Frásögn Trausta Valdimarssonar
Öðruvísi upplifun af 3 fjörðum fyrir austan.
Ég byrjaði að hlaupa árið 1988 í Svíþjóð. Eins og mörg ykkar hafði ég fljótlega gaman af að taka þátt í hlaupakeppnum. Því fylgir spenna, múgæsing og ýmiss konar nautnatilfinning. En mörg hlaupin eru lík hvort öðru og þegar frá líður falla þau í gleymsku. Þannig var með flest hlaupin úti í Svíþjóð. Ég fór að huga að heimflutningum 1998 og þegar ég sá hlaupasíðuna hans Torfa fór ég að hlakka til. Fyrir utan öll venjulegu götuhlaupin voru til fyrirbæri eins og Esjuhlaupið, Laugavegurinn, Barðsneshlaupið, Þorvaldsdalsskokkið og Fjallaskokk á Vatnsnesi! Þetta voru alvöru hetjur heima á klakanum. Og þegar ég frétti að gamli vinur minn; Pétur Helgason hafði hlaupið Laugaveginn ákvað ég að þetta yrði ég að upplifa; því "sönn hamingja vex uppúr kvöl"!? Og mér tókst að klára Laugaveginn 1999, þreyttur og mjög hamingjusamur.
Haustið 1999 fór ég að leysa af í nokkrar vikur á sjúkrahúsinu á Neskaupstað. Ég hafði ekki komið á Austfirði síðan 1985, þegar við ókum hringveginn. Aldrei áður komið á Neskaupstað. Ótrúleg náttúrufegurð, hvílík fjöll. Hitti Ingólf Sveinsson, hlaupara og geðlækni mm, sem lýsti fyrir mér Barðsneshlaupinu. Og ég lét mig dreyma..
Laugavegurinn 2000 gekk ekki sem skyldi, rigndi í kaf og við urðum mörg að snúa við - hvorki nógu þreytt né hamingjusöm. En ég var búinn að stíla upp á Barðsneshlaupið laugardaginn 5. ágúst "til vara". Og þar var stærri séns að vinna! Var vikuna fyrir verslunarmannahelgina í afleysingum á Neskaupstað og hljóp þessa fallegu leið oft í huganum (góðar myndir á Hlaupasíðunni -(úrslit)). Daginn fyrir sjálfa keppnina varð mér þó ljóst að samkeppnin um fyrstu sætin gæti orðið of hörð. Bjartmar Birgisson og ýmsir fleiri sterkir hlauparar voru væntanlegir.
Laugardaginn 5. ágúst kl 08.30 söfnuðumst við saman á höfninni í Neskaupstað. Níu karlar og fjórar konur mættu til leiks í sjálft Barðsneshlaupið. "Minni" hetjur lögðu seinna sama dag af stað í 10 eða 6 km hlaup. Veður var stillt, næstum alveg lygnt og 10-16 stiga hiti. Austfjarðaþokan spillti útsýni fyrst í stað. Farið var á gúmmíbát 8 mínútna siglingu yfir Norðfjarðarflóann og hoppað í land við Barðsnes, sem fór í eyði 1955. Fjöldi manns tók á móti okkur en þessa helgi var ættarmót á bænum hjá afkomendum Sigríðar Þórðardóttur og Sveins Árnasonar, foreldrum Ingólfs Sveinssonar. Þau hófu búskap á Barðsnesi árið 1923 og eingnuðust átta börn. Við fengum hressandi drykki og góða hvatningu. (sjá myndir á Hlaupasíðunni -(úrslit)).
Þetta hlaup var öðruvísi en öll hin! Frá Barðsnesi var hlaupið meðfram ströndinni eins og land liggur um hina þrjá firði sem ganga inn frá Norðfjarðarflóa: Viðfjörð, Hellisfjörð og Norðfjörð. Ca. 27 km um mjög fjölbreytt land. Alvöru víðavangshlaup yfir móa og mela og um þröngar og krókóttar kinda- og hestagötur. Gott fyrir fótvissa en þurfti að hafa einbeitinguna í lagi. Lítið um brekkur nema Götuhjalli upp frá Hellisfirði um 200 m hækkun. Í botni fjarðanna eru ár, sú fyrsta með hengibrú en þær 2 síðustu þarf að vaða.
Við Bjartmar náðum fljótlega forustu í hlaupinu, en sáum alltaf einhvern nokkur hundruð metra fyrir aftan. Upp Götuhjallann þreyttist ég en Bjartmar var léttur að vanda og náði góðu forskoti. Á drykkjarstöðinni hæst uppi á Hellisfjarðarmúla birtist ungur piltur skyndilega - 17 ára fótboltastrákur; Þorbergur Jónsson. Ég æddi af stað niður kindagöturnar með vatnsflösku í hendi en var næstum dottinn (200 m. ansi bratt niður í sjó) þegar ég reyndi að fá mér sopa. Þorbergur kom fljótlega í hælana á mér og ég varð að hleypa honum framúr. Hann virtist kunna vel við sig niður einstigið því hann nálgaðist Bjartmar hratt og náði honum við Norðfjarðarána. Bjartmar sagðist seinna hafa haldið að ég væri að koma og hafa misst allan mátt við að sjá "ókunnugan strák gera grín að okkur". Þorbergur kom í mark á nýju og glæsilegu meti; 2:16:20, Bartmar tveim og ég rúmum fjórum mínútum seinna. Mikið afrek hjá Þorbergi, sem er mjög efnilegur íþróttamaður, en ég frétti seinna að hann taki gjarnan auka sprettæfingar upp í Norðfjarðarfjöllin eftir fótboltaæfingarnar. Ekki spillti fyrir gleði heimamanna að Þorbergur er ættaður frá Barðsnesi. Afi Þorbergs Jónssonar, Þorbergur Sveinsson er bróðir Ingólfs Sveinssonar.
Verðlaunaafhendingin var líka eftirminnileg. Neistaflug, sem er mikil gleðihátíð um verzlunarmannahelgina á Neskaupstað var í fullum gangi og fjöldi fólks fylgdist með. Aldrei hefur verið klappað meira. Og eftir að Þorbergur hafði tekið við sínum verðlaunabikar fékk ég að taka á móti enn stærri farandbikar fyrir sigur í öldungaflokknum - stærsti og fallegasti bikar sem ég hef augum barið. Ég þarf því miður að skila honum á Neskaupstað fyrir næsta Barðsneshlaup 4. ágúst 2001 en ætla að reyna að vinna hann aftur. En ég vil þó gjarnan fá samkeppni og að fleiri fái að upplifa þetta frábæra hlaup kring um Norðfjarðarflóann.
Tilgangurinn með lífinu er að búa til góðar minningar!
Ps Sjá heimasíðuna! http://www.vefur.net/hlaup