Þátttökugjald

  • 14 km7.000 kr
  • 17,5 km7.000 kr
  • 22 km7.000 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir14 km, 17,5 km, 22 km
  • Dagsetning20. maí 2024

Hvítasunnuhlaup Skokkhóps Hauka og Brooks fer fram árið 2024 í tólfta sinn á annan dag Hvítasunnu, mánudaginn 20. maí kl. 10:00.

Hvítasunnuhlaup Hauka, Brooks og heilsubæjarins Hafnarfjarðar,  er glæsilegt utanvegahlaup um fallegt uppland Hafnarfjarðar. Hlaupið byrjar og endar á Ásvöllum í Hafnarfirði, og er val um þrjár hlaupaleiðir 14 km, 17,5 km og 22 km. Hlaupið hefur verið skipulagt og unnið í sjálfboðavinnu af félögum í Skokkhópi Hauka sem telur um 100 félaga. Mikil samstaða er um að gera hlaupið sem glæsilegast og hefur hlaupið unnið til verðlauna meðal bestu utanvegahlaupa á landinu. Á þessum árum hefur hlaupið vaxið og dafnað og verið uppselt. Hlaupið er viðurkennt af ITRA og gefur 22 km hlaupaleiðin 1 punkt og allar vegalengdir munu gefa ITRA stig, sem meðal annars gilda fyrir Laugavegshlaupið.

Skokkhópur Hauka hefur í tengslum við Hlaupið styrkt Skógrækt Hafnarfjarðar og Íþróttafélag Hauka myndarlega og verður einnig svo í ár. Ákveðið hefur verið að veita ekki verðlaunapeninga nema fyrir efstu þrjú sætin í karla og kvennaflokki í hverri vegalengd og munu þess í stað 500 krónur af skráningargjaldi hvers hlaupara renna til íþróttafélagsins Hauka.

Hvítasunnuhlaupið er utanvegahlaup og því mikilvægt að fara varlega á misjöfnu undirlagi.  Hlauparar taka þátt í Hvítasunnuhlaupinu á eigin ábyrgð.  Framkvæmdaaðilar geta á engan hátt verið ábyrgir fyrir skaða sem keppendur hugsanlega verða fyrir eða valda öðrum á meðan á þátttöku í hlaupinu stendur.  Með skráningu í hlaupið og því að sækja rásnúmer staðfestir þátttakandi skilning á þessu og samþykkir skilmála hlaupsins.

Hlauparar eru hvattir til að skoða myndir og myndbönd úr Hvítasunnuhlaupinu sem gefur glögga mynd af stemmningunni í hlaupinu.

Vegalengdir og hlaupaleið (gefa allar ITRA stig)
  • 22 km
  • 17,5 km
  • 14 km

Hlaupið er um stórkostlegar náttúruperlur í næsta nágrenni Hafnarfjarðar s.s. Ástjörn, Hvaleyrarvatn, Stórhöfða og Höfðaskóg.

Google kort af leiðinni er neðst á þessari síðu. Hlaupaleiðin gæti þó lítið eitt breyst vegna framkvæmda en leiðin verður vel merkt.

GPS af hlaupaleið.

22 km leiðin
Hlaupið er frá Ásvöllum, hálfan hring í kringum Ástjörnina, upp á Vatnshlíðina, niður að Hvaleyrarvatni og réttsælis meðfram vatninu. Þaðan á malarveg að Stórhöfðastíg, eftir stígnum í kringum Stórhöfðann og síðan upp á höfðann, niður af höfðanum hinumegin og inn Kjóadalinn. Þaðan er hlaupið örstutt eftir malarvegi og inn á stíg til vinstri sem liggur nánast að skátaheimilinu við Hvaleyrarvatn. Þar er haldið eftir malarvegi til hægri tæplega 5 km hring eða þar til komið er inn í skógræktina. Inn í skógræktinni er hlaupinn smá hringur og komið út nálægt Skátaheimili en þá er haldið að Hvaleyrarvatni. Leiðin liggur þá eftir skógarstígum upp í hlíðinni og aftur niður að vatni. Nú er farið rangsælis meðfram vatninu u.þ.b 600m þar til beygt er upp Vatnshlíðina. Farið er yfir Vatnshlíðina og til baka að Ástjörn, til vinstri í átt að Ásvöllum eftir malarstíg, yfir litla göngubrú, kringum íþróttasvæðið rangsælis og komið í mark á Ásvöllum á sama stað og var ræst.

17 km leiðin
Sama leið og 22 km en 17 km hlauparar sleppa 5 km hringnum við skátaheimilið.

14 km leiðin
Sama leið og 22 km en 14 km hlauparar sleppa 5 km hringnum við skátaheimilið og fara ekki upp á Stórhöfða.

Skráning og þátttökugjald

Skráning fer fram hér á hlaup.is, sjá efst á þessari síðu og er hægt að skrá sig í hlaupið þar til kl. 23:59 miðvikudaginn 15. maí.

Skráningargjaldið er 6.000 kr í forskráningu til miðnættis 7. apríl, en hækkar frá og með 8. apríl í 7.000. Allir sem skrá sig fyrir miðnætti 7. apríl eiga möguleika á að vinna Brooks hlaupaskó.

Hægt er að kaupa öryggistösku frá Fætur toga í skráningarferlinu og bætist verðið við skráningargjaldið (afhent með skráningargögnum). Verðið á öryggistöskunni er 3.490 kr. Sjá nánari lýsingu á innihaldi öryggistösku hér neðar á síðunni.

Að hámarki verða skráðir 500 hlauparar og lokar skráning þegar því er náð. Hlauparar sem þurfa að hætta við skráningu er veitt full endurgreiðsla til 5. maí. Ekki er endurgreitt eftir þann tíma. Nafnabreytingar skulu gerðar hjá hlaup@hlaup.is fyrir miðnætti mánudaginn 13. maí.

Afhending gagna

Afhending númera verður hjá Fætur Toga Höfðabakka fimmtudag fyrir hlaup eftir hádegið (nánar auglýst síðar). Góð tilboð fyrir hlaupara í búðinni og hægt að skrá sig á staðnum, ef ennþá verða laus pláss.

Þeir hlauparar sem kaupa öryggistösku fá hana afhenta með skráningargögnum.

Einnig verður hægt að sækja númer og skrá sig á hlaupdag milli 8:15 og 9:00 á Ásvöllum. Númeraafhending lokar kl. 9:00. Hlauparar eru hvattir til að sækja númer fyrir Hvítasunnuhelgi til að forðast örtröð fyrir hlaup.

Aldurstakmark

Hlauparar verða að vera 16 ára á árinu til að mega taka þátt.

Tímataka

Tímataka með flögu.

Verðlaun

Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, í kvenna- og karlaflokki, í hverri vegalengd, 14 km, 17,5 km og 22 km. Þá verða fjölmörg glæsileg útdráttarverðlaun.

Þjónusta

ATHUGIÐ að upplýsingar um veitta þjónustu hér fyrir neðan eru birtar með fyrirvara um breytingar.

  • Boðið verður upp á vatn og orkudrykki á þremur drykkjarstöðvum. Hlauparar í 22 km hlaupi mega EINUNGIS nota drykkjarstöð númer 2, en ekki aðrar drykkjarstöðvar. Þetta er gert vegna ITRA reglna.
  • Ekki verður boðið upp á pappa- eða plastmál á drykkjarstöðvum, heldur verða hlauparar að koma með fjölnota glas til að geta fengið drykk á drykkjarstöðvum. Ekkert glas, enginn drykkur.
  • Eftir hlaup verður boðið upp á hressingu. Frítt er í sund fyrir hlaupara í Ásvallalaug.

Öryggistaska

Hægt er að kaupa öryggistösku í skráningarferlinu, sem inniheldur skyldubúnað fyrir lengri utanvegahlaup ásamt litlum skyndihjálparpakka. Athugið að það er enginn skyldubúnaður í Hvítasunnuhlaupinu, en mælt er með að hlauparar hafi að minnsta kosti álteppi, flautu og fjölnota glas. Innihald pakkans er eftirfarandi:

  • Álteppi (skyldubúnaður í utanvegahlaup)
  • Fjölnotaglas (skyldubúnaður í utanvegahlaup)
  • Neyðarflauta (skyldubúnaður í utanvegahlaup)
  • Lítill poki utan um skyldubúnaðinn sem hægt er að nota sem ruslapoka
  • Þrýstihringur (settur á útlim til að stöðva blóðrás)
  • Plástrar
  • Heftiplástur
  • Grisja
  • Lítil skæri
  • Taska utan um allan búnaðinn með 3 vösum
  • Hægt að koma snjallsíma fyrir í töskunni
  • Hægt að festa töskuna við belti
  • Hægt að festa föskuna á bakpoka með lítill klemmu sem er áföst á töskunni.

Fætur Toga Öryggistaska 2
Innihald öryggistösku

Nánari upplýsingar

Facebook síða hlaupsins: Hvítasunnuhlaup Hauka og Brooks
Nánari upplýsingar má nálgast með því að senda póst á hvitasunnuhlauphauka@gmail.com