Gran Vuelta Valle del Genal er 128 kílómetra langt fjallahlaup í Andalúsíu á Spáni. Hlaupið er um skógivaxin fjöll del Genal dalsins og er samanlögð hækkun í hlaupinu um 6,400 metrar. Við lögðum af stað þrír Íslendingar, ég sjálf, Christine Buchholz og Daníel Smári Guðmundsson en annars voru þátttakendur nær allir heimamenn, tæplega 400 karlar og 30 konur. Hlaupið var ræst í þrumuveðri og úrhellis rigningu kl. 06:00 að morgni 4. nóvember og fram eftir degi gekk á með dembum svo stígar voru víða eitt drullusvað. Fyrir nóttina stytti upp og þessa 13 tíma sem myrkrið varði var blankalogn, stjörnubjart og fullt tungl svo stemningin var vægast sagt mögnuð. Hringurinn er hlaupinn upp og niður brattar fjallshlíðar og liggur í gegn um 15 lítil þorp sem kúra í dalnum. Þorpin einkennast af hvítmáluðum húsum sem standa við þröngar mósaíkgötur og alls staðar er byggt í brekkum. Fegurðin er ótrúleg á þessu svæði, húsin skreytt með blómum, múrsteinum og flúruðu járni og allt svo hreint og snyrtilegt. Allt um kring blasa svo við skógivaxnar hæðir, svo langt sem augað eygir.Það er skemmst frá því að segja að Christine rúllaði hlaupinu upp á 22 tímum og 17 mínútum, enda mikill reynslubolti þar á ferð þegar kemur að slíkum hlaupum. Ég sjálf glímdi við nuddsár eftir um 90 kílómetra sem háðu mér það sem eftir var hlaups (hafði fram að þessu lengst farið Laugaveginn svo þetta var dálítið stökk í djúpu laugina!).
Fjórðungur heltist úr lestinni
Ég skilaði mér þó í mark á 30 tímum og 55 mínútum, rétt á eftir Daníel sem kláraði á 30 tímum og 45 mínútum, en við höfðum fylgst að þar til síðustu kílómetrana. Það var mikil gleði sem fylgdi því að hlaupa í mark eftir þessa þrekraun, en rúmlega fjórðungur þátttakenda lauk ekki hlaupinu.Þetta hlaup er virkilega krefjandi, en um leið skemmtilegt og virkilega vel að öllu staðið hvað varðar skipulag, matar- og drykkjarstöðvar og merkingar á leiðinni. Þetta var því sannkallað ævintýri að upplifa í umhverfi sem á sér varla hliðstæðu.
Eva Ólafsdóttir.