96 mílur í West Highlands Way: Ferðasaga Björns R. Lúðvíkssonar

uppfært 08. maí 2020

Þegar ég hélt að ástandið gæti ekki versnað þá varð allt svart. Það eina ljós sem mín auma sál hafði til að ylja sér við var nú horfið. Hér var ég í 1500 m hæð í snjókomu um miðja nótt með dautt höfuðljós og vararafhlöðu sem virkaði ekki. Ofan á ógleði, uppköst, ofkælingu ofl. þá varð þetta kornið sem fyllti mælinn og hausinn sagði stopp. Eftir eingöngu 76 km hlaup af þeim 160 km sem ég ætlaði varð Istria100 að mínu fyrsta og vonandi eina DNF! Hlaup og æfingar í kafaldsbyl, snjó upp að hnjám og klofi oft í svarta myrki í Esjuhlíðum að engu orðnar, eða hvað?

Björn R 3 (1)
Björn í góðum félagsskap á leiðinni.

Þessu var fljót svarað, nei því hverri áskorun er hægt að skipta upp í mismunandi áfanga. Æfingatímabil, undirbúning og hlaupið sjálft. Hlaupin sjálf hafa sína sjálfstæðu stig. Stærsti sigurinn er að komast í rásmarkið og finna unaðsstrauma adrenalíns streyma út í hverja taug þegar lagt er af stað út í óvissuna. Næsta stigið er ferðalagið sjálft sem hlaupið er, þar munu skiptast á skin og skúrir, grátur og hlátur, vellíðan og vonleysi. Ef allt gengur upp þar sem líkamlegt og andlegt atgervi tekst að yfirstíga margvíslegar fyrirséðar og ófyrirséðar þrautir þá kemst maður á efstatig hlaupsins, marklínuna með öllu sínu stórbrotna tilfinningalega rússi. Því miður var það ekki í mínum kortum þennan laugardag í Króatíu í byrjun apríl sl. að ná því lokatakmarki.

Fall er fararheill

En það þýddi lítið að gráta Björn bónda, enda fer það mér afar illa að vera með eitthvað aumkunnar væl í byrjun vors! Réttara að gleðjast yfir öllum þeim ánægjulegu áföngum sem náðst höfðu bæði í aðdraganda hlaupsins og í hlaupinu sjálfu. Því ákvað ég strax að þetta yrði æfingarhlaup fyrir annað 90 – 100 mílna hlaup fljótlega. Eftir mikla leit þá var hlaupið fundið í hálöndum Skotlands, The West Highland Way. Leiðin er vinsælasta gönguleið Skotlands 96 mílur með u.þ.b. 4000 m heildarhækkun og er venjulega gengin á 4-7 dögum. Til allra lukku þá fékk ég inngöngu á síðustu stundu þar sem einn hlaupari hafði hætt við og ég fékk hans pláss nr. 52, en 105 hlauparar höfðu þegar fengið inngöngu.

Fékk ég því nú endurnýjun lífdaga sem ég notaði vel til æfinga sem m.a. skiluðu sér PB í Esjunni, Helgafellinu ofl. skemmtilegum æfingaleiðum. Áður en varði var ég aftur kominn á byrjunarreit ævintýrahlaups en nú í smábænum Milingavie í útjarðri Glasgow og niðurtalning komin af stað þegar ræst var eina mínútu yfir miðnætti laugardaginn 25 maí. Það var gríðarleg sigurtilfinning að vera lagður aftur af stað, eftir þau mörgu misstök sem ég hafði gert í Króatíu. En það góða við misstök að af þeim er hægt að læra og koma sterkari til baka. Nú var ég búinn að skoða betur leiðina, áfangaskipta henni með markvissari hætti, betri búnaði og ekki síst búinn að undirbúa hausinn betur í að takast á við þær ófrávíkjanlegu þrautir sem biðu mín.

Björn R 2
Hlaupaleiðin lá m.a. við Loch Lomond vatnið.

Hlaupið byrjaði vel, kjöraðstæður logn og 6-8 gráðu hiti. Þar sem veðurspáin gerði ráð fyrir roki og rigningu þegar líða færi að hádegi sem myndi endast út hlaupið þá var ljóst að margir ætluðu sér það sama og ég að reyna dekka sem mesta vegalengd áður en aðstæður yrðu erfiðar. Þetta hlaup er skipulagt af hlaupurum og svipar að mörgu til þeirra skemmtilegu umgjörðar sem hægt er að finna m.a. í haust- og vormaraþoninu hér heima. Leiðin er mörkuð með merkjastaurum og skiltum sem koma fyrir nokkuð reglulega á leiðinni þá svo að oft geta liðið nokkrir km án nokkurra merkinga. Til að minnka líkur á villum er hverjum hlaupara skylt að hafa ítarlegt kort af leiðinni, GPS punkta og áttavita, en það átti eftir að koma sér vel.

Hlaupið fór vel af stað og áður en varði var komið að fyrsta klifrinu Conic Hill eftir um 25 km leið. Þegar upp var komið blasti Loch Lomond vatnið við í allri sinni fegurð í tunglsljósi við stjörnubjartan himin þar sem tunglskinssónata Beethovens náði nýjum hæðum. Hér varð ég að taka á öllu mínu til að taka ekki á rás í takt við þann ægis kraft sem umhverfið magnaði upp meðal þeirra sem boðið var til veislunnar. Þegar hér var komið til sögu hafði ég slegist í hóp með þremur öðrum hlaupurum og var fyrsta konan þar á meðal. Var ég að fara of geyst? Nokkru seinna kallar einn hlaupafélagi minn upp „Oh my god Björn this is amazing take a look at the sky“, þar urðum við vitni að því stórbrotna sjónaspili þegar dagrenning gengur í garð og sólin sendir geisla sína til að skapa náttúrulist sem bræðir jafnvel hin hörðustu hjörtu. Tóku nú við krefjandi tæknilega erfiðir stígar þar sem æfingar á erfiðum fáförnum stígum heimafyrir skiluðu sér og fjótt fór að skilja á milli mín og samferðarmanna minna.

Kapp er best með forsjá

Ég var kominn á Check point 3, Beinglas 66 km að baki og gamli nú í 12-16 sæti, en framundan versnandi veður og nánast öll hækkun hlaupsins eftir. Hér varð að fara öllu með gát.  Þrátt fyrir rigningu þá var veðrið enn sem komið er milt og kjörið til hlaupa. Líðan var góð og var orðinn spenntur fyrir að hlaupa upp í skosku hálöndin og næsta poka eftir u.þ.b. 34 km með nýjum þurrum fötum, mat, auk þess sem líklegt var að eiginkonan myndi vera þar ef allt gengi að óskum. Þarna slóst ég í för með öðrum hlaupara þar sem við skiptumst á að leiða. Eftir 88 km þar sem ég hafði hlaupið í humátt á eftir félaga mínum í nokkurn tíma þá var farið að renna á mig tvær grímur þar sem við ættum núna að vera hlaupa í gegnum lítið þorp í hjarta hálandanna.

Í stað þess vorum við komnir langleiðina upp fjall á hæð við Helgafellið og bærinn hvergi í augsýn! Einnig hafði ég ekki orðið var við merkjastaur í dágóðan tíma. Þá sér ég þar sem félaginn er stoppaður af göngumanni á leið niður og hann fórnar höndum snýr við og hleypur til mín. „I´m so sorry Björn, I took us the wrong way, we should have taken a right turne down in the valley“! Þar sem þetta var jafnmikið mér að kenna, þá eyddi ég þessu tali tók kortið fram og við fundum út að líklega vorum við búnir að taka um 2 km villu sem var nánast öll upp í mót. Það góða við það er að nú tók við niðurhlaup og við fundum síðan vegvísinn sem okkur hafði báðum tekist að missa af. Þessi villa kostaði okkur líklega 40 mín, auk þess nokkur fjöldi hlaupara hafði nú tekið fram úr okkur. Við þetta var ekki unað, ég gaf í og ætlaði að vinna þetta upp sem fyrst (afdrifarík misstök sem næstum kostuðu mig hlaupið eins og varð raunin með þennan hlaupafélaga minn). Þannig fórum við fljótlega að skokka fram úr nokkrum hlaupurum. Þegar fór að nálgast næsta áfangastað fann ég hvernig að þreytan heltók mig ásamt dassi af ógleði. Hlaupafélaginn var nú hvergi sjáanlegur, en þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.

Verndarengill

Með því að kyrja mínar möntrur þá fékk ég aukinn styrk, auk þess að allt í einu fannst mér að ég sæi mína heitt elskuðu í fjarska þarna í rigningasuddanum. Var virkilega þreytan orðin svo mikil að ég var farinn að fá ofskynjanir sem margir hlauparar tala um, eða var þetta raunin? Þegar hún fór að veifa og kalla til mín hjarthlý hvatningar orð þá taldi ég nokkuð öruggt að um raunverulega skynjun væri að ræða, hvílík gæfa! Þetta gerði gæfumuninn og skokkaði hún með mér að Bridge of Orchy stöðinni. Nú voru 103 km að baki, tíminn ótrúlega góður, 14 klst. og 27 mín. Þarna varð mér hins vegar ljóst að miðað líkamlegt ástand ásamt versnandi og kólnandi veðri þá væri útilokað ná háleitu markmiði að klára undir 24 klst.

Hjálpin og stuðningurinn sem Rósa veitti mér þarna var ómetalegur. Nú var skipt um sokka, hugað að byrjandi blöðrum, kamarferð, heitur matur, samloka, Poweraide og að lokum heitt kaffi með sykri. Einnig skipti ég um alklæðnað og fór í þykkari hlaupa treyjur. Það var æðislegt að fara í þurr föt og finna orkuna koma til baka. Það sorglega var að hver hlauparinn af öðrum ákvað að kasta inn handklæðinu þarna, og átti það því miður um hlaupafélaga minn eins og ég komst að seinna. Aftur var lagt af stað og var það þægileg tilfinning að vita að Rósa ætlaði að hitta mig við síðasta pokann eftir u.þ.b. 30 km. Einnig hafði ég núna þurft að bæta við búnaðinn svefnpoka og „emergency rucksack“, þessu gat ég komið fyrir í mittistösku sem bættist við annan skyldubúnað þá rúmlega 50 km sem eftir voru.

Björn R 4
Hið ógurlega Devil''s staircase í fjarska.

Til að byrja með gekk ég kraftgöngu, enda viðstöðulaus hækkun með krefjandi brekkum sem beið mín. Þegar hér var komið þá var ég fullkomlega einn, enginn hlaupari sjáanlegur og því rétt að hafa augun hjá sér til að fylgjast með merkjastaurum sem nú voru frekar fátíðir. Sem betur fer minnkaði rigningin nú og gat ég betur notið þeirrar hrjóstrugu fegurðar og fjallasýnar sem hvarvetna blasti við. Á einum staðnum lá leiðin í gegnum hjörð skoskra nautgripa og stóðst ég ekki mátið að taka eina sjálfu með þá í bakgrunni. Þó svo að mér miðaði hægt áfram í aftur versnandi veðri þá var ég kominn á næstu stöð, Kingshouse.

Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér

Eftir nokkra leit fann ég loksins tjaldið þar sem yndisleg skosk madamma tók hlýlega á móti hröktum og blautum hlaupara. Þar var einnig fyrir annar hlaupari sem hafði verið á stöðinni í nokkurn tíma. Upp úr varð að við bundust böndum um að komast í endamarkið með sameiginlegu átaki. Fljótlega kom í ljós að Peter var hörku ultrahlaupari með mikla 100 mílna reynslu frá ýmsum hlaupum bæði í Bandaríkjunum (m.a Western state á 29 klst fyrir 2 árum), auk þess sem hann hafði hlaupið þessa leið 2015 með góðum árangri. Tók nú við klifur upp Devils staircase (sem er rétt nefni), en það góða var að handan þessa fjalls var næstsíðasti áfangastaðurinn Kinlochleven og Rósa!

Þarna uppi í þoku og rigningu birtist þá ekki rétt hjá okkur þessi gullfallegi hjörtur ásamt hjörð dádýra á fjalltoppinum. Við Peter stóðum sem bergnumdir við þessa draumkenndu stórfenglegu sýn, sem hvarf okkur sjónum inn í þokuna jafn skjótt og hún hafði birst okkur. Við þetta fórum við aftur að skokka, enda tók nú við mjög bratt og tæknilega krefjandi niðurhlaup. Brátt vorum við komnir í þorpið og aftur kom Rósa eins og frelsandi engill til að vísa okkur rétta leið að kofanum þar sem síðasti pokinn, veitingar og hlýja biðu okkar. Nú voru fæturnir orðnir verulega sárir, blöðrurnar undir báðum hælum og táberginu hægra meginn voru verstar.

Björn R 5
Björn ásamt samferðamannni sínum, Peter að nafni.

Gott var að fara aftur í nýjar og þurrar treyjur auk þess að gera heiðarlega tilraun til að koma einhverri orku niður sem hafði gengið illa s.l. 5 klst. Einnig fór ég í nýja skó og sokka, en fljótlega kom í ljós að ég hefði betur átt að halda mig við skóna sem ég var í þótt þeir væru þá orðnir verulega blautir og skítugir. Hér var einnig nýkominn hlaupari sem hafið hlaupið okkur Peter uppi (sá eini sem tók fram úr mér frá villunni fyrr um daginn). Hann var hins vegar orðinn verulega kaldur og tókst með engu móti að koma hita aftur í sig þrátt fyrir ýmislegt sem reynt var og varð hann að hætta þarna vegna vosbúðar og ofkælingar (endurómun af eigin hörmungum frá Istria). Eftir andlega- og líkamlega endurnærandi aðhlynningu hjúkrunarfræðingsins Rósu héldum við Peter aftur af stað í lokaáfanga hlaupsins út í myrkrið, rokið og rigninguna.

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Það sem ég hafði ekki gert mér nægjanlega grein fyrir að framundan var hlutfallslega mesta klifur hlaupsins og erfiðir stígar sem endanlega gerðu út af sárum fótum. Verkur í hæ ökla fór nú hægt og rólega að ágerast auk þess sem hvert skref var helvíti líkast vegna blaðra sem nú höfðu rifnað og rifu stanslaust í viðkvæmt holdið í allt of stífum skóm. Nú komu möntrurnar að góðum notum og voru þær kyrjaðar stanslaust restina af leiðinni. Peter var einnig skyndilega í verulegum hremmingum, hann komst ekki lengra þar sem við vorum í hjarta skosku hálandanna í skítakulda, grenjandi rigningu og þoku. Við höfðum ekki séð neina stiku í langan tíma, höfðum við farið framhjá aðalleiðinni?

Til að sporna við ofkælingunni sem hann hrjáði datt okkur í hug að hann troða honum í álpokann sem hann hafði meðferðis, setja gat á endann þannig að hann gæti sett hausinn í gegn. Nú var ekkert annað í boði en að athuga hvort hann gæti ekki gengið og séð hvort hann næði ekki með því móti að fá aftur einhvern hita í skrokkinn til að stoppa skjálftan og þá miklu vanlíðan sem hann var kominn í. Hægt og rólega fór honum að líða betur, en úr pokanum fór hann ekki fyrr en við loksins komust í mark. Á þeirri leið þurftum við oft að stoppa til að reyna meta hvort við værum virkilega á réttri leið, því þokan var svo mikil að við sáum stundum varla fram úr augum. Þegar við loksins komum í Fort Williams þá var dásamleg tilfinning að sjá skilti sem sagði The end of the West Highland Way, en hvar var endamarkið? Þá mundum við að talað var um í upphafi hlaups að við yrðum að skoða vel leiðina að endamarkinu, því hún gæti reynst snúin. En greinilegt var að hvorugur okkar hafði tekið nægjanlega vel eftir og þreytan sem núna heltist yfir okkur auk þess að skyndilega fór ofkæling að gera vart við sig hjá mér.

Eftir um 25 – 30 mín leit þá fundum við loksins endamarkið sem var lítill upplýstur skúr við hliðina á fótboltavelli bæjarins. Stórbrotinni ævintýarför var nú á enda hjá okkur félögum á tímanum 28 klst. og 3 mínútum og í 18 – 19 sæti. Lokatíminn var hins vegar ekki færður til bókar fyrr en ég hafði sest niður á móti hlaupastjóranum og gefið honum skilmerkilega upp númerið mitt. Hann var hinn hressasti og óskaði mér til hamingju með 100 mílna hlaup, en hafði hann þá fengið fregnir af villum mínum deginum áður (en opinber vegalengd leiðarinnar er 96 mílur). Eftir knús og koss frá eiginkonunni sem átti stóran þátt í þeim persónulega sigri sem þessi vegferð færði mér var alsælu náð.

Björn R 1
Björn einbeittur.

Nú hafði mér tekist ætlunarverkið sem virtist hafa runnið úr greipum mínum nokkurum vikum áður. Við tók síðan stórskemmtileg verðlauna afhending nokkrum klst. seinna á sunnudagsmorgun þar sem öllum þeim 36 sem tókst að klára hlaupið undir 35 klst. tímamörkum fengu veglegt kristals glas þar sem hlaupleiðin var grafin í. Síðar kom í ljós að öðrum 7 hlaupurum var gefin kostur á að klára undir 38 klst. þar sem þeir höfðu allir lagt áður af stað frá Kinlochleven auk þess sem hlaupa aðstæður voru taldar sérstaklega erfiðar og krefjandi þetta árið. Ævintýrinu var nú lokið, og nú gekk flest upp. Þegar þetta er skrifað 10 dögum seinna er bólgan í hæ öklanum að hverfa, nokkrar neglur hafa horfið og flestar blöðrur gróið. Nú er bara fara finna næstu alvöru áskörun hvar sem hana er að finna, því fjöllin kalla.