uppfært 25. desember 2024

Af hverju? Jú, ef það er maraþon í boði þá hleypur maður maraþon. Og ef maður er á stað og tíma þar sem er maraþon þá hleypur maður maraþon. Og ef maður er í Bergen fyrsta laugardag í desember þá er boðið upp á maraþon. Og þá hleypur maður maraþon í Bergen. Einfalt.

Ég hef tvisvar verið í Bergen þann 7. desember og í bæði skiptin hitti sá dagur á laugardag – maraþondag. Árin 2019 og nú í ár 2024. En í hvorugt skiptið var um tilviljun að ræða heldur var um mjög meðvitaða ákvörðun að ræða. Við hjónin vorum að slá tvær ef ekki þrjár flugur í sama höfuðið, heimsækja vini okkar, hlaupa maraþon og njóta aðventunnar í fallegri og jólalegri borg.

Árið 2019 var ég að gera tilraun. Það var heilmikið viðgerðarár hjá mér þar sem ég fór í gegnum sex krabbameinsmeðferðir það ár. Tilraunin fólst í því að hlaupa maraþon rétt fyrir fyrstu meðferð og aftur eftir þá meðferð. Síðan að hlaupa maraþon fyrir síðustu meðferðina og aftur eftir hana. Maraþonið sem ég hljóp fyrir síðustu meðferðina var haustmaraþonið hér heima. Eins og þeir sem til þekkja er það svo kölluð fram og til baka braut frá Elliðaánum um Fossvog að Ægissíðu og til baka. Þeir sem fara heilt maraþon hlaupa leiðina tvisvar og þeir sem fara hálft einu sinni. Sjálfur hef ég núna hlaupið þessa leið 13 sinnum í heilu maraþoni og 4 sinnum í hálfu. Og kann bara ljómandi vel við brautina og veit nokkuð vel hvernig mér á að líða á hverjum stað hvort sem er í fyrri eða seinni ferðinni. Afskaplega heimilisleg braut. En þar sem maraþontímabilinu hér heima lýkur með haustmaraþoninu var ljóst að ég þyrfti að fara út fyrir landsteinana til að finna mér hlaup.

Þannig að internetið var spurt ráða. Hvar væri hægt að finna maraþon sem væri ekki of langt í burtu í lok nóvember eða byrjun desember? Í þessari leit kom maratonkarusellen upp en í þeirri hlauparöð eru 6 maraþon yfir árið í Bergen. Og þar er 6. hlaup ársins aðventuhlaup í byrjun desember. Og þannig vill til að góðir vinir okkar hjóna búa í Bergen. Þannig að haft var samband við þau og okkur var umsvifalaust boðið í heimsókn. Hlaupið gekk vel og heimsóknin var skemmtileg. Bergen kom á óvart fyrir hvað var jólalegt hjá þeim á aðventunni. Og svo liðu árin.

Vinir okkar hafa nýverið skipt um húsnæði og flutt sig aðeins nær miðborg Bergen þótt enn búi þau í útjaðri borgarinnar. Sú hugmynd varð til að endurtaka leikinn frá árinu 2019 og heimsækja þau aftur, hlaupa maraþon og njóta aðventunnar í Bergen.

En þar sem pistill þessi er birtur á hlaupasíðu en ekki prívat bloggi er að verða tímabært að segja frá brautinni og umgjörð hlaupsins. En, það er tilgangur með þessum inngangi. Ég kem betur að því í lok pistilsins.

Brautin sem hlaupin er byrjar á íþróttaleikvangi. Þaðan er hlaupið upp smá brekku og síðan myndarlega brekku niður. Sem að sjálfsögðu er síðan hlaupin upp tvisvar fyrir þá sem fara heilt maraþon. Og seinni ferðin getur alveg reynt á. Þegar niður brekkuna er komið er beygt inn á stíg sem er nokkuð á fótinn til að byrja með en verður síðan frekar flatur þótt það séu smá kryppur á honum. Þarna er stígurinn meðfram akvegi og lestarteinum á hægri hönd en skógi á þá vinstri. Eftir um 3 km er drykkjarstöð. Rétt eftir hana þá er beygt inn í skóginn og hlaupinn spölur í gegnum hann. Þegar þessum kafla er lokið er komið inn í sérlega fallegt úthverfi og hlaupið þar í gegn á götunum sjálfum. Þetta úthverfi liggur við tvö vötn þannig að útsýnið er virkilega glæsilegt. Á þessum tíma eru íbúar búnir að skreyta mikið þannig að jólastemningin hríslast alla leið niður í skóna þannig að þarna er létt að hlaupa. Eftir um 6 – 6,5 km er önnur drykkjarstöð. Þarna eru hlaupararnir komnir í gegnum úthverfið og eru að fara að hlaupa meðfram stóru vatni sem heitir Kalandsvatnet. Þarna er ekki síðri náttúrufegurð með stórt vatnið á vinstri hönd og til skiptis skóglendi og akra á þá hægri. Þarna liggur leiðin í gengum hlaðið á sveitabæ þar sem sjá má bæði kindur og hesta og ef ég man rétt sá ég líka hænur árið 2019. Þegar framhjá sveitabænum er komið þá eru ca 2 km að snúningspunkti þar sem einnig er drykkjarstöð. Og á baka leiðinni kemur nýtt sjónarhorn sem er ekki síðra en það fyrra. Og til að bæta á gleðina fær maður að sjá þetta allt aftur ef hlaupið er heilt maraþon. Þess má geta að í ár bættist íkorni við dýraflóruna sem ég hef séð við brautina, en hann skaust yfir stíginn á einum stað rétt í þann mund sem mig bar að.

Að mínu mati er þetta ein fallegasta braut sem ég hef hlaupið í maraþoni. Og lausleg talning segir mér að leiðirnar sem ég hef hlaupið í maraþoni séu 35. En vissulega þarf maður að hafa smekk fyrir því að hlaupa fram og til baka hlaup og endurtaka það tvisvar. Og hafa smekk fyrir því að hlaupa án áhorfenda. Því þarna eru þeir mjög fáir. Eitthvað af fólki á stangli í úthverfinu en annars er það bara náttúran ein og sér og þau dýr sem ber fyrir augun. Sem er reyndar afskaplega slakandi og mikill munur miðað við að hlaupa t.d. í mannhafinu í New York með ærandi hávaðann frá byrjun til enda.

Aðstaðan fyrir og eftir hlaup er mjög fín. Það er frekar stór bygging við leikvanginn þar sem keppnisgögn eru afhent. Þar er líka aðstaða inni í búningsklefum til að geyma föt og skipta um þau að hlaupi loknu. Og fín sturtuaðstaða þótt heita vatnið hafi verið nánast búið þegar ég nýtti mér aðstöðuna. En það var bara mjög hressandi bað! Eftir hlaupið var boðið uppá óáfengt jólaglögg sem var ljómandi gott. Í brautinni sjálfri eru 4 drykkjarstöðvar. Ein á leikvanginum, við snúningspunkt og þessar tvær á leiðinni sem ég hef nefnt. Á þeim öllum er boðið uppá banana og súkkulaði, vatn, orkudrykki og kók. Þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fyrirkomulagið er þannig að heila maraþonið byrjar kl. 10:00 og hálfmaraþonhlaupurum er hleypt af stað kl. 11:30. Ég er ekki með á hreinu hversu margir hlauparar voru í hvoru hlaupinu fyrir sig. Því ef það er eitthvað sem má gagnrýna þá er það heimasíða hlaupsins, Løp 6 Bergen Adventsmaraton | Maratonkarusellen, en mér hefur ekki ennþá tekist að finna keppendalista eða uppgefna tíma hlaupara. Ég sá þó að daginn fyrir hlaup voru samtals ca 150 hlauparar skráðir. Ég get trúað að ca 40-50 hlauparar hafi farið heilt maraþon og hinir hálft. Þess má geta að í ár var brautarmetið slegið í heilu maraþoni með tímanum 2:28:45. Það er nú bara fjári góður tími í aðeins rúllandi braut. En skv. Strava þá eru hæðarmetrarnir 264 á móti 194 í vor/haust brautinni okkar.

Veðrið á þessum tíma? Í þessi tvö skipti sem ég hef hlaupið var mjög gott veður í bæði skiptin. Um 5 gráður í hita, lítill vindur og aðeins rigning af og til. Og að sjálfsögðu enginn snjór eða hálka í brautinni. Mér er sagt af vinum okkar að snjó festi sjaldan í Bergen en að rigning sé ansi algeng. Þess má reyndar geta að daginn fyrir hlaupadag var bæði rok og rigning og ekkert spennandi hlaupaveður. Mjög íslenskt. Og þess má einnig geta að ég hef alveg séð myndir frá fyrri hlaupum þar sem það var snjór yfir öllu. Þannig að það er ekki hægt að lofa auðri braut þótt oftar sé það þannig.

En þá aftur að innganginum. Jú, það sem ég var þar að reyna að draga fram er að það er afar fallegt í Bergen á þessum tíma. Í Bergen er Bryggen, sjá mynd, sem er á lista UNESCO yfir verndaðar byggingar. Þar er að finna margskonar starfsemi, verslanir, kaffihús og bari.

Bergen Gunnar Ármannsson

„Bryggen bears the traces of social organization and illustrates the use of space in a quarter of Hanseatic merchants that dates back to the 14th century. It is a type of northern "fondaco", unequalled in the world, where the structures have remained within the cityscape and perpetuate the memory of one of the oldest large trading ports of Northern Europe.“

Í Bergen eru fjölmargir flottir veitingastaðir, þar eru verslunarmiðstöðvar fyrir þá sem leita að þeim, og þar er einnig stór jólamarkaður sem gaman er að skoða. Í þessari heimsókn smakkaði ég svokallað Pinnekjött sem er vinsæll réttur um hátíðir í Noregi. Mér finnst eiginlega hálfskrítið að við á Íslandi höfum ekki notað þessa aðferð við að verka lambakjötið okkar. En þetta er sem sagt rollu/lamba síða sem er söltuð, reykt og þurrkuð. Og ég get eiginlega ekki lýst bragðinu, það er ekki líkt hangikjötinu okkar og ekki heldur saltkjötinu og alls ekki nýju kjöti. Þetta er bara allt öðru vísi. Rétturinn er borinn fram með sykurlausri rófustöppu og soðnum kartöflum. Kannski ekkert mjög jólalegt að sjá hrúgu af rifjum, á diski ofan á stöppunni og kartöflunum en mér fannst þetta gott.

En sem sagt, Bergen er skemmtileg borg að heimsækja á aðventunni, margt að sjá og skoða. Og þetta er ekki nema rétt um tveggja tíma flug frá Keflavík – þegar það er beint flug. Og þar liggur hundurinn grafinn. Það er nefnilega ekki beint flug á þessum tíma. Sem er synd. Beint flug er frá mars og til október ef ég man rétt. Vinir okkur sögðu okkur frá því að nú í desember hefði Icelandair haft í hyggju að bjóða upp á eina ferð í beinu flugi á aðventunni. Ekkert hefði hins vegar orðið af því þar sem eftirspurn var ekki næg.

Og þá er komið að hliðar tilganginum með þessum pistli. Ef Icelandair myndi bjóða upp á beint flug í kringum fyrstu helgina í desember, þegar maraþonhlaupið á sér stað, er þá ekki líklegt að einhverjir úr hlaupasamfélaginu myndu nýta sér það að geta skroppið í eitt heilt eða hálft maraþon sem er nánast í bakgarðinum hjá okkur? Já og jafnvel bara margir? Ef það væri beint flug á þessum tíma þá mætti vel halda því fram að búið væri að lengja keppnistímabil íslenskra hlaupara þegar hálf og heil maraþon eru höfð í huga.

Ég vil því skora á alla í hlaupasamfélaginu sem hafa tengingar við Icelandair að koma þessari hugmynd að hjá þeim. Það myndu allir græða á því. Ég hef trú á því að eftirspurn yrði næg þannig að Icelandair gæti boðið upp á beint flug, hlauparar fá viðbótartækifæri til að bæta einu hálf eða heil maraþoni í safnið, og allir aðrir sem áhuga hafa á að fara í þægilega aðventuferð með stuttu flugi.