uppfært 26. desember 2024

Valencia maraþon fór fram þann 1. desember, það var þó ekki sjálfgefið því í lok október urðu hamfaraflóð í Valencia héraði, þar sem yfir 200 manns lést.  Það var öllum hlaupurum ljóst að hlaupið var í óvissu og það var svo tæpum þremur vikum fyrir hlaup að keppnishaldarar sendu póst á hlaupara og báðu um nokkra daga enn til að geta tekið ákvörðun. Þá þegar voru hlauparar farnir að selja miðana sína til að bóka sig í hlaup á sama degi en í öðru landi, en það var skilningur meðal hlaupara ef ákvörðun um að hætta við hlaupið yrði staðreynd.

Margir dagar liðu og þar var ekki fyrr en á föstudegi rúmlega tveimur vikum fyrir keppni að staðfesting hlaupahaldara kom, hlaupið færi fram 1. desember, fyrir Valencia.  Hluti af skráningargjaldinu færi í að styðja við uppbyggingu á flóðasvæðunum. En miðbær Valencia þar sem hlaupabrautin er varð ekki fyrir áhrifum af flóðunum.

Það verður að segjast alveg eins og er að í óvissunni sem skapaðist varð mér alveg sama hvort hlaupið yrði eða ekki, það var því átak að skrúfa hausinn aftur rétt á og reyna að ná upp spennunni fyrir keppninni.

Valencia maraþon hentar vel fyrir Íslendinga, hitastigið í ár var 12 gráður í byrjun og endaði í 14 gráðum.  Fyrir hlaupara sem búa á höfuðborgarsvæðinu þá hefur síðustu tvö ár verið hægt að æfa úti allt undirbúningstímabilið sem er mikill kostur.  

Brautin í Valencia er hröð og það er alltaf hægt að finna hóp til að hlaupa með, þetta er því tilvalin braut til að reyna við bætingu í maraþoni. Síðustu 300 metrarnir eru mjög skemmtilegir þegar hlaupið er niður tilbúna “rennu” klædda bláum dúk í áttina að lista- og vísindasafninu.

Það var sérstök stund að standa á ráslínu í þessu hlaupi, það var alveg greinilegt að þessi viðburður skipti fólkið í Valencia máli, geta haldið hlaupið og hlaupið fyrir fólkið í Valencia sem á um sárt að binda eftir hamfarirnar.  “Valencia will run 4 Valencia”.

Stuðningur í brautinni var mikill, borgarbúar og aðstandendur hlaupara safnast saman í brautinni og geta með lítilli fyrirhöfn fært sig á milli til að hvetja á fleiri en einum stað. Þegar við nálguðumst endamarkið fann maður virkilega vel fyrir stuðningnum, mikil læti í áhorfendum sem voru að hvetja hlaupara síðustu 2 km og það munar svo sannarlega um það.

Megertu Alemu sigraði hlaupið hjá konum á 2:16:49 og hjá körlunum var það Sabastian Sawe í sínu fyrsta maraþoni á tímanum 2:02:05.  Þó það hafi ekki verið hópferð hjá Íslendingum í hlaupið þá voru 21 Íslendingur sem kláraði hlaupið og margir að hlaupa sitt besta maraþon.  

Það er óhætt að mæla með Valencia marþoninu sérstaklega fyrir þá hlaupara sem vilja klára hlaupaárið á maraþoni og vera í hvíld yfir jólin.  :) 

Þórólfur Ingi Valencia 3A