Jæja, kominn tími til að gera hlaupaárið upp og kasta markmiðum fyrir árið 2018 út í alheiminn. Fyrst smá tölfræði:
Árið 2017 hljóp ég samtals 1848 kílómetra. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd fjölgaði kílómetrunum eftir því sem leið á árið, fjöldinn var í hámarki í júní, sem var aðal æfingamánuðurinn fyrir Laugaveginn. Þeim fækkaði svo snarlega síðustu þrjá mánuði ársins þegar maraþon ársins var búið. Ég fékk flensu í febrúar, sem skýrir fá kílómetra þann mánuðinn.
Síðan ég byrjaði að skrá hlaupin mín hef ég aldrei hlaupið jafn langt og á þessu ári. Á þessari mynd er hægt að sjá þróunina. Árið 2013 var eitt af stóru markmiðunum mínum að ná 1000 kílómetrum á einu ári. Það tókst ekki og ég var því afar glöð þegar það tókst árið 2014. Síðustu þrjú árin hef ég hlaupið langt yfir 1000 kílómetra án þess að taka sérstaklega eftir því. Spurning hvort ég reyni einhvern tíman við 2000 km á ári? Það verður samt ekki á þessu ári (sjá umfjöllun um markmið fyrir 2018 neðar).
Í heild var þetta virkilega skemmtilegt hlaupaár. Laugavegurinn og allar æfingarnar fyrir hann er eftirminnilegast en ýmislegt annað sem er gaman að minnast. Háfslækjarhringur á uppstigningardag með Flandra er alltaf skemmtilegur dagur og Hvítasunnuhlaup Hauka, þar sem ég fór 17,5 km, var sérlega skemmtilegt. Það var líka gaman að bæta tímann minn í 5 km tvisvar sinnum, fyrst í mars og aftur í apríl, og að bæta tímann minn í 10 km í Ármannshlaupinu í júlí. Maraþonið í haust er líka eftirminnilegt þó það hafi reynst mér ansi erfitt.
Þó að hlaupin hafi tekið mestan tíma þá gaf ég mér smá tíma fyrir fjallgöngur líka, sérstaklega í ágúst. Fór i fjögurra daga göngu um Víknaslóðir í byrjun ágúst og svo í mjög eftirminnilega, erfiða en líka skemmtilega göngu á Kerlingu + 7 tindana (endað á Súlum) síðar í ágúst.
Hvað með 2018?
Þá er komið að markmiðunum fyrir þetta ár. Ég hef lengi verið að melta það með mér hvað ætti að vera næsta markmið í hlaupunum. Í framtíðinni langar mig í fleiri löng utanvegahlaup eins og Laugaveginn, kannski jafnvel erlendis líka. En ég var orðin svo södd af hlaupunum í haust að ég ætla aðeins að láta það bíða. Einbeita mér að styttri vegalengdum og hafa þá um leið svigrúm fyrir fjölbreytilegri hreyfingu (þegar maður hleypur 282 km á mánuði - eins og ég gerði í júní sl, þá gerir maður ekkert mikið annað ;-)). Mig langar að ná upp meiri hraða, og það þýðir reglulegar og markvissar æfingar, en ekki síður markvisst matarræði sem styður við markmiðin.
Aðal hlaupamarkiðið verður að bæta tímann minn í hálfmaraþoni - stefni á undir tvo tíma (núverandi PB er 2:09,09). Stefnan verður sett á Akureyrarhlaup í júlí, en ef það gengur ekki þá er hægt að endurtaka leikinn í Reykjavíkurmaraþoni og jafnvel í haustmaraþoninu.
Annað markmið er að taka þátt í sem flestum gleði- og upplifunarhlaupum, utanvegahlaupum, fjallahlaupum og allskonar. Búa til góðar minningar.
Þriðja markmiðið er að auka fjölbreyti í hreyfingu: Styrktaræfingar, fjallgöngur, jóga og sund. Stefni líka á að kaupa mér hjól um leið og snjóa leysir og fara að hjóla sem oftast í vinnuna.
Fyrstu tíu vikur ársins er ég búin að skrá mig í fjarþjálfun þar sem fókusinn verður á að byggja upp styrk og beina athyglinni að góðri næringu. Hlakka til að takast á við það verkefnið.