Hlaupasamfélagið býður upp á undirbúningsnámskeið fyrir Laugavegshlaupið sumarið 2025. Námskeiðið nýtist líka fyrir önnur utanvegahlaup.
Kynningarfundur verður haldinn þriðjudaginn 10. desember kl. 20 í veislusalnum Sjónarhól í Kaplakrika í Hafnarfirði. Allir velkomnir á fundinn án skuldbindinga.
Laugavegsnámskeiðið er nú haldið í 17. skiptið og er möguleiki á að byrja á einhvern tímann á tímabilinu 5. janúar til 15. mars. Lágmarks undirbúningstími er 4 mánuðir, en þá er miðað við að þátttakendur byrji ekki seinna en í byrjun mars. Námskeiðið miðar að því að undirbúa hlaupara fyrir að hlaupa Laugavegshlaupið í sumar.
Æfingar í janúar og febrúar verða á sunnudagsmorgnum í FH-höllinni í Kaplakrika, en þá eru gæðaæfingar með stuttum og löngum sprettum ásamt styrktar- og liðleikaæfingum. Samæfingar frá mars til júlí verða á miðvikudögum.
Á námskeiðinu er áhersla lögð á hraðaúthaldsþjálfun ásamt umtalsverðri fjallahlaupa- og brekkuþjálfun samhliða liðleika- og styrktarþjálfun.
Allir sem taka þátt í námskeiðinu fá persónubundna áætlun 4-5 vikur í senn, þar sem áætlunin tekur mið af getustigi og markmiðum. Miðað er við eina samæfingu í viku, aðallega í Heiðmörkinni og við Hvaleyrarvatn. Einnig verður farið í nokkrar sameiginlegar fjallaæfingar á Esjuna, Hengilinn, Reykjadal, Helgafell ofl.
Þjálfarar eru Sigurður P. Sigmundsson (35 ára þjálfunarreynsla og fyrrum Íslandsmethafi í maraþoni) og Torfi H. Leifsson (16 ára þjálfunarreynsla og umsjónarmaður hlaup.is).
Einkaþjálfun
Árlegur fjöldi á Laugavegsnámskeiðunum hefur verið á bilinu 35-60 manns og hafa þátttakendur lokið hlaupinu á bilinu 5:00 klst til 9:00 klst. Námskeiðið hentar því fólki á öllum aldri og af mismunandi getustigum. Tekið er mið af getu hvers og eins og persónulegar áætlanir gerðar til 4-5 vikna í senn, sniðnar að markmiðum hvers hlaupara. Námskeiðið hentar líka fyrir þá sem ætla að taka þátt í öðrum utanvegahlaupum en Laugavegshlaupinu.
Allir hlauparar fá sérstaka hlaupaáætlun fyrir Laugavegshlaupið þar sem búið er að stilla hraða og tíma á alla áfangana í Laugavegshlaupinu.
Skráning á undirbúningsnámskeið fyrir Laugavegshlaupið 2025.
Í grunnþjálfunarundirbúningi felst eftirfarandi:
- Persónuleg áætlun allan tímann, en til 4-5 vikna í senn, sem tekur mið af markmiðum, fyrri hlaupareynslu, meiðslum, núverandi stöðu og fleiru.
- Farið verður sérstaklega í styrktaræfingar sem nýtast fyrir utanvegahlaup.
- Farið verður í nokkrar sameiginlegar fjallaæfingar (Esjan, Hengillinn, Reykjadalur, Helgafell ofl.).
- Fyrirlestur þar sem farið verður yfir alla þætti í undirbúningi, æfingarnar, útbúnað og fleira.
- Afsláttur af ýmsum hlaupavörum.
- Aðgangur að þjálfurunum allan tímann í tölvupósti og/eða í síma.
- Farið yfir ýmsa þjálffræðilega þætti og frekari undirbúning á æfingum.
- 50% afsláttur af hlaupanámskeiðum hlaup.is
- Undirbúningsfundur þar sem farið verður yfir lokaundirbúning fyrir hlaupið.
Mánaðargjald fyrir Laugavegsnámskeiðið er 11.500 kr á mánuði.
Skráningargjald og skráning í hlaup er ekki innifalið í verðinu fyrir námskeiðið. Hlauparar þurfa sjálfir að skrá sig í Laugavegshlaupið og greiða skráningargjaldið í þau sérstaklega.
Vinsamlegast hafið samband við Sigurð P. Sigmundsson, siggip@hlaup.is, sími 864-6766 eða Torfa H. Leifsson, torfi@hlaup.is, sími 845-1600 ef þið hafið spurningar. Skráið ykkur með því að smella á eftirfarandi tengil:
Skráning á undirbúningsnámskeið fyrir Laugavegshlaupið 2025.
Ummæli nokkurra þeirra sem hafa sótt Laugavegsnámskeiðið í gegnum árin:
Hlaupanámskeiðið hentar hlaupurum af mismunandi getu og vel er fylgst með hvernig gengur. Markmið einstaklinga verða alltaf misjöfn og þeir félagar hafa einstakt lag á að láta missprettharða einstaklinga hlaupa saman á æfingu. Að hlaupa Laugaveginn er háleitt markmið, en algjörlega yfirstíganlegt með réttri leiðsögn. Sjálf hefði ég aldrei lagt af stað, nema undir handleiðslu Sigga og Torfa. Svei mér þá, ef ég fer ekki bara aftur í ár!
"Ég hef tvisvar hlaupið Laugaveginn og undirbjó mig í bæði skiptin með því að fara á Laugavegsnámskeið hjá Sigurði og Torfa. Námskeiðið er mjög vel útfært og frábært að fá æfingaáætlun sem sniðin er að þörfum hvers og eins. Félagsskapurinn og andlegi stuðningurinn á undirbúningstímanum var mjög góður og gerði það að verkum að árangurinn í hlaupinu og upplifunin var enn ánægjulegri en ella. Einnig var frábært að fá tímasetta áætlunin fyrir hlaupið sjálft. Ég mun fara á námskeiðið í þriðja sinn í ár til að undirbúa mig fyrir Laugaveginn."
"Ég skráði mig á Laugavegsnámskeiðið hjá Sigga og Torfa því mig langaði að undirbúa mig vel, líkamlega og andlega, fyrir fyrsta Laugavegshlaupið mitt. Námskeiðið reyndist framar öllum vonum, ég fékk einstaklings prógramm, samæfingar, frábæra leiðsögn og síðast en ekki síst frábæran félgasskap. Í hópnum voru einstaklingar með mismunandi markmið og væntingar en allir gátu samt sem áður fundið einhvern til að vera "samferða" á æfingum og í keppnum. Mér líkaði námskeiðið svo vel að ég skráði mig aftur og dró þá manninn minn með og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Við ætlum að bæði að skrá okkur aftur :)