Bláskógaskokk 2005 - Njörður Helgason

birt 05. júlí 2005

Lögðum af stað á Laugarvatn um kl 10:00 á laugardag. Veður; búnar að vera skúraleiðingar um morguninn en ekkert stórt. Þegar við keyrðum upp Grímsnesið fór að aukast úrkoman og himininn í norðrinu var ansi dökkur. Eigum við að hætta við? Nei höldum áfram þetta er varla mikið.

Komum að sundlauginni og fórum beint inn í rútu og upp að Bláskógum þar sem ræsingin er. Veður í lagi og hlaupið ræst. Ekki margir þátttakendur um 15 sem fóru lengri leiðina (10 mílur, 16 km). Fyrstu fjórir kílómetrarnir eru upp í móti. Eftir þá snarbrött brekka niður á Laugarvatnsvellina. Gott rennsli niður eftir brekkuna upp í byrjun.

Hljóp allt hlaupið með Svanhildi Þengilsdóttur. Góður partner. Bestu þakkir fyrir Svana. Þegar á Laugarvatnsvellina kom fór að þyngja yfir og fyrsta skúrin skall á. Ekki bara skúr því að droparnir hörðnuðu. Það var komið haglél 2. júlí. Jæja áfram var haldið. Eftir Laugarvatnsvellina fer aftur að halla upp í móti. Stallar upp á brekkubrúnina ofan við Laugarvatn. Skúraði öðru hvoru. En ekki annað él fyrr en í sundlauginni eftir hlaupið. Umferðin var erfiðust, töluvert mikil og vegurinn blautur þannig að aur og bleyta skvettist á hlauparana.

Brekkan niður að Laugarvatni löng og ljúf. Gaman væri að eiga þetta tempó í hlaupi á flatri braut sem náðist í brekkunum, 3:48. Frá beygjunni eftir brekkuna inn á veginn að íþrótavellinum hringur á vellinum og í mark. Gott að þetta hafðist. Einhver bæting hjá mér og enn meiri hjá Lísu. Það var ljúft að leggjast í heita pottinn á eftir og láta líða úr sér þreytu og kulda eftir Bláskógasskokkið 2005.

Með kveðju Njörður og Lísa.

Bloggsíða Njarðar: http://www.folk.is/njordur/