Stefán Gíslason er mörgum íslenskum hlaupurum að góðu kunnur. Hann heldur úti bloggsíðunni stefangisla.com þar sem hann bloggar gjarnan um hlaup. Í tilefni af því að nú styttist í Barðsneshlaupið fékk hlaup.is leyfi til að birta ársgamla frásögn Stefáns um Barðsneshlaupið 2015. Hlaup.is minnir á að skráning í Barðsneshlaupið 2016 er hafinn en hlaupið fer fram 30. júlí. Gjörið svo vel.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Ég skellti mér í Barðsneshlaupið síðasta laugardag (1. ágúst). Ákvað þetta síðasta haust og var búinn að hlakka lengi til. Og ég varð síður en svo fyrir vonbrigðum. Hlaupaleiðin er sérlega falleg og mjög áhugaverð, en leiðin liggur m.a. um eyðibyggðir sem ég býst við að tiltölulega fáir Íslendingar hafi heimsótt. Veðrið var líka aldeilis ljómandi gott, hægur vindur, sólarglæta annað slagið og sæmilega milt þrátt fyrir innlögnina inn Norðfjarðarflóann. Umgjörð hlaupsins var afslöppuð og vingjarnleg og ekki spillti fyrir að mér gekk vel og naut lífsins frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.
Hlaupið hófst eiginlega á bryggjunni við safnahúsið á Neskaupstað, en þaðan voru hlaupararnir fluttir á báti út í Barðsnes eða Hellisfjörð, eftir því hvort þeir höfðu valið að hlaupa lengri vegalengdina (27 km) eða þá styttri (13 km). Við sem ætluðum að hlaupa alla leið frá Barðsnesi vorum 14 talsins og vorum flutt yfir flóann í tveimur hópum, fyrst þeir sem reiknuðu með að þurfa 3 klst. eða meira til að ljúka hlaupinu og síðan hinir sem töldu sig geta farið þetta á styttri tíma. Ég var í síðarnefnda hópnum enda taldi ég líklegt að ég kæmist þetta á 2:30-2:40 klst. Sú áætlun byggði á úrslitum fyrri ára, því að fyrri árangur hlaupara sem maður þekkir getur gefið góða vísbendingu um það við hverju megi búast. Í svona hlaupi segir vegalengdin hins vegar lítið um líklegan lokatíma.
Í þessari síðari bátsferð voru fimm hlauparar, auk björgunarsveitarfólksins sem annaðist flutninginn. Sjóferðin tók ekki nema fáeinar mínútur og áður en varði vorum við komin í land við eyðibýlið Barðsnes. Þar var vel tekið á móti okkur og eftir stutta viðdvöl á hlaðinu var hlaupið ræst kl. 10:53.
1. Barðsnes - Viðfjörður: 7,20 km, 35:42 mín, 4:58 mín/km
Við vorum ekki nema fjögur sem hlupum af stað frá Barðsnesi áleiðis inn í Viðfjörð. Hægari hlaupararnir voru farnir á undan eins og fyrr segir - og sú ákvörðun var tekin þarna á hlaðinu að sá langhraðasti, ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson, yrði ræstur 10 mínútum síðar til að gera hlaupið skemmtilegra, bæði fyrir hann og aðra. Ég fór hraðast af stað og hljóp einn míns liðs inn túnið á Barðsnesi og áfram áleiðis inn dráttarvélaslóðann inn með firðinum. Mér hafði verið ráðlagt að fara sem hraðast til að byrja með, þar sem fyrsti kaflinn væri sá greiðfærasti í hlaupinu að endasprettinum frátöldum. Ég ákvað að fylgja þessu ráði og hvílast þá frekar í grýttum brekkum sem ég bjóst við að biðu mín síðar í hlaupinu.
Slóðinn frá Barðsnesi inn í Viðfjörð liggur yfir holt, hæðir og lækjarskorninga, en undirlagið er hvergi mjög gróft. Mér gekk eiginlega betur en ég hafði búist við að halda sæmilegum hraða þarna inneftir. Mér fannst heimurinn brosa við mér þar sem ég leið þarna áfram í frelsinu. Tvisvar eða þrisvar leit ég um öxl en sá ekkert til mannaferða. Lengst framundan sá ég íbúðarhúsið í Viðfirði, sem byggt var eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar árið 1932. Glæsilegri sumardvalarstaðir hljóta að vera vandfundnir, hvort sem hugsað er um húsakynnin eða kyrrðina.
Á miðri göngubrúnni yfir Viðfjarðará sýndi klukkan 35:42 mín, rúmir 7 km að baki og meðalhraðinn yfir 12 km/klst. Þetta gekk vonum framar.
2. Viðfjörður - Hellisfjörður: 6,77 km, 39:43 mín, 5:52 mín/km
Skammt fyrir utan Viðfjarðarbæinn hitti ég fólk sem sagði mér að fyrsta drykkjarstöðin væri við bátinn sem stóð þarna uppi á kambinum örlítið utar. Þar gleypti ég í mig eitt orkugel og drakk vel af vatni áður en ég hélt áfram út með firðinum. Þarna var enginn dráttarvélaslóði lengur, heldur aðallega fjár- og hestagötur. Þær voru reyndar greiðfærar, en sums staðar var lágvaxið kjarr langt komið með að loka leiðinni. Plönturnar voru hrjúfar viðkomu fyrir bera leggi, en það var þó allt innan sársaukamarka.
Úr Viðfirði er ekki langt út á Viðfjarðarnes og hækkunin ekki veruleg. Mér miðaði því svo sem ágætlega á þessum kafla, þó að auðvitað hefði ég enga viðmiðun. Um það leyti sem ég var kominn út á nesið kom ég auga á mann sem veitti mér eftirför og fór mikinn. Þar var Þorbergur Ingi á ferð, en ég hafði einmitt reiknað út að það myndi taka hann um 50 mínútur að vinna upp þetta 10 mínútna forskot sem ég hafði fengið á hann í startinu. Hann fór fram úr mér stuttu eftir að við beygðum af nesinu áleiðis inn í Hellisfjörð, rétt í þann mund sem ég hafði verið 1 klst. á hlaupum. Um svipað leyti náði ég fyrstu hlaupurunum úr fyrri ráshópnum. Það var gaman að sjá til Þorbergs Inga þótt sú skemmtun varaði ekki lengi. Það er í raun ótrúlegt að hægt sé að fara svo hratt yfir í þessu mjög svo óslétta landi.
Mér fannst ekki augljóst hvar leiðin lægi yfir Hellisfjarðará í botni Hellisfjarðar, en það skipti svo sem engu meginmáli. Áin var ekki djúp og ég óð bara einhvers staðar yfir hana. Garminúrið sýndi að 13,97 km og 1:15:25 klst. væru að baki. Þarna hlaut hlaupið að vera um það bil hálfnað.
3. Hellisfjörður - Götuhjalli: 3,84 km, 26:52 mín, 7:00 mín/km
Innarlega í Hellisfirði varð mér litið suður yfir fjörðinn og sá þá til ferða Elísabetar Margeirsdóttur, sem ég bjóst einmitt við að væri þarna ekki alllangt á eftir mér. Ég leit ekki á þetta hlaup sem neina keppni, nema náttúrulega við sjálfan mig, en samt var uppörvandi að vita af einhverjum á eftir sér. Við eyðibýlið Sveinsstaði hitti ég hóp af fólki sem hvatti mig til dáða og utar með firðinum beið Jóhann Tryggvason, aðalumsjónarmaður Barðneshlaupsins, með drykki fyrir hlauparana. Þar var kominn tími á annað orkugel og meira vatn, auk þess sem ég gleypti þarna í mig eitt steinefnahylki í þeim tilgangi að draga úr líkum á krömpum. Þeir gerðu aldrei vart við sig þennan dag. Þarna voru u.þ.b. 16,5 km að baki og framundan erfiðasti hluti leiðarinnar með talsverðri hækkun upp á Götuhjalla og síðan bratt undanhald í Norðfjarðarskriðum. Leiðin upp á hjallann reyndist reyndar bæði styttri og léttari en ég hafði ímyndað mér og fyrr en varði var ég kominn á hæsta punktinn. Neskaupstaður blasti við hinum megin við Norðfjörð og mér fannst lífið vera dásamlegt.
4. Götuhjalli - Norðfjarðará: 5,17 km, 28:40 mín, 5:33 mín/km
Norðfjarðarskriður sýnast óárennilegar þegar horft er á þær yfir fjörðinn frá Neskaupstað. Þarna eru vissulega brattir kaflar þar sem meiri þörf er á að fylgjast með tánum á sér en útsýninu, en mér fannst þetta samt hvorki bratt né erfitt yfirferðar. Rétt eins og „brekkur eru oftast lægri upp að fara, en til að sjá", eins og Hannes Hafstein orðaði það, eru þær líka lægri á niðurleiðinni. Einhvers staðar á niðurleiðinni var þriðja drykkjarstöðin og þriðja gelið, en annars snerist málið bara um að ljúka hlaupinu. Til þess þurfti að afgreiða þessar brekkur og hlaupa inn með fjarðarbotninum þar til komið væri að einu hlöðunni á svæðinu. Handan við hlöðuna skyldi tekin kröpp hægri beygja og stefnt beint yfir Norðfjarðará. Yfir ána hafði verið strengdur kaðall til að auðvelda hlaupurum að fóta sig. Áin náði mér í mið læri og úti í henni miðri leit ég svo á að fjórða áfanga hlaupsins væri lokið og ekkert eftir nema endaspretturinn.
5. Norðfjarðará - Safnahús: 5,28 km, 24:48 mín, 4:42 mín/km
Fyrsti hluti endasprettsins lá í útjaðri golfvallar Norðfirðinga og hinum megin við fjarðarbotninn beið malbikið og fjórða og síðasta drykkjarstöðin. Malbik hefur þann kost að vera þokkalega slétt, en eftir hátt í 25 km hlaup á misjöfnu undirlagi getur þessi harði og slétti flötur verið erfiður þreyttum fótum. Fæturnir mínir voru ekkert sérstaklega þreyttir þegar þarna var komið sögu og mér fannst malbikið bara ágætt. Hlaupið hafði allt gengið eins og í sögu, mér leið vel og það lá nokkuð ljóst fyrir að ég væri búinn að gulltryggja annað sætið í hlaupinu á eftir Þorbergi Inga. Það var líka gaman að koma hlaupandi inn í bæinn eftir aðalgötunni. Malbikskaflinn mældist nákvæmlega 4,2 km og þann spöl hljóp ég á 19:19 mín. Það jafngildir 4:36 mín/km, sem ég flokka sem viðunandi maraþonhraða. Ég kom í mark við Safnahúsið á 2:35:41 klst, sem var vel innan þeirra tímamarka sem ég hafði sett mér. Heildarvegalengdin var 28,26 km skv. Garminúrinu mínu. Stórskemmtilegu hlaupi í fögru umhverfi var lokið.
Lokaorð
Barðsneshlaupið á skilið miklu fleiri þátttakendur en raun varð á síðasta laugardag. Hlaupið var ekki eins erfitt og ég hafði reiknað með og eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils fannst mér hlaupaleiðin falleg og áhugaverð. Móttökurnar á Norðfirði voru góðar og umgjörð hlaupsins afslöppuð og vingjarnleg. Hlaupið er virkilega þess virði að bregða sér í verslunarmannahelgarferð austur á land þess vegna!
Eftirmáli
Eins og yfirskrift þessarar færslu bendir til var þetta í fyrsta sinn sem ég tók þátt í Barðsneshlaupinu. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því! En þetta hlaup var líka sögulegt að öðru leyti fyrir sjálfan mig, því að þetta var 100. almenningshlaupið sem ég tek þátt í síðan sá hluti „ferils míns sem íþróttamanns" hófst síðsumars 1985. Tölfræði af þessu tagi er hluti af þeirri skemmtun sem hlaupin veita mér.
Pistilinn birtis upphaflega á bloggsíðu Stefáns Gíslasonar þann 5. ágúst, 2015.