Sem barn hafði ég alltaf gaman af því að hlaupa. Ég var alinn upp í sveit og þar fékk maður mestu æfinguna með því að hlaupa á eftir rollunum. Lengi vel trúði ég því statt og stöðugt að þessi miklu hlaup í sveitinni gætu hjálpað mér að takast á við hlaup í alvöru keppni. Þegar ég hóf þátttöku í hlaupum árið 1983 (á 15 ári) má segja að ég hafi byrjað á öfugum enda því ég valdi að keppa í gamla Álafosshlaupinu. En það var frá Mosfellssveit og inn í Reykjavík þar sem endað var á Valbjarnarvelli. Opinberlega var hlaupið kynnt sem 14 km og ég er ekki frá því að það hafi verið nærri lægi.
Ég var auðvitað algjör grænjaxl að halda það að ég gæti hlaupið þetta og komist vel frá því. Ég hafði á þessum tíma ekki leitt hugann að skóm eða öðrum hlaupaútbúnaði. Skórnir sem ég notaði voru gamlir útslitnir Adidas handboltaskór og ég hélt að þar sem þeir hentuðu vel í spretti inni í sal þá gæti ég alveg eins hlaupið langt í þeim. Annar búnaður var í samræmi við skóna: Níðþröngar stuttbuxur eins og tíðkuðust í fótboltanum og síðerma bolur úr nælon. Ég held að hægt sé að fullyrða að þetta var afleitur búnaður í slíkt hlaup.
Hlaupið þróaðist þannig að ég æddi af stað fullur sjálfstrausts og leið eins og ég ætlaði að sigra heiminn. Allar aðstæður voru einnig hinar bestu og því var ég viss um að ég gæti klárað á góðum tíma. Vandamálið var hins vegar að þar sem ég var algjörlega reynslulaus þá vissi ég ekki hvað var góður tími eða góður meðalhraði. Ég efast ekki um að margir hafi lent í þessu í sínu fyrsta hlaupi. Eftir u.þ.b. 30 mínútur af hlaupinu var ég farinn að þyngjast og verkir í kálfum farnir að segja til sín. Ennfremur voru ansi margir hlauparar búnir að fara fram úr mér og ég sá raunverulega ekki fyrir endann á hlaupinu. Ég var þó ákveðinn í að komast alla leið í mark. Þær hugsanir breyttust þegar ekki aðeins kálfarnir voru að angra mig heldur voru komin brunasár á lærin af stuttbuxunum sem voru allt of þröngar fyrir hlaup af þessu tagi. Ég píndi mig þó áfram vitandi að þetta tæki allt enda um síðir.
Þegar um 50 mínútur voru búnar fóru að koma ný merki um sársauka og þá var bolurinn farinn að nuddast við brjóstin á mér og ég hugsaði þá með mér hvílík vitleysa það var að hafa farið út í keppnishlaup að þessu tagi. Þegar var farið að líða að lokum hlaupsins var ég farinn að haltra eins og gömul hæna því ég fann allstaðar fyrir sársauka. Ég hafði á tilfinningunni að báðir kálfar væru hreinlega slitnir og brunasárin orsökuðu að hreyfingar mínar voru eflaust ekki í samræmi við hefðbundnar hlaupahreyfingar. Mér tókst þrátt fyrir allt að klára hlaupið á rúmum 58 mínútum og var sáttur við það. Ekki leið mér síður betur þegar ég fékk verðlaun fyrir annað sæti í unglingaflokki.
Þetta var þó ekki búið því ég átti eftir að hafa mikla verki í kálfunum næstu tvær vikurnar og átti hreinlega erfitt með gang nokkra daga á eftir. Ég var þá farinn að skilja hversu mikilvægur búnaðurinn var og ákvað að kaupa mér hið fyrsta nýja skó sem hægt væri að hlaupa í sem og klæðnað sem væri ekki fyrir boltagreinar heldur sérhannaður fyrir hlaupagreinar. Það tók mig rúmar tvær vikur að ná mér að fullu og það fyrsta sem ég gerði þegar ég var orðinn heill var að kaupa góða skó og mæta á frjálsíþróttaæfingu hjá ÍR - það var ekki aftur snúið. Þess má geta í lokin að ég átti eftir að keppa aftur í Álafosshlaupinu og þá mætti ég rétt búinn og í góðri æfingu og tíminn var þá um 10 mínútum betri en í mínu fyrsta hlaupi. Ég verð þó að viðurkenna að mér leið ekki vel á leiðinni þegar ég hugsaði til baka um alla verkina og sársaukann sem ég hafði glímt við í fyrsta hlaupinu.
Steinn Jóhannsson.