu en fjórir hringir (6km) í því langa. Næg bílastæði eru við Perluna.
Hlaup nr.3 - Tjaldstæði í Laugardal, 20.október Þetta hlaup er jafnframt Víðavangshlaup Íslands, meistaramót Íslands í víðavangshlaupum. Það er þó öllum opið og hlauparar af öllum getustigum hvattir til að vera með. Hringurinn er um 1.5km að lengd, mestmegnis á grasi en að nokkru leyti á möl. Hentugt er að hlaupa á gaddaskóm. Á þessum sama hring verður kept í Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum þann 10.nóvember næstkomandi. Start og mark er á grasbala á miðju tjaldstæðinu og brautin liggur um nærsvæði þvottalauganna. Hún er nokkuð hæðótt. Hér er ekki skipt í stutt og langt hlaup heldur hlaupa kyn og aldursflokkar mislangt, frá 3km upp í 8km.
Bílastæði eru við Farfuglaheimilið.
Hlaup nr.4, Borgarspítali, 3.nóvember Hringurinn er 1km að lengd, hæðóttur og á köflum mýrlendur. Mælt er með að hlaupa í gaddaskóm eða utanvegaskóm. Hlaupinn er 1 hringur (1km) í stutta hlaupinu en 6 (6km) í því langa.
Bílastæði eru við spítalann.

|