Anna Berglind segir frá HM utanvega

uppfært 08. maí 2020

Laugardaginn 8. júní 2019 fór fram heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum í Miranda do Corvo í Portúgal. Þetta var í fimmta sinn sem FRÍ sendir lið til þátttöku í mótinu og fóru að þessu sinni fjórir karlar og fjórar konur, ásamt liðstjóra og tveimur mökum.

HM Utanvega Hlaupaara Önnu Berglindar Pistill
Í liðinu að þessu sinni voru: Efri röð frá vinstri, Örvar Steingrímsson, Sigurjón Ernir Sturluson, Ingvar Hjartarson og Þorbergur Ingi Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Anna Berglind Pálmadóttir, Rannveig Oddsdóttir, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir og Melkorka Árný Kvaran.

Í landsliðið voru einnig valin þau Guðni Páll Pálsson og Elísabet Margeirsdóttir en þau drógu þátttöku sína til baka skömmu fyrir mót.

Dagarnir í Portúgal
Ferðalagið til Portugal var nokkuð langt og strangt þar sem ekki er flogið beint til Lissabon, auk þess sem þurfti að keyra um 200km eftir að þangað var komið og voru liðsmenn að týnast á hótel seint um kvöld á miðvikudegi fyrir mótið. Fimmtudeginum var svo eytt í örlitla heilsufarsathugun þar sem m.a. sá karl og kona sem stigahæst eru á lista ITRA voru tekin í blóðprufu, stutta heimsókn til saltfiskfyrirtækis á svæðinu og brautarskoðun. Ljóst var að brautin var ævintýralega falleg en mjög tæknileg á köflum og þökkuðum við til að mynda fyrir að hafa áttað okkur á því að við værum að fara að hlaupa í gegnum nokkuð langt rör fullt af vatni. Á föstudeginum var svo setningarathöfn, liðsfundur auk þess sem allir tóku „græjutékk" og sáu til þess að allt væri klárt fyrir stóra daginn.

Að morgni hlaupadags var „ræs" fyrir klukkan sex þar sem þá byrjaði morgunmatur. Rúturnar fóru svo af stað með keppendur í átt að ráslínu kl. 7:30 og var hlaupið ræst kl. 9:00. Það var virkilega góður andi í hópnum þar sem við hlökkuðum til að hlaupa hlaupið sem við höfum verið að bíða eftir. Þegar á staðinn var komið, fórum við í gegnum tékk þar sem verið var að athuga hvort við værum öll með skyldubúnaðinn á okkur. Svo var bara að koma sér fyrir í rennunni en ljóst var að það yrði hratt farið af stað og því um að gera að vera ekki of framarlega til að vera ekki hlaupin niður. Til að gera sögu, sem gæti orðið mjög löng, sæmilega stutta þá einkenndist leiðin af bröttu klifri með hlaupanlegri köflum inn á milli. Mestu vonbrigðin (fyrir utan að sjá Tobba utan brautar með blóð lekandi niður sköflunginn) voru síðustu 5-10 km en þar var mjög mikið brölt, upp á steina og yfir læki þannig að þurfti að tosa sig upp og niður með kaðli og keðjum. Á þessum tímapunkti, þegar allt klifur er búið, er þörfin fyrir að hlaupa almennilega orðin töluverð og því vonbrigði að komast lítið áfram. Síðustu tveir kílómetrarnir voru svo innanbæjar og þar gátu þeir sem sprækir voru brokkað í mark á sæmilegum hraða á meðan aðrir voru að daðra við krampa og þorðu því minna að gefa í.

Árangur liðsins var með mestu ágætum og voru tímarnir eftirfarandi:

Nafn

Tími

Sæti/heild

Sæti/kyn

Karlar

Sigurjón Ernir Sturluson

04:29:49

126

113

Ingvar Hjartarson

04:31:06

130

116

Örvar Steingrímsson

04:43:50

169

140

Þorbergur Ingi Jónsson

DNF

Konur

Anna Berglind Pálmadóttir

05:17:04

262

80

Rannveig Oddsdóttir

05:23:08

279

93

Melkorka Árný Kvaran

05:39:00

314

121

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir

05:56:11

332

136

Liðsmenn voru virkilega ánægðir með frammistöðu hópsins og voru úrslit liðakeppninnar ekki síður ánægjuleg. Kvennaliðið hafnaði í 22. sæti af 31 þjóð sem náði að skila þremur konum í mark en sökum töluverðra affalla á leiðinni gátu ýmsar þjóðir, til að mynda Noregur, ekki náð að manna kvennalið inn í úrslitin. Karlaliðið hafnaði í 28. sæti af 42 þjóðum sem náðu að skila þremur körlum í mark og eru þessi úrslit töluverð bæting frá fyrri árum.

Áhugaverð tölfræði utanvegalandsliðsins
Eins og áður sagði mættu fjórar íslenskar konur og fjórir íslenskir karlar á ráslínu heimsmeistaramótsins. Aldur Íslendingana var frá 25 ára til 54 ára þar sem karlarnir voru á bilinu 25-40 ára en konurnar frá 40-54 ára. Elsti karlinn í liðinu (Örvar) er jafngamall yngstu konunni (Önnu Berglindi), nánast upp á dag. Við konurnar grínuðumst með það að sennilega værum við ekki einungis með elsta liðið heldur sennilega fyrirferðamesta liðið þar sem allmargar kvennanna voru mjög litlar og grannar (án þess þó að við getum flokkast undir þungavigtafólk á íslenskan mælikvarða).

Helmingur liðsins voru nýliðar eða þau Anna Berglind, Ingvar, Melkorka og Rannveig; Sigurjón Ernir var að keppa fyrir Íslands hönd í annað skipti og þau Þorbergur, Þórdís Jóna og Örvar í þriðja skipti. Þórdís Jóna fékk það virðingarmikla hlutverk að vera fánaberi á setningarathöfninni þar sem hún var ekki einungis á mótinu í þriðja skipti, heldur einnig aldursforseti hópsins.

Eftir svona verkefni situr eftir fyrst og fremst gleði og þakklæti. Keppnis-dagurinn og ferðin öll var hin gleðilegasta, enda er það ólýsanleg tilfinning að taka þátt í viðburði af þessari stærðargráðu, auk þess sem samstaðan í hópnum var frábær. Þá er þakklæti ofarlega í huga, ekki einungis þakklæti fyrir góða heilsu og ævintýralega lífsreynslu heldur einnig þakklæti til þeirra sem láta svona ferð verða að veruleika. Verst er að héðan í frá verður heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum einungis haldið annað hvert ár og því ekki tímabært að byrja að hlakka til næsta hlaups alveg strax.

Bakhjarlar utanvegalandsliðsins 2019 eru:
Sportvörur/2XU
Jarðböðin Mývatnssveit
Hengill Ultra
Höldur
Klettur, sala og þjónusta
Protis
Sushi corner
Set ehf
VHELandsnet
Samskip
Sport 24
Skúbb
Hleðsla
Eiríkur Rauði gistiheimili
KeyNatura
Visthús
Norðurorka
Bara gaman
Matur og mörk
Fylgifiskar