Ég fór út að hlaupa á sunnudaginn þann 16. apríl ásamt 17.000 öðrum í Rotterdam maraþoninu. Undanfarna mánuði hef ég verið að æfa fyrir þetta hlaup með félögum mínum í Haag undir dyggri stjórn Geirs Ómarssonar þjálfara sem fjarstýrir æfingunum frá Íslandi.
Við erum fjórir sem erum búnir að æfa fyrir þetta hlaup. Hópurinn er í sæmilegu samræmi við íbúa Haag, þ.e. frekar alþjóðlegur, þó að það vanti Hollending í hópinn, en strákarnir eru frá Kanada, Kólumbíu og Lúxemburg/Írlandi, allt strákar sem hafa komið hingað vegna vinnu eiginkvennanna. Einn heltist úr lestinni og vorum við þrír sem lögðum af stað í gær. Keppnisplan okkar var ólíkt, einn að stefna á undir 3 klukkutíma, einn að stefna á 3:45 og ég að stefna á að njóta og helst að ná undir 4 klukkutíma. Æfingaferlið er búið að vera frábært og aðstæður til æfinga talsvert þægilegri en ég þekki frá Íslandi þar sem hér er veðrið aðeins betra, aldrei hálka og engar brekkur, sem ég þó sakna af og til.
Að vera kominn á ráslínu í gær var dásamlegt. Mikil stemning var fyrir hlaupinu og borgin undirlögð af hlaupurum og stuðningsfólki. Tónlist glumdi í hátölurum og spenna í loftinu. Hlaupið er ræst með daðri við skipsflautu, gufustrókar streymdu úr rásmarkinu og flautur drundu. Við erum að leggja af stað.
Þar sem ég og Charlie vorum á svipuðum slóðum var stefnan að hlaupa fyrstu 10 km saman og svo ætlaði ég að setja tónlist í eyrun og einbeita mér að því að ná mínu markmiði. Við héldum notalegum hraða til að byrja með, aðeins hraðara en ég lagði upp með en hvað um það, maður er manns gaman svo ég ákvað að halda í við Charlie. Þó að pace-ið væri aðeins hraðara en ég ætlaði mér var hjartslátturinn í lagi svo ég var slakur og naut þess að spjalla, fylgjast með stemningunni hjá áhorfendum og bara almennt að njóta þess að vera á ferðinni eftir æfingatímabilið.
Þegar við kláruðum 19 km ákvað ég að nú þyrfti ég að einbeita mér að því að ná mínum markmiðum og lét Charlie hlaupa á sínum hraða, en ég slakaði aðeins á þar sem hjartslátturinn var aðeins að hækka hjá mér. Ég var tæplega hálfnaður og leið vel þó að hjartslátturinn væri aðeins að hækka. Orkustigið var hátt, næringarplanið var gott, kroppurinn í standi og mér leið vel, markmiðið var að njóta og líða vel.
Nú fór fókusinn meira á að fylgjast með áhorfendum. Það var gríðarleg stemning, fullt af tónlist á leiðinni. Skipuleggjendur hlaupsins voru búnir að skipuleggja nokkrar stöðvar þar sem tónlistarfólk létti lund hlaupara og nokkrar stöðvar þar sem plötusnúðar sáu um að halda uppi stuðinu. Við það bættist svo allskonar tónlistarflutningur sem poppaði upp hér og þar, tónlistarfólk sem reif upp lúðurinn eða gítarinn og bætti við stemninguna í kringum sig. Þarna voru lúðrasveitir, trommusláttur, hljómsveitir, kórar og hvað eina. Allt frábært og í hvert sinn sem ég hljóp framhjá fékk ég kusk í augað, þetta létti sporin og ég tók eftir að í hvert skipti fór hraðinn á mér aðeins upp á meðan ég hljóp í gegnum svæðið þar sem stemningin var hvað mest.
Fullt af stuðningsfólki var með skilti, fána eða spjöld sem var beint að ákveðnum hlaupurum, mömmur, pabbar, vinir og samstarfsfólk var hvatt áfram með allskonar skemmtilegum skilaboðum og ótrúlega margir voru með drykki, banana eða gotterí til að aðstoða ef hlauparar voru komnir í orkuþurrð. Nokkrir sem voru í kringum mig voru með öfluga stuðningsmenn með sér og ég nærðist á stuðningnum sem þeir fengu, en og aftur voða mikið með kusk í augunum þegar við hlupum framhjá þessum stöðvum.
Mín helsta áskorun er 36 kílómeterinn. Þá fer kroppurinn að kvarta og vill fara að gera eitthvað annað en að halda þessu hlaupi áfram. Ég var búinn að æfa vel og var að vonast til að ná að færa þennan þröskuld aðeins aftar, að núna væri þjáningin aðeins styttri. Þegar ég var búinn að hlaupa 35 km leið mér frábærlega og ég bjartsýnn. Planið er að virka. Nema hvað að um leið og ég sé skiltið með 36 km vegalengdinni fæ ég hlaupasting! Hlaupasting – ég hef ekki fengið hlaupasting í mörg ár! Hvaðan kemur hann! Og svei mér þá er ég ekki að stífna upp í lærinu og jafnvel kálfanum líka... er allt að fara í vaskinn.
Ég dró andann djúpt nokkrum sinnum, fór yfir planið, setti fókusinn aftur á stuðningsfólkið og einbeitti mér að því að njóta. Það virkaði! Hlaupastingurinn gufaði upp, það slaknaði á lærinu og kálfinn varð betri en nýr. Ég var á notalegum hraða, hjartsláttur í lagi og nú bara 6 km eftir.
Eftir því sem vegalengdin styttist var fókusinn meiri og meiri á stuðningsfólkinu og stemningin jókst eftir því sem nær dró endamarkinu og kuskið í augunum fór vaxandi. Síðasti kílómeterinn er troðinn af fólki og ærandi hávaði frá stuðningsfólki, þvílík stemning! Þegar ég á eftir ca. 3-400 metra heyri ég konuna mína kalla úr þvögunni og næ að sjá hana og restina af stuðningsmanna hópnum mínum tilsýndar, ég fékk gæsaðhúð og kuskið var alveg að verða þannig að ég var voða ánægður að vera með sólgleraugun.
Ég gat ekki talað fyrst eftir að hafa komist yfir endamarkið, ég var að springa úr gleði. Allt við aðdraganda hlaupsins, hlaupið sjálft, stemningin og niðurstaðan var frábær, ég brosti út að eyrum, meyr, þakklátur fyrir að geta verið að hreyfa mig og njóta. Aðalmarkmiðið mitt var að njóta, það tókst og rúmlega það. En svo skipti það mig líka smá máli að loksins hljóp ég maraþon undir fjórum klukkustundum.
Ég hljóp 42 kílómetra og 560 metra (maraþon eru 42,195 en vegalengd hlauparanna eru alltaf aðeins lengri þar sem þeir fylgja ekki alltaf stystu línunni) og það tók mig 3:52:37 að klára hlaupið. Garmin segir mér að ég hafi verið 3:50:25 að klára maraþonið, þ.e. 42,195 km. Þetta er hraðasta maraþon sem ég hef farið og ég naut hlaupsins alla leið.
Markmiðum mínum var náð. Nú hlakka ég bara til að finna næstu áskorun.