birt 18. apríl 2016

Guðrún Guðjónsdóttir, hlaupagikkur með meiru heldur úti skemmtilegu bloggi á síðunni sogustundin.wordpress.com. Þar skrifar hún af og til um hlaup, hlaup.is fékk leyfi til að birta færslu um þátttöku hennar og systur hennar Maríu Guðjónsdóttur, í Parísarmaraþoninu sem fram fór 3. apríl síðastliðinn.

Útsýnið úr glugganum á herbergi þeirra systra.La plus belle ville du monde, en hvað ég hef saknað hennar. Þessi ævaforna og íðilfagra vinkona tekur alltaf jafn vel á móti ferðalöngum enda hefur hún trónað efst á borgar-vinsældalistanum síðan ég kynntist henni fyrst árið 1989, þá 19 ára gömul.Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég hafði ekki heimsótt borgina í heilan áratug, það er allt of langur tími. Ég hef gist á ýmsum stöðum í borginni, síðast á Rue Rivoli í hjarta borgarinnar en núna leigði ég íbúð í gegnum Airbnb enda er ég mikill Airbnbverji. Íbúðin var í 16. hverfi við Place de Mexico, nálægt Trocadérostöðinni.Útsýnið af svölunum (eða öllu heldur gluggasyllunni með grindverkinu) var af dýrari gerðinni og nágranninn afskaplega myndarlegur þrátt fyrir árin 127.ParísVorið heilsar Vorið stimplaði sig inn í París daginn sem við komum með glaðasólskini, 14°hita og nýútsprungnum kirsuberjatrjám. Erindið var þó ekki að njóta veðurblíðunnar eða rómantíska andrúmsloftsins heldur var það öllu kvíðvænlegra - Parísarmaraþonið. Laugardagurinn fór mestallur í að nálgast keppnisgögnin í Versailles ráðstefnuhöllinni þar sem nöfnum allra 57.000 þátttakendanna var búið að koma fyrir á margra metra löngum vegg.Við systurnar fundum okkar og þarna stóðu þau hlið við hlið, óvéfengjanleg staðfesting verkefnis morgundagsins.Sunnudagsmorgunninn 3. apríl rann upp, bjartur og fagur en jafnframt uggvænlega heitur. Dagsetningin hafði verið skrifuð í skýin í marga mánuði (skráningin fór fram í upphafi október og hlaupið undirbúið frá áramótum). Nú var ekki hægt að gera neitt meira, það var komið að ræsingu. Mikill mannfjöldi hafði safnast saman á Champs Elysées, hver og einn fann sitt hólf eftir upploginni tímasetningu sem þeir áætluðu í villtustu draumum sínum til að ljúka hlaupinu.Systurnar Guðrún tv. og María fundu nöfn sín á veggnum stóra.

Bravo! Allez allez!!
Við systurnar skráðum okkur báðar á 3:30 og hlupum saman fyrstu kílómetrana. Ég missti Maríu fram úr mér eftir 4 kílómetra en náði henni aftur á þeim 8. og hélt í við hana að kílómetra 16. Við vorum sprækar, spjölluðum saman, næg orka, brautin gullfalleg og gríðarlega góð stemmning. Við héldum jöfnum hraða á 5:00 mín/km og nutum þess að tilheyra minnihlutahópi í hlaupinu en konur voru einungis 25% þátttakenda. „Bravo, filles! Allez, allez" glumdi allt í kringum okkur, svolítið eins og áhorfendur væru hissa...

Fullar orku við Sigurbogann fyrir hlaupið.Upp úr 16 kílómetrum fór ég að finna talsvert fyrir í fótunum og varð fljótlega ljóst að þar væru farnar að myndast blöðrur auk þess sem táneglur væru mögulega í hættu. Þetta hægði mikið á mér auk þess sem hitinn gerði mér erfitt fyrir en hann var eflaust aðalástæða vandræða minna til viðbótar við skóna sem voru heldur þröngir.Ég hef alltaf hlaupið á Asics Nimbus númer 8 (eða 39,5) og þessir skór voru engin breyting þar á. En týpurnar eru aldrei nákvæmlega eins og þessi 17. útgáfa Nimbussanna er támjórri en tíðkast hefur. Eftir u.þ.b. 26 kílómetra var talsvert af mér dregið enda blóðblettir orðnir greinilegir á skónum. Leiðin lá eftir sólbökuðum Signubökkum sem hljómar óneitanlega viðeigandi og freistandi í eyrum hefðbundinna Parísarfara - en ekki maraþonhlaupara.Hiti og blöðrur setja strik í reikninginnHitinn var steikjandi og einhver skortur var á drykkjarstöðvum á tímabili. Einbeitingin flaug út í buskann og flaut eins og notaður salernispappír á gruggugu fljótinu.

Eftir 29 kílómetra sturtaði ég verkjalyfjum í mig og tókst að ná mér aftur á strik. Það var þó dagsljóst að tíminn yrði ekki sérstakur og bæting algerlega úr sögunni, að klára hlaupið sama hvað var orðið fullkomlega ásættanlegt. Ég var langt í frá eini þátttakandinn sem átti í vandræðum og mín vandamál sannarlega minni háttar. Brautin var bókstaflega vörðuð örmagna hlaupurum sem önnum kafnir bráðaliðar önnuðust. Sjúkrabílar brunuðu með sírenuvæli og bláum blikkljósum meðfram hliðarlínunni og tíndu upp hina ólánsömu sem ekki náðu að komast á endalínu. Margir gengu, höltruðu, reikuðu, slöguðu og teygðu stirða skanka upp við tré og grindverk. Það er ekki út af engu sem Frakkarnir segja „mara-tonn".

Vegna nýafstaðinna hryðjuverk í París og Brussel bjóst ég við mikilli öryggisgæslu í hlaupinu. Ég get ekki sagt að mér hafi fundist spennandi tilhugsun að vera minnt á óhugnaðinn og þurfa að hlaupa undir vökulu eftirliti hermanna gráum fyrir járnum. Enginn veit hvar og hvenær næsta árás verður gerð.

Maraþon hefur sannarlega orðið skotmark hryðjuverkamanna og það er eftirminnilegt þegar ég fylgdist með Lilju vinkonu minni í Bostonmaraþoninu 2013 og skildi ekki af hverju merkið hvarf allt í einu, af hverju hún hætti allt í einu að hlaupa.Öryggisgæslan var ekki mjög sýnileg í París. Vissulega voru hópar hermanna á hliðarlínunni hér og þar en þeir voru nú bara settlega klæddir í sunnudagsjúníformið og klöppuðu okkur hlaupurunum lof í lófa eins og hinir áhorfendurnir. Ég flýtti mér ekki framhjá. Aldrei hvarflaði að mér að hætta við hlaupið eða ferðalagið. Óttinn á ekki að stjórna gerðum okkur því þá hafa hin myrku öfl í heiminum hrósað sigri.Erfiðar aðstæður - rúm 15 þúsund hættuAllt hlaupið tók ég fram úr keppendum og þurfti að sikksakka á milli þátttakenda. Þessu til staðfestingar má hér sjá lokatímann, 3:50 eftir 42,6 kílómetra. Eftir 42,2 kílómetra var tíminn 3:48. Ekki að það skipti nokkru máli, ég var grátfegin að komast í mark og vera á meðal þeirra 41.708 sem luku hlaupinu. 15.292 þátttakendur náðu sem sagt ekki að klára! María hljóp vandræðalaust að vanda á glæsilegum tíma, 3:40, og bætti sig um heilar 9 sekúndur. Garmin úrið sýnir tíma Guðrúnar og vegalengdina.

Eftir heilt maraþon hef ég verið þreytt og þrekuð, lúin og jafnvel lerkuð en aldrei sérstaklega löskuð eins og núna. Þokki göngulagsins er kannski aðeins undir meðaltali í svona tvo daga og orkan takmörkuð í viku en eftir það hefur verið hægt að taka ræktina af fullum þunga. Núna er það ekki þannig. Blöðrurnar voru lítið vandamál, þær voru sprengdar þegar heim var komið og eiga eftir að gróa eins og skot, en frúin varð að heimsækja læknavaktina til að láta kippa stórutánögl af hægri fæti og skartar nú settlegum umbúðum. Tánaglarmissirinn kemur ábyggilega til með að setja strik í reikninginn fram á sumarið, bæði hvað varðar hlaupin og fjallgöngurnar. En það sem verra er... þessi kona fer ekki í fallegu, hælaháu sandalana sína sem hún keypti í fyrrasumar á næstunni!

Systurnar skála í rauðu að hlaupi loknu.Lítið um svallMaraþonhlaupi þarf að fagna. Við systurnar birgðum okkur vel upp af dýrindis veigum og héldum heim í íbúðina. En þegar kom að því að opna drykkjarumbúðirnar kom í ljós að þar var hvorki að finna upptakara né tappatogara... og það í Frakklandi!Til allrar hamingju er systir mín með doktorspróf í vélaverkfræði og varð ekki skotaskuld úr að hanna nýja græju til að opna flöskurnar. Hún kallar tækið „míglektir" (doktorsverkefnið hennar fjallaði um hlutlektir, hvað sem það nú er).

Lítið fór þó fyrir suddalegu svalli fram á nótt eins og vonir stóðu til og eftir málsverð á „Grænu sósunni" (sem er reyndar ægilega vinsæll veitingastaður sem heitir Le Relais d‘Entrecôte þar sem þarf að bíða í langri röð eftir borði, einstaklega ánægjulegt eftir hlaupið og langa göngu á staðinn,) fórum við heim og nutum verðskuldaðs nætursvefns.

Við héldum ekki heim á leið fyrr en á þriðjudeginum svo mánudagurinn fór í... kemur á óvart! Maraþonverslunarferð. París hafði legið undir fótunum á okkur á sunnudeginum og degi síðar héldum við okkur undir borginni - í neðanjarðarlestinni. Og hafi hlaupið verið erfitt þá er það smáskitlegt í samanburði við viðureignina við tröppurnar niður í lestarstöðvarnar. María komst að þeirri niðurstöðu að best væri að ganga aftur á bak en ég reyndi svona að staulast áfram, samferðamönnum okkar til mikillar skemmtunar eða opinmynntrar undrunar, jafnvel opinskárrar andúðar. Franska þjóðin gerir meiri kröfur um glæsileika og þokka en við bjuggum yfir þennan dag. En, látið ekki hugfallast, okkur tókst að kaupa ýmislegt fallegt.Íslenskar umhleypingar í Le MondeNú finnst kannski einhverjum umfjöllun miðaldra íslenskrar kennslukonu um maraþonhlaup sunnudaginn 3. apríl 2016 nauðaómerkileg í ljósi þess að þessi dagsetning er með þeim merkilegri í Íslandssögunni. Það hefði verið athyglisvert að sleppa samfélagsmiðlum þessa helgi og lenda í Keflavík upp úr hádegi á þriðjudeginum, grunlaus um þau hneykslismál og umhleypingar sem komið höfu upp í íslenskum stjórnmálum um og eftir helgina. Slíkt er þó eiginlega ekki raunhæft í dag enda prýddi þáverandi forsætisráðherra forsíður blaðanna og blasti við okkur í hverjum einasta blaðaturni í Frakklandi á mánudeginum, í félagsskap allra hinna sem féllu í áfanganum siðfræði 102 (sem er hægferðaráfangi).Franskir fjölmiðlar sýndu íslenska forsætisráðherranum athygli.

Þessa færslu má lesa á bloggsíðu Guðrúnar, sogustundin.wordpress.com.