Það var búið að blunda í mér í þó nokkurn tíma að hlaupa gott götumaraþon. Hafði einu sinni áður hlaupið undir þremur tímum, í New York árið 2018, og eftir góðan árangur í haustmaraþoninu í október taldi ég mig jafnvel eiga inni fyrir umtalsverðri bætingu. Ég er svo hrikalega vel giftur að við Elín Hrefna Ólafsdóttir sammæltumst um að jólagjöfin í ár yrði maraþonhlaupaferð og eftir að hafa lagt á ráðin með fleirum um hvert væri besta maraþonið til að negla á varð niðurstaðan Rotterdam; flöt og hröð braut (hér hafa verið settir heimsmetstímar) og tímasetningin mjög góð, ekki of nálægt fjallahlaupatímabilinu. Það var ljóst að þegar pantað var að minn mikli hlaupavinur og æfingafélagi Kristján Svanur Eymundsson yrði með í för.
Sjá úrslit Íslendinga í Rotterdam maraþoni á hlaup.is
Ég æfði af krafti undir handleiðslu Fjallahlaupaþjálfunar Tobba og Evu Birgis frá áramótum og var töluverð fjölbreytni í æfingum; allt frá hefðbundnu Esjubrölti að brautaræfingum, bæði inni og úti. Ég reyndi að keppa eins mikið og ég gat og mætti t.a.m. í öll Powerade hlaupin í vetur, Gamlárshlaup ÍR og tók 3000m á braut innanhús, sem var helvíti mögnuð upplifun. Þegar nær dró urðu æfingarnar meira maraþonmiðaðar, mikið af löngum æfingum (30km +) með löngum hraðaköflum og fókus á að vinna á eða um væntu maraþonhraða Ég hélt líka alltaf inni amk. tveimur styrktaræfingum í viku þar sem ég fór í MGT í Mínus 2 Gym. Æfingar gengu eiginlega framar vonum og ég negldi allar gæðaæfingarnar nema eina. Hollt að klikka á allavegana einni æfingu í ferlinu svo maður verði ekki of góður með sig.
Við fjölskyldan flugum til Amsterdam á föstudeginum, þar sem foreldrar mínir slógust í för með okkur kjarnafjölskyldunni. Það var kaldara í Hollandi en ég hafði gert ráð fyrir, gott upp á hlaupið að gera en verra fyrir hefðbundinn túrisma.
Hlaupadagurinn byrjaði frábærlega. Kári okkar gerði sér lítið fyrir og svaf í gegnum nóttina sem strax gaf fögur fyrirheit um framhaldið. Hafragrautur, kaffibolli og svo röltum við á lestarstöðina á Amsterdam, ég Elín og Kári eldri, faðir minn, sem hugðist hlaupa kvartmaraþon. Þegar til Rotterdam var komið hittum við Kristján Svan og hans hundtrygga aðstoðarmann og vin Gunnar og fórum fljótlega að olnboga okkur að startlínunni. Það var ekki tekið út með sældinni að komast framarlega í startið og fór það svo að við byrjuðum rétt fyrir aftan 3:00 blöðruna. Hlaupið ræst og við Kristján geystumst af stað. Missterkir hlauparar sem planta sér þarna fremst, það er bara eins og það er.
Fyrsti kílómeterinn var okkar langhægasti þar sem við dönsuðum fimlega eins og ballerínur fram hjá hverjum hlauparanum á fætur öðrum. Duttum fljótlega í okkar ryþma og þurftum ekki að hafa áhyggjur af mannmergð fljótlega eftir fyrsta km. Það voru flottar aðstæður í brautinni á keppnisdag, skýjað og þægilegur lofthiti og smá gola sem var heilt yfir ekki að trufla mikið. Við Kristján héldum nokkuð öguðu 3:40 pace-i, enda var aðalmarkmið dagsins hjá okkur báðum að fara á undir 2:35. Vorum duglegir að nýta drykkjarstöðvar sem voru á rúmlega 5 km fresti, eitt vatnsglas og eitt glas af óræðum orkudrykk. Stemningin í brautinni kom svo skemmtilega á óvart en hún var alveg frábær, fullt af fólki mjög víða, gamlir karlar að spila teknó og hvert einasta brass band sunnan við ánna Amstel mætt að blása í lúðra. Margir að garga "Kristjaaaan" þegar við hlupum fram hjá en færri lögðu í Búi, Hollendingar leggja ekki í nein nöfn sem innihalda ekki stafinn R.
Fílíngurinn hjá okkur bræðrum var virkilega góður lengst af og við skiluðum okkur yfir hálfmaraþonlínuna á 01:16:55, sem sé í dauðafæri að ná undir 2:35. Við fylgdum svo góðum hópi í nokkra kílómetra en skyndilega fór að hægjast á honum svo við skildum við hann. Náðum góðu farti niður einhverja geggjaða brú þar sem stemningin var hreint út sagt ótrúleg og hætt við að motturnar sem við Kristján skörtuðum í dag hafi kveikt vel í áhorfendaskaranum, allavegana var okkur fagnað eins og þjóðhetjum. Á km 32 fjarlægðumst við svo borgina og hlupum einhverja 5-7 km í meiri kyrrð. Þarna skyldu leiðir hjá okkur Kristjáni, mér fannst ég eiga inni fyrir sterkum lokasprett og ákvað því að fókusa alfarið á mig. Sá aðeins eftir þeirri ákvörðun en hún kom blessunarlega ekki að sök.
Síðustu kílómetrarnir voru svo óhjákvæmilega mjög erfiðir enda mun maður aldrei ná metnaðarfullum markmiðum án þess að þjást töluvert. Mér fannst samt 2:35 markmiðið aldrei hættu, engir krampar eða þess lags vesen að gera vart við sig. Tókst að halda haus í gegn og sigla yfir marklínuna á 02:33:54. Það gladdi mig svo ósegjanlega mikið að þegar ég snéri mér við í markinu sá ég Kristján koma á fartinu rétt á eftir mér á tímanum 02:34:33. Það hefði óneitanlega varpað skugga á annars frábæran dag ef við hefðum ekki báðir náð okkar markmiðum því mikið rosalega áttum við það skilið. Rétt náðum að skipta um föt og senda eina HHHC hlaupamynd á Pétur Ívarsson áður en Elín mín kom í markið á ótrúlegum tíma, 3:14:47. Gæti ekki verið stoltari af þessari ofurkonu sem þarf að hugsa um tvo stráka ofan á æfingar og fulla vinnu. Það hafa verið alvöru forréttindi að fylgjast með framförunum hjá henni seinustu mánuði.
Það var því glaður hópur sem skálaði á staðnum Beer and Barrell fljótlega að hlaupi loknu. Það besta við að skila sér snemma í mark er það að maður fær sæti á börunum sem eru næst marklínunni. Gott að hafa það á bak við eyrað ef einhverri fyllibyttunni þarna úti vantar smá pepp.
Nú er bara að njóta og slappa af í nokkra daga áður en fókusinn fer á næsta verkefni.