Þann 13. nóvember 2016 fórum við nokkrir hlaupafélagar og hlupum þekkta leið frá Marathon til Aþenu. Minnugir sögunnar um hvernig fór fyrir þeim fyrsta sem vitað er að hafi hlaupið þessa leið var okkur ekki alveg rótt. Við vissum að töluverður hluti leiðarinnar væri á fótinn en þó fannst okkur brekkurnar ekki vera þannig að þær ættu að gera út af við nokkurn mann. Þess vegna var svona til öryggis lagst í smá heimildavinnu fyrir hlaupið. Að rannsókn lokinni urðum við öllu rórri og skildum örlög fyrsta maraþonhlaupagikksins betur en áður.
Stutta útgáfa sögunnar er eittvað á þessa leið:
Pheidippides hljóp árið 490 BC til Aþenu með þær fréttir að her Aþenu hefði tekist hið ómögulega, sem var að stökkva á flótta mun stærri her Persa sem ráðist hafði á land við Marathon og hrekja þá aftur til skipa sinna. Datt hann niður dauður eftir fréttaflutninginn. Þótt svona skuli hafa farið fyrir Pheidippides er ástæðulaust fyrir maraþonhlaupara dagsins í dag að hafa miklar áhyggjur af því að svona geti farið fyrir þeim. Það nefnilega fylgir yfirleitt ekki sögunni að Pheidippides hljóp skömmu áður 140 mílur (rúma 200 km) yfir erfitt fjalllendi til að biðja Spartverja um liðveislu. Þeir höfnuðu liðveislunni í fyrstu þannig að Pheidippides þurfti að hlaupa til baka sömu leið, þramma síðan með her Aþenu til Marathon og berjast þar daglangt í fullum herklæðum.
Þegar fyrir lá að Aþenu her hafði haft sigur, með mikilli herkænsku, var aumingjans Pheidippides látinn hlaupa aftur til Aþenu með fréttirnar (einhverjar heimildir segja að það hafi tekið hann um þrjá tíma sem telst dágott í dag!). Þannig að í þessu ljósi er afrek hans heldur betur ótrúlegt en örlögin ekki. Þess má geta í framhjáhlaupi að Persar réðust aftur til atlögu beint á Aþenu en í millitíðinni, fyrir tilstuðlan Pheidippides, hafði Aþenubúum gefist ráðrúm til að undirbúa sig og höfðu í þetta skiptið fengið Spartverja til liðs við sig. Þeir höfðu því á endanum betur og náðu að hrinda sókn Persa, the rest is history.
Höfundur: Gunnar Ármannsson, hlaupari úr Hlaupahópi Stjörnunnar.