Trékyllisheiðin er utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í fjórða sinn laugardaginn 17. ágúst 2024. Skíðafélag Strandamanna stendur að hlaupinu, en Strandagöngur félagsins eru vinsæll hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands. Bækistöðvar félagsins eru í nýlegum skíðaskála á Brandsholti í Selárdal inn af botni Steingrímsfjarðar, u.þ.b. 16 km norðan við Hólmavík. Þar enda öll hlaupin.
Valkostirnir verða fjórir að þessu sinni:
- Trékyllisheiðin Ultra 48,4 km (úr Trékyllisvík, um 1.150 m hækkun)
- Trékyllisheiðin Midi 25,7 km (frá Djúpavík, um 660 m hækkun)
- Trékyllisheiðin Mini 16,5 km (af Bjarnarfjarðarhálsi, um 300 m hækkun)
- Trékyllisheiðin Junior 3,7 km (frá Bólstað, um 70 m hækkun)
Staðsetning
Lengsta hlaupið hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík, næstlengsta hlaupið við Hótel Djúpavík í Reykjarfirði og það þriðja á Bjarnarfjarðarhálsi milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar. Ungmennahlaupið hefst svo við eyðibýlið Bólstað í Selárdal. Sætaferðir verða frá skíðaskálanum að rásmörkum hlaupanna og sem fyrr segir enda öll hlaupin við skíðaskálann.
Sætaferðir
Boðið er upp á sætaferðir að morgni hlaupadags frá endamarkinu í Selárdal að rásmörkum allra hlaupanna. Fargjaldið til Trékyllisvíkur er 7.000 kr/mann, 5.000 kr/mann til Djúpavíkur og 2.000 kr/mann að rásmarki á Bjarnarfjarðarhálsi. Flutningur að rásmarki ungmennahlaupsins er innifalinn í skráningargjaldi. Um fargjöld gilda sömu endurgreiðsluskilmálar og með þátttökugjöld, (sjá neðar). Þeir sem afþakka sætaferð við skráningu geta eftir sem áður pantað far með því að senda tölvupóst á Skidafelagstrandamanna@gmail.com í síðasta lagi 31. júlí 2024. Ekki er þó hægt að tryggja að nægt sætaframboð verði á þeim tíma.
Dagskrá hlaupadags
- Kl. 07:30 - Rútuferð frá skíðaskála í Selárdal norður í Trékyllisvík
- Kl. 10:00 - Start 48,4 km við Félagsheimilið í Árnesi
- Kl. 10:00 - Rútuferð frá skíðaskála í Selárdal norður í Djúpavík
- Kl. 12:00 - Start 25,7 km við Hótel Djúpavík
- Kl. 12:15 - Rútuferð frá skíðaskála í Selárdal upp á Bjarnarfjarðarháls
- Kl. 13:00 - Start 16,5 km á Bjarnarfjarðarhálsi
- Kl. 13:40 - Rútuferð frá skíðaskála í Selárdal yfir að Bólstað
- Kl. 14:00 - Start 3,7 km ungmennahlaup við Bólstað
- Kl. 14:00 - Von á fyrstu keppendum í mark
- Kl. 15:30 - Verðlaunaafhending í Selárdal (eða þegar þrjú fyrstu eru komin í mark)
- Kl. 18:00 - Marki lokað
Skráning og þátttökugjöld
Skráning fer fram á https://netskraning.is/trekyllisheidin/. Þar er einnig að finna skilmála hlaupsins sem samþykktir eru við skráningu. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti að kvöldi sunnudagsins 11. ágúst. Skráning í ungmennahlaupið er þó opin fram að ræsingu hlaupsins.
- Trékyllisheiðin Ultra 48,4 km: Til 29. feb 11.900 - Til 30. júní 13.900 - Frá og með 1. júlí 15.900
- Trékyllisheiðin Midi 25,7 km: Til 29. feb 9.900 - Til 30. júní 11.900 - Frá og með 1. júlí 13.900
- Trékyllisheiðin Mini 16,5 km: Til 29. feb 5.900 - Til 30. júní 6.900 - Frá og með 1. júlí 7.900
- Trékyllisheiðin Junior 3,7 km: 2.000 kr (sama verð fram að hlaupi)
Innifalið í þátttökugjaldi er:
- Flögutímataka og númer (https://timataka.net)
- Brautar- og öryggisgæsla
- Drykkir og næring á drykkjarstöðvum og í marki
- Salernisaðstaða við rásmark og í marki
- Flutningur á farangri frá rásmarki að endamarki
- Verðlaun fyrir 3 efstu karla og konur
- Flutningur frá skíðaskála að Bólstað vegna ungmennahlaups
Afhending gagna
Hlaupagögn verða afhent í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík föstudaginn 16. ágúst kl. 18:00-21:00. Mikilvægt er að sem flestir sæki gögnin sín þá. Gögn sem ekki verða sótt á föstudeginum verða afhent í skíðaskálanum, í rútum á leið að rásmarki og við rásmark.
Tímamörk
- Trékyllisheiðin Ultra (48,4 km): 8:00 klst
- Trékyllisheiðin Midi (25,7 km): 5:40 klst (tími Þórbergs)
- Trékyllisheiðin Mini (16,5 km ): 4:00 klst
Drykkjarstöðvar
Fjórar drykkjarstöðvar verða á lengstu leiðinni, tvær á Djúpavíkurleiðinni og ein á 16,5 km leiðinni. Auk þess verður boðið upp á hressingu við endamark. Drykkjarstöðvarnar verða norðvestan við fjallið Glissu (eftir 13,2 km), við Búrfellsvatn (eftir 25,6 km), við Goðdalsá (eftir 34,0/11,5 km) og við vegamótin inn af Bjarnarfjarðarhálsi (eftir 40,0/17,5/8,5 km).
Á drykkjarstöðvunum verður a.m.k. boðið upp á vatn og orkudrykk. Engin pappa- eða plastmál verða þar til staðar, heldur verða hlauparar að koma með fjölnota glös til að geta fengið drykki.
Brautarvarsla og merkingar
Leiðin er að mestu leyti auðrötuð, þar sem hlaupið er eftir jeppaslóðum og troðnum stígum. Merkingum verður bætt við þar sem vafi getur leikið á hvert halda skuli. Einnig verður brautarvarsla á mikilvægustu stöðum, svo sem við vegamót norðan við Mela, við vegamót á Eyrarhálsi, við afleggjara inn af Bjarnarfjarðarhálsi, í brúninni ofan við Bólstað og á Geirmundarstaðavegi. Þá verður aðstoðarfólk til taks við vöðin á Goðdalsá og Selá, þar sem báðar eiga það til að vera nokkuð vatnsmiklar. Kaðall verður strekktur yfir Selá.
Verðlaun
Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokkum. Auk þess verða veitt nokkur vegleg útdráttarverðlaun.
ITRA/UTMB-stig
Lengsta hlaupið gefur tvo ITRA-punkta og 25,7 km hlaupið gefur einn ITRA-punkt. Öll hlaupin gefa ITRA-stig.
Nánari upplýsingar
Vefsíða hlaupsins er https://trekyllisheidin.com
Enn nánari upplýsingar:
- Skidafelagstrandamanna@gmail.com
- Sími 893 3592 (Ragnar Bragason)
- Sími 862 0538 (Stefán Gíslason)