North Ultra Fjallakofans - Viðtöl við hlaupara

uppfært 02. september 2021

Hlaup.is fylgdist með hlaupurunum í North Ultra Fjallakofans sem fram fór um síðustu helgi. Við tókum viðtöl og fylgdumst með í brautinni, sjá frétt með þeim vídeóum.

Við byrjuðum á ræða við Helgu Maríu Heiðarsdóttir hlauphaldari sem skipulagði hlaupið um morguninn rétt áður en 56 km hlaup hófst. Hún sagði okkur frá tilurð hlaupsins.

Einnig spurðum við Rannveigu Oddsdóttur um stöðuna og hennar væntingar til hlaupsins rétt áður en 56 km hlaupið startaði á Dalvík.

Það var líka gaman að ræða við Pólverjann Sylwester Kalucki sem er búinn að búa á Íslandi í 13 ár. Hann er bara búinn að hlaupa í tæplega 2 ár, en kominn strax í 56 km Ultra hlaup.

Eftir að fyrstu hlauparar komu í mark í 56 km hlaupinu tókum við Þorberg Inga Jónsson tali og heyrðum hvernig honum gekk í hlaupinu og hvað varð til þess að hann var ekki þátttakandi í CCC hlaupinu í UTMB viðburðinum sem fram fór í sömu viku og sömu helgi.

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir er búin að hlaupa mörg af lengstu hlaupum Íslands. Við báðum hana að segja okkur frá þessu hlaupi og hvernig henni hafi gengið í sumar.

Á Ólafsfirði hittum við fyrir nokkra hlaupara sem voru að bíða eftir að 25 km North Ultra Half hlaupið byrjaði. Við tókum nokkra tali.

Við heyrðum hvað varð til þess að Nökkvi og María stukku skyndilega til og fóru með stuttum fyrirvara í 25 km hlaupið.

Nico og Karen frá Austurríki hafa búið á Íslandi í eitt og hálft ár en aldrei hlaupið jafn mikið af utanvegahlaupum. Þau hafa nánast þrætt utanvegahlaupin í sumar og líkar geysilega vel.

Hreiðar Júlíusson þjálfar Skokkhóp Hauka og hann var spenntur fyrir að hlaupa þessa vegalengd, en eins og svo margir hefur hann margoft þurft að horfa á eftir maraþoni sem hann ætlaði að taka þátt í færast lengra og lengra fram í tímann.

Að lokum fengum við Árna Þór Finnsson til að lýsa 25 km leiðinni eftir að hann kláraði hlaupið og segja okkur af hverju hann ákvað að hlaupa á undan hlaupafélögunum sínum. Bað hann þau afsökunar eða hvað ??