Frásögn Péturs Helgasonar
Hópur ellefu Íslendinga sem var mættur í Boston til að taka þátt í Boston maraþoninu. Það var mánudagur 15. apríl, Patriot´s day eða dagur föðurlandsvina, sem haldinn er hátíðlegur í Massachusetts og Main í tilefni þess hann markaði upphaf byltingarinnar gegn yfirráðum Breta 1775.
Klukkan var um átta um morguninn þegar hópurinn rölti í rólegheitum í átt að garðinum þar sem dæmigerðar amerískar skólarútur, gular á lit, biðu þess að flytja hlauparana til Hopkinton, sem er lítill bær um 40 km austur af Boston. Það hafði rignt um nóttina og göturnar voru enn blautar. Skýin huldu toppa skýjakljúfana og hitastigið var um 15 °C. Það var logn og allir voru sammála um að þetta væru bestu hugsanlegu aðstæður til að hlaupa maraþon. Mikil örygginsgæsla var í tengslum við hlaupið enda var talið að hátt í ein milljón manna myndu fylgast með því meðfram hlaupaleiðinni.
Allt í kringum rúturnar voru blikkandi ljós frá mótorhjólalögreglum þar sem þær runnu áftram í langri halarófu. Í Hopkinton var hlaupurunum vísað inn á stórt afgirt svæði þar sem boðið var upp á hressingu og skemmtiatriði undir vökulum augum öryggisvarða sem stóðu með alvæpni á nærliggjandi húsþökum. Langar biðraðir höfðu þegar myndast fyrir framan röð af útikömrum og út um allt lágu hlauparar undir berum himni eða inni í risastórum tjöldum og slökuðu á fyrir hlaupið.
Þegar klukkan nálgaðist ellefu byrjaði mannfjöldinn að tínast í átt að rásmarkinu. Á leiðinni skiluðu menn af sér merktum pokum með fötum í rúturnar eftir ákveðnu kerfi þannig að auðvelt yrði að finna þá við endamarkið. Við rásmarkið var hlaupurum raðað í hólf allt eftir því á hvaða tíma þeir höfðu náð að tryggja sér þátttöku í hlaupinu. Mikil stemmning hafði skapast við rásmarkið og í hátalarakerfinu kyrjuðuð Rollingarnir "Start me up". Þegar klukkan tók að nálgast tólf á hádegi þagnaði músíkin og þulurinn í hátalarkerfinu bað nærstadda að snúa sér að næsta bandaríska fána, sem alls staðar blöktu, og hlýða á bandaríska þjóðsönginn. Þögn sló á mannhafið og nokkrir sungu með.
Nú var allt að verða tilbúið. Menn tókust í hendur og óskuðu hvor öðrum góðs gengis. Tæplega 15.000 manns biðu spenntir eftir að heyra í byssuskotinu sem táknaði að frægasta götuhlaup í heimi var að hefjast í 106. sinn. Sekúndurnar tifuðu og allt í einu kvað við skothvellur og haf af hlaupurum byrjaði rólega að silast af stað. Smátt og smátt jókst hraðinn og þegar farið var yfir ráslínuna mátti heyra tíst í rafeindabúnaði sem skráði tíma hvers og eins út frá litlum tölvukubb sem festur var í skóreimarnar. Það gat tekið allt upp í 20 mín fyrir þá öftustu að komast yfir línuna.
Hlaupararnir liðuðust eins og marglitur hraunstraumur niður fyrstu brekkuna. Beggja vegna götunnar ómuðu hvatningarhróp áhorfenda og hljómsveit spilaði létt lög. Hopkinton liggur u.þ.b. 150 metra yfir sjávarmáli og fyrsti hluti hlaupsins einkenndist af brekkum sem flestar lágu niður á við. Margir hafa orðið til að vara við að fara ekki of hratt niður þessar brekkur enda komi slíkt til með að verða mönnum dýrkeypt síðar í hlaupinu. Eftir skamma stund var Hopkinton að baki og ró færðist yfir. Heyra mátti taktfast hljóð frá skóm í þúsundatali tippla létt eftir malbikinu.
Hlaupaleiðin lá eftir tvíbreiðum sveitavegi gegnum nokkra smábæi. Húsin voru flest í dæmigerðum New England stíl, ljós á lit klædd láréttri viðarklæðningu og gluggarnir dökkmálaðir skreyttir gluggahlerum. Í flestum miðkjörnum bæjanna voru kirkjur og ráðhús í hefðbundnum stíl úr múrsteinum og þar hafði mikill mannfjöldi safnast saman. Halda mátti að áhorfendur hafi þjálfað sig sérstaklega fyrir þessa uppákomu þvílík voru hvatningarhrópin. Ekki skiptir máli hvort verið er að hvetja fremstu menn eða þá sem aftar koma allir fengu sinn skammt. Börnin stóðu við vegkantinn með útréttar hendur og vonuðust eftir að einhver hlaupari gæfi þeim klapp. Ef hlaupari nálgast hópinn er óðar kominn veggur af litlum höndum og mikil gleði greip um sig. Vinsælt var að rétta hlaupurum appelsínubát eða eitthvað að drekka en við hverja mílu var drykkjarstöð þar sem boðið var upp á vatn eða íþróttadrykk.
Á götuna var víða búið að kríta nöfn og hvatningarorð og öðru hvoru mátti sjá menn standa með útrétta hönd og bjóða vasilín til að smyrja á núningsfleti. Á 5 km fresti var millitími hvers hlaupara skráður með hjálp tölvukubbsins góða. Tíminn skráðist jafnóðum á netið og gátu vinir og aðstandendur um allan heim þannig fylgst með gangi mála. Á Íslandi hafði hópur vina og ættingja safnast saman til að fylgjast með hlaupinu á risaskjá og fá nýjustu tölur um millitíma um leið og þær bárust.
Margt bar fyrir augu á hlaupaleiðinni en tveir staðir stóðu þó upp úr. Það voru Wellesley College stúlknaskólinn og brekkurnar í Newton, en frægust þeirra er hin alræmda Heartbreak Hill. Stúlknaskólinn var við 20 km markið, skammt frá þeim stað þar sem hlaupið var hálfnað. Heyra mátti hrópinn frá stúlkunum nokkru áður en að honum var komið. Sagt er að þarna herði karlmenn aðeins hlaupið en konur láti sér fátt um finnast. Sumar kvarti jafnvel undan verk í eyrum. Hvað sem því líður þá er erfitt að lýsa þeirri tilfinningu sem um mann fór þegar þessi mikli hávaði skall á manni. Ekki er hægt annað en að dáðst að því úthaldi sem þarf til að hvetja með slíkum krafti í einn til tvo tíma. Miklar hefðir ríkja í kringum Wellesley. Byrjað er að búa til spjöld með hvatningarorðum nokkrum dögum fyrir hlaupið og sagt er að stæði við götuna gangi í erfðir frá einum ættlið til þess næsta.
Eftir u.þ.b.32 km var komið að Heartbreak Hill. Brekkurnar er í rauninni þrjár, með köflum niður á við inn á milli, og eru ekki eins ógnvænlegar og nafnið gefur til kynna. Lengd þeirrar lengstu er á að giska 600 m og hallinn svipaður og í Ártúnsbrekkunni. Staðsetningin gerir það hins vegar að verkum að þar hafa margir orðið að láta í minni pokann og verið lítt til stórræða þegar yfir þær er komið. Þar hafa margir kappar þurft að játa sig sigraða í báráttunni um sigur í hlaupinu. Mikill mannfjöldi var við brekkurnar og voru hlauparar óspart hvattir til dáða.
Þegar yfir þær var komið tók við sléttur kafli en síðan lá leiðin að mestu niður á við. Hjá flestum voru fæturnir farnir að mótmæla þessari meðferð enda geta hlaup niður brekkur verið mjög sáraukafull. Á síðasta kafla hlaupsins inn í Boston voru hvatningarhrópin næstum orðin yfirþyrmandi. Það er erfitt að ímynda sér að nokkuð annað hlaup bjóði upp á aðra eins uppákomu. Þarna hefur skapast hefð í áranna rás sem ekkert annað hlaup getur státað af. Þegar yfir marklínuna var komið og 42.2 km voru að baki var sólin farin að skína og hitinn farinn að nálgast 20°C. Boðið var upp á drykki, fótaaðgerðir, nudd og sumir létu jafnvel hnykkjara laga axlir og bak. Þátttaka í elsta og virtasta maraþoni í heimi stóð fyllilega undir væntingum.
Saga Boston maraþonsins
Eftir ólympíuleikana í Aþenu 1896 kviknaði hugmyndin að skipuleggja maraþon í Boston hjá liðsstjóra bandaríska ólympíuliðsins. Hugmyndin varð að veruleika og fyrsta maraþonið var haldið 19. apríl 1897. Keppendur voru 15 og sigurvegari var John J. McDermott frá New York en hann fór kílómetrana 39,4 á 2:55:10. Árið 1924 var rásmarkið flutt til Hopkinton frá Ashland og árið 1927 var vegalengdin lengd í 42,2 km í samræmi við ólympísku vegalengdina. Hún var upphaflega 40 km en var lengd í 42,2 km á ólympíuleikunum í London 1908 til að þóknast Eðvard konungi VII, sem vildi að hlaupið hæfist við Windstor kastala fyrir utan borgina þannig að konungsfjöskyldan gæti horft á upphaf hlaupsins, en vegalengdin þaðan að ólympíuleikvanginum voru nákvæmlega 42,2 km.
Boston maraþonið var upphaflega alltaf haldið á Patriot´s Day 19. apríl nema þegar sá dagur kom upp á sunnudegi. Þá var hlaupið fært yfir á mánudag daginn eftir. Árið 1969 var Patriot´s Day færður yfir á þriðja mánudag í apríl og hefur hlaupið verið haldið þá æ síðan. Síðastliðin 10 ár hafa Kenyamenn eignað sér Boston maraþonið. Í fyrra tókst Suður-Kóreumanni að brjóta upp þá hefð en í ár endurheimtu Kenyamenn titilinn.