birt 07. apríl 2017

Kanadíski hlauparinn Ed Whitlock lést 13. mars sl. 86 ára að aldri. Ed var fyrirmynd margra hlaupara af elstu kynslóðinni en hann setti ný viðmið í elstu aldursflokkunum og afsannaði ýmsar kenningar um getu þeirra sem komnir eru á efri ár. Í hlaupaheiminum hafa menn jafnvel talað um „Whitlock ráðgátuna" (e. The Whitlock Mystery) í þessu sambandi. Í stuttu máli má segja að Ed hafi slegið öll tiltæk heimsmet í aldursflokkum 70 ára og eldri í hlaupum allt frá 1.500 metrunum og upp í maraþon.

Fyrstu árinEd Whitlock fæddist í einu af úthverfum Lundúna 6. mars 1931, útskrifaðist sem námuverkfræðingur frá Royal School of Mines í Englandi og flutti 21 árs gamall til Milton í Ontario í Kanada, þar sem hann bjó og vann mestalla starfsævina. Hlaupaferillinn hófst snemma og var í raun þrískiptur. Fyrsti ferillinn, ef svo má að orði komast, hófst á skólaárunum í Englandi þar sem Ed var í fremstu röð í lengri hlaupum, einkum í víðavangshlaupum þar sem hann vann góða sigra á árunum 1948 og 1949. Hann keppti líka í brautarhlaupum á þessum árum með góðum árangri.Hlaupaferill nr. 2Þegar Ed flutti til Kanada lögðust hlaupin af. Upp úr fertugu tók hann hlaupaskóna fram að nýju og lagði þá aðaláherslu á millivegalengdir. Bestu tímar hans í þeim greinum á fimmtugsaldrinum voru 1:59,9 mín í 800 m og 4:02,5 í 1.500 m. Um svipað leyti hljóp hann fyrsta maraþonið, 14 ára syni sínum til samlætis.Ed Whitlock

Lokatíminn var 2:31:23 klst, án þess að Ed hefði lagt nokkra stund á æfingar fyrir svo löng hlaup. Ed missti áhugann á hlaupum og hætti keppni eftir að hafa orðið heimsmeistari öldunga í 1.500 m hlaupi árið 1979.

Sjötugur undir 3 klst.
Þriðji hlaupaferill Ed Whitlock hófst um það leyti sem hann fór á eftirlaun, ekki síst vegna hvatningar frá sonum hans. Þá fór hann að taka þátt í götuhlaupum og setti sér fljótlega það markmið að verða fyrsti sjötugi hlauparinn til að hlaupa maraþon undir 3 klst. Sjálfur sagðist hann hafa áttað sig á því að þetta „kjánalega markmið" hefði bara legið þarna og beðið eftir einhverjum. Einhver hefði átt að vera búinn að ná því fyrir löngu, en fyrst það hefði farist fyrir væri best að hann spreytti sig á því. Markmiðinu náði Ed 72 ára gamall árið 2003 þegar hann hljóp á 2:59:10 klst. Ári síðar bætti hann heimsmet sjötugra og eldri niður í 2:54:49 klst og árið 2005 hljóp hann á 2:58:40 klst 74 ára gamall og varð þar með elsti maðurinn í sögunni til að hlaupa maraþon undir 3 klst. Upp frá þessu féll hvert aldursflokkametið af öðru, bæði í götuhlaupum og í brautarhlaupum (frá 1.500 m og uppúr). Heimsmet Eds í maraþonhlaupi 75-79 ára er t.d. 3:04:54 klst., 3:15:54 klst. í flokki 80-84 ára og 3:56:38 klst. í flokki 85-89 ára. Síðastnefnda metið setti hann í Torontómaraþoninu 16. október 2016 og varð þar með elsti einstaklingurinn sem hlaupið hefur maraþon undir 4 klst. Tíminn olli honum reyndar nokkrum vonbrigðum, því að ætlunin var að klára hlaupið undir 3:50 klst. Nokkur vindur var og rigning þegar hlaupið fór fram og sjálfur sagðist Ed líka hafa farið of hratt af stað. Lokatíminn var þó um 38 mínútum betri en fyrra heimsmet í flokki 85-89 ára.

Æfingarnar í kirkjugarðinum
Hlaupaæfingar Ed Whitlock voru síður en svo „eftir bókinni". Allar æfingarnar fóru fram í kirkjugarði um 100 m frá heimili hans í Milton í Ontaríófylki í Kanada, þar sem hann hljóp hring eftir hring, dag eftir dag, og ár eftir ár, yfirleitt alltaf á sama hraða. Þegar hann var spurður hvers vegna hann fyndi sér ekki ögn fjölbreyttari æfingaaðstöðu, svaraði hann því til að vissulega væri þetta einhæft en það hentaði honum vel, aldrei mótvindur lengi í einu og alltaf stutt heim ef eitthvað kæmi upp á. Sjálfur sagðist hann frekar „hlunkast" en hlaupa á æfingum. Hringurinn í kirkjugarðinum er um 500 m langur og hringirnir hafa greinilega oft orðið býsna margir. Þegar hann var að æfa fyrir methlaupið 2005, 74ra ára gamall, sagðist hann t.d. hlaupa nokkrum sinnum í viku lengur en í 3 klst. í senn. Þetta þýðir að hann hefur um þetta leyti að öllum líkindum hlaupið rúmlega 160 km á viku. Og í undirbúningnum fyrir methlaupið síðasta haust var hann farinn að hlaupa allt upp í 4 klst. í senn, þó að flesta daga léti hann nægja að hlaupa í eina og hálfa til tvær klukkustundir á dag. Iðulega hljóp hann alla daga vikunnar, þó að það væri svo sem ekkert aðalatriði í hans huga.

Einfaldleikinn í öndvegi
Ed Whitlock stundaði engar styrktaræfingar, engar teygjuæfingar (nema þá kannski á námsárunum í Englandi fyrir 1950), synti hvorki né hjólaði, tók engin tempóhlaup, fór aldrei í nudd eða ísbað og notaði aldrei púlsmæli. Ef hann meiddist hætti hann einfaldlega að hlaupa og beið eftir því að verða nógu góður til að byrja aftur að hlaupa í kirkjugarðinum. Hann fylgdi heldur ekki neinum reglum um mataræði, nema þá bara að borða nógu mikið til að léttast ekki. Fæðubótarefni notaði hann aldrei. Oftast hljóp hann í gömlum skóm sem honum höfðu áskotnast og sagði sjálfur að skórnir sem hann hljóp í Torontó sl. haust hefðu verið 15 ára gamlir.

Slatti af heimsmetum
Ed Whitlock sagðist ekki velta mikið fyrir sér ráðleggingum þjálfara til alvöruhlaupara. Hann væri einfaldlega ekki nógu skipulagður og metnaðarfullur til að gera allt sem ætlast væri til að alvöruhlauparar gerðu. Þeim mun meiri tími sem færi í eitthvert vafstur og vesen í kringum þetta allt saman, þeim mun minni tími væri eftir fyrir hlaupin og það annað sem maður vildi eyða tímanum í. Ed var heldur ekkert með það á hreinu hversu mörg heimsmet hann ætti og í hvaða aldursflokkum, enda velti hann því ekki mikið fyrir sér. Hér að framan er minnst á nokkur helstu maraþonmetin hans, en sem dæmi um önnur met má nefna að hann hljóp 5 km á 18:45 mín 75 ára gamall, hálft maraþon á 1:29:26 klst. 76 ára og 5.000 m á braut á 24:03,99 mín 85 ára. Líklega eru metin samtals yfir 80 talsins.

Enginn er ódauðlegur
Banamein Eds Whitlock var krabbamein í blöðruhálskirtli. Fráfall hans kom mörgum á óvart, en um leið er það áminning um að enginn er ódauðlegur þó að hann sé í toppformi. Það að vera í góðu formi minnkar vissulega líkurnar á ýmsum heilsufarsvandamálum, en hlauparar, rétt eins og annað fólk, þurfa að leita læknis ef eitthvað er öðruvísi en það á að sér að vera.

Lokaorð
Eds Whitlock verður minnst sem hógværs manns sem gaf lítið fyrir kennisetningar um réttu hlaupaæfingarnar og um líkamlega getu eldra fólks. Hann lét ekki glepjast af tískubylgjum og fór ekki troðnar slóðir, að frátöldum hringnum í kirkjugarðinum í Milton. Með fordæmi sínu ruddi hann brautina fyrir aðra sem eru komnir á efri ár og kjósa sér verðugri andstæðinga en dagatalið.

Efnisflokkur: Öldungar

Heimildir:
Einkum byggt á fjölmörgum greinum og viðtölum við Ed Whitlock í tímaritinu Runner‘s World á tímabilinu 2001-2017, sjá t.d. http://www.runnersworld.com/tag/ed-whitlock.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.