Barðsneshlaupið er 27 km fjöru- og fjallahlaup um einstaklega fallega og fjölbreytta braut sem liggur um þrjá firði og endar í Neskaupstað. Kristinn Pétursson var á Austurlandi um verslunarmannahelgina 2003 og rann þetta skemmtilega skeið.
Við fjölskyldan vorum mætt á Neistaflug í Neskaupstað. Ég var stirður eftir langan akstur, illa æfður og átti ekkert í þetta hlaup. En ég hafði sleppt því að fara á ball kvöldið áður (með hljómsveit Í svörtum fötum) og farið þess í stað snemma að sofa og gat því allt eins mætt í þetta hlaup eins og ég hafði lofað sjálfum mér og fleirum - og í svörtum fötum.
Barðsneshlaupið er um margt sérstakt hlaup. Fyrir það fyrsta eru hlauparar ferjaðir frá marklínu hlaupsins í Neskaupstað á slöngubát yfir fjörðinn á Barðsnesið þaðan sem hlaupið er. Þegar svo hlauparar eru komnir af stað þurfa þeir að renna um mýrar og mold, hlaupa í urð og grjóti, stökkva yfir læki og vaða ár, hlaupa um holt og hæðir. En það er einmitt þessi temmilega torfæra braut sem sem gerir Barðsneshlaupið svo skemmtilegt og fallegt er landið.
Firðirnir þrír sem hlaupnir eru mynda eins konar þriggja fingra glófa eða krumlu sem hefur grafið sig inn í skaga þann sem liggur á milli enn dýpri fjarða, það er Mjóafjarðar að norðanverðu og Reyðarfjarðar að sunnanverðu.
Á slöngubáti yfir fjörðinn
Ég fór á fætur upp úr klukkan sjö og byrjaði á því að gá til veðurs: skýjað og þoka yfir fjöllum og fjörðum. Úps, betra væri að sjá niður fyrir sig og skemmtilegra að hafa fallegt útsýni að dreifa huganum við hlaupið. En reynsla mín af veðrinu í og við Norðfjarðarflóann sagði mér að þetta gæti vel verið kalt morgunveður sem batnað gæti til muna með hækkandi sól; föstudaginn áður hafði rigning breyst í sól! Hellti upp á kaffi og skelllti tveimur brauðsneiðum í ristina; ostur á aðra, marmelaði á hina - alltaf eins. Þá var kominn tími til að klæða sig í gallann og reima á sig skóna, en áður þurfti að plástra auma bletti og vaselínbera aðra.
Rétt fyrir kl. níu skokkaði ég niður á litlu bryggjuna við hið s.k. Neistaflugsplan, þar sem nú er búið að breyta gamalli skemmu í flott safn. Veðrið var milt, allt að létta til og útlit fyrir heitan dag of heitan fyrir langhlaup. Á bryggjuna voru mættir nokkrir þeirra hlaupara sem ætluðu eins og ég að hlaupa í fyrra hollinu, en líka aðrir að forvitnast og drekka í sig stemmninguna. Skipuleggjendurnir Jóhann og Rúnar fóru yfir leiðina, drykkjarstöðvar og önnur grunnatriði hlaupsins. Spenntum svo á okkur björgunarbeltin og stukkum um borð í slöngubát björgunarsveitarinnar sem kenndur er við drauginn Glæsi meira um hann á eftir og brunuðum yfir fjörðinn.
Ingólfur Sveinsson, sumarbóndi í Barðsnesi, tók á móti okkur hinum megin og bauð okkur velkomin að rásmarkinu við bæ sinn. Nú var eitt og annað fleira sem hlauparar vildu vita og svaraði hann spurningum okkar af alúð, en brýndi líka fyrir okkur að drekka vel á leiðinni færi svo sem horfði til að dagurinn yrði heitur. Svo stilltum við okkur upp fyrir myndatöku; sjö hleypigikkir og Ingólfur að auki, sem sagðist ætla hlaupa þetta í rólegheitum. Klukkan tíu héldum við af stað og fyrir höndum, eða fótum öllu heldur, var allt að fjögurra klukkustunda ferðalag sem ég vissi náttúrlega ekki hvernig myndi enda, en vonaði heitt og innilega að ég kæmist heill á leiðarenda og helst á betri tíma en síðast.
Sjö km inn í Viðfjörð, sex inn í Hellisfjörð, þó nokkrir km upp Götuhjallann og þaðan hellingur í bæinn. Svona skiptir maður leiðinni upp og reynir að áætla hversu hratt megi hlaupa svo maður drífi alla leið. Við vorum fimm sem vorum samferða mestan hluta leiðarinnar og veitti það gott aðhald. Mér til nokkurrar furðu var það sjálfur ég sem leiddi þetta holl, þangað til tvö þeirra stungu mig af niður Götuhjallann. Ég blotnaði strax í fæturna í daggarvotu grasinu við Barðsnesbæinn og var því ekkert að tefja við að tipla á steinum yfir lækina fjölmörgu á leiðinni, lét bara vaða. Veður hefur verið votsamt á Austurlandi í sumar og því vantaði ekkert í mýrar og læki. Þegar inn í Viðfjörð er komið er sá lúxus í boði að fara yfir fjarðarána á hengibrú. Hellisfjarðaráin er hins vegar vaðin og var bara líkn lúnum fótum að fá svolitla kælingu. Þrettán km að baki; skellti í mig orkugeli úti í miðri á og renndi niður með bergvatninu. Nú tók við töluverð hækkun, en áður hlupum við fram hjá einum af tveimur sumarbústöðum fjarðarins og nutum gestrisni bústaðarbúa í vatni sem húsfrúin hafði sett í glös framan við bústaðinn. Við þökkuðum fyrir okkur en máttum ekki stoppa. Úti fyrir lónaði bátur björgunarsveitarinnar og vaktaði hlaupið.
Veðrið gat varla verið betra; logn og skýjað yfir fyrstu fjörðunum tveimur og alls ekki heitt. Þegar hlaupið er í rúma þrjá klukkutíma er margt sem fer um huga manns, eins og t.d. af hverju í andskotanum maður er að þessu og hverjum hafi eiginlega dottið í hug að hlaupa þessa leið í staðinn fyrir að ganga eins og lengi hefur þótt eðlilegra?
Sagan
Barðsnesbærinn fór eyði árið 1952, en er nú sumarhús Ingólfs Sveinssonar geðlæknis sem þarna er fæddur og uppalinn. Ingólfur er upphafsmaður Barðsneshlaupsins sem fyrst var hlaupið um verslunarmannahelgina 1997. Þá hljóp hann við fórða mann leiðina frá bænum um firðina þrjá inn að Neskaupstað. Hefur Barðsneshlaupið verið þreytt um hverja verslunarmannahelgi síðan þá og er nú orðið að föstum lið í Neistaflugshátíðinni í Neskaupstað. Æ fleiri taka nú þátt í hlaupinu, jafnt sterkir hlauparar sem og aðrir sem eru með meira fyrir ánægjuna í þessu stórskemmtilega hlaupi, en að sögn skipuleggjenda hlaupsins mættu þeir vera fleiri.
Allir skila sér
Ég er nú kominn upp á Götuhjallann og hef engan tíma í að taka þar banana og súkkulaðirúsínur sem ég hafði beðið einn Ingólfssona að ferja þangað. Hendist þess í stað áfram og niður fjallið en missi þó tvo af mínum ágætu hlaupanautum fram úr mér. Allt í lagi með það, ég er ánægður með mig og trúi að ég nái marki og í þokkalegu standi.
Minn helsti bömmer úr fyrra hlaupinu var einmitt þegar ég var kominn upp á gjötuhjalla Hellisfjarðarmúlans og sá yfir Norðfjörðinn yfir til Neskaupstaðar og fannst að nú væri stutt eftir. En það er nú öðru nær, því fyrst er að hlaupa niður fjallið, sem er erfiðasti leggur leiðarinna að mínu mati, inn fjörðinn, yfir Norðfjarðarána og svo upp á veg sem leið liggur inn í bæinn. Þetta gerir um 10 km sem eins gott er að gera ráð fyrir! Og það gerði ég í þetta skiptið og hafði það af í mark á fínum tíma, þreyttur, en afskaplega ánægður með skemmtilegt hlaup. Norðfjarðaráin þótti ekki væð þetta skiptið og voru hlauparar því ferjaðir yfir á björgunarsveitartrukki.
Hlaup í mótun
Það bar til tíðinda þetta árið að sigurvegari síðustu hlaupa og heimamaðurinn Þorbergur tók ekki þátt vegna meiðsla. Því var það aðkomuhlauparinn Guðmann Elísson sem hreppti Barðsnesbikarinn að þessu sinni og var vel að honum kominn. Guðmann tók þátt í hlaupinu í fyrsta skipti í fyrra, 2002, og varð þá í öðu sæti, en nú tókst honum að sigra og segir að hlaup sín um Barðsnes verði fleiri. Guðmann þurfti reyndar að hafa ögn meira fyrir sigrinum en fyrirrennarar hans, því hann brotnaði á annarri hendinni þegar hann bar hana fyrir sig við eitt fallið á hraðri yfirferð sinni um grýtta og oft torfæra brautina.
Nú var í fyrsta skipti ræst í tveimur hollum og skipt þannig að þeir sem töldu sig verða þrjár klst. eða lengur á hlaupum lögðu af stað frá Barðsnesi kl. 10, en hinir klst. síðar. Þetta þótti ágætis fyrirkomulag, en þyrfti að stytta tímann á milli ræsinga niður í 45 mínútur þannig að sigurvegari hlaupsins komi örugglega fyrstur í mark, en ekki fyrsti hlaupari fyrri hópsins eins og í þetta skiptið.
Slakað á í sundi
Eftir verðlaunaafhendingu fara flestir hlauparanna í sund og láta heita vatnið gera vel við þreytta vöðvana. Sundlaugin í Neskaupstað er geysifalleg þar sem hún liggur í fjallshlíð Norðurfjallsins; úr heita pottinum er útsýn góð upp í fjallið og út á fjörðinn. Í pottinum er farið yfir hlaupið og sagðar sögur. Í þetta sinn var það Norðfirðingur sem sagði okkur hlaupurunum frá víðfrægum draugagangi í Viðfirði þar sem við höfðum hlaupið fyrr um daginn og drauginum Glæsi. Sá var víst franskur skipstjóri sem bóndi nokkur fann í fjöru nær dauða en lífi eftir skipsskaða og hjálpaði yfrum vegna forláta gullhnappa, að því er sagan segir. Bóndinn á að hafa farið með franska rekann eins og hann var vanur með þorskana sína, afhausað hann, og síðan þá hefur sá hauslausi sveimað um sveitir, tekið ofan fyrir ferðamönnum og stungið sínu höfuga höfuðfati undir aðra höndina.
Það bar ekki á öðru en að hlauparar allir væru ánægðir með hlaupið og svo var einnig með mig. Bestu þakkir til skipuleggjenda hlaupsins, björgunarsveitarmanna og samferðafólks - og kærar þakkir til Báru Agnesar fyrir orkugelið, ég held það hafi alveg gert gæfumuninn. Barðsnesið fer ég aftur og enn aftur, endist mér þrek og þor.
________________________________________
Barðsneshlaupið er haldið á laugardegi um hverja verslunarmannahelgi í Neskaupstað. Hlaupið er frá Barðsnesi um þrjá firði inn í Neskaupstað. Á vef hlaupsins, http://www.islandia.is/bardsneshlaup, er hægt að nálgast upplýsingar og úrslit frá árinu 1999 og skrá sig í næsta hlaup. Hlaupið hefst venjulega um kl. 10 og 11 (ef startað er í tveimur hollum), en ferjað er frá Neskaupstað yfir á Barðsnesið um klst. fyrr. Þátttökugjald er um 2000 kr. og frítt í sund á eftir.
Grein þessa má líka lesa á vef Langhlauparafélagsins, www.romarvefurinn.is/lhf.