Fimmti þáttur Hlaupalíf Hlaðvarp

uppfært 08. maí 2020

Pistill byggður á fimmta þætti Hlaupalífs Hlaðvarps

Í fimmta þætti af Hlaupalíf Hlaðvarp tókum við Elín Edda saman gott spjall og umræður um hlaupasumarið hérna á Íslandi sem og erlendis og er þessi pistill byggður á þeim þætti.

Sjá frétt hlaup.is um Hlaupalíf Hlaðvarp sem hóf göngu sína fyrir skömmu. Hér að neðan má hlusta á nýjasta þáttinn sem og alla hina.

Ástæða þess að við vildum taka umræðu og heilan þátt í þessa umræðu er sú staðreynd að það er ansi margt í boði fyrir okkur hlaupara að keppa í og kannski erfitt fyrir hlaupara að átta sig á hvaða keppnir eru í boði fyrir götu- og utanvegahlaupin.

Hvaða hlaup eru vinsæl?
Til að fá smá innsýn yfir það hvaða hlaup eru vinsæl hérna heima er hægt að líta til þeirra hlaupa hafa verið kosin vinsælust í kosningu hlaup.is í flokki götuhlaupa og utanvegahlaupa. Í flokki götuhlaupa voru eftirfarandi götuhlaup kosin vinsælust 2017 og 2018:

2017 Götuhlaup
1 sæti: Vestmannaeyjahlaupið: (haldið 7 sept 2019). Þar er boðið upp á 5, 10 og 21 km og  frítt er í Herjólf fyrir einstaklinga (ekki bíla) fram og til baka (200 frímiðar í boði).
2 sæti: Fossvogshlaupið: (haldið 29 ágúst 2019 í Fossvoginum). Þar verða tvær vegalengdir í boði: 5 og 10 km hlaup sem eru báðar löglega mældar.
3 sæti: Stjörnuhlaupið: (fór fram 18. maí sl.) Þar var keppt í 2 km, 5 km og 10 km í Garðabænum.

2018 Götuhlaup:
1 sæti: BOSE FH hlauparöðin sem eru haldin þrisvar á hverju ári í Hafnarfirði frá janúar-mars og eru þau öll 5 km.
2 sæti: Akureyrarhlaup Íslenskra verðbréfa og World Class. Þetta vinsæla hlaup býður upp á 5, 10 og 21,1 km og er híð síðastnefnda íslandsmótið í þeirri grein.  Undanfarin ár hefur það verið haldið á fimmtudagskvöldi í byrjun júlí, eina mestu ferðahelgi ársins á Akureyri þegar þúsundir manna flykkjast í bæinn til að taka þátt í fótboltamótum. Þetta hlaup er víst ansi gott, brautin marflöt og líkleg til bætinga.
3 sæti: Icelandairhlaupið (fór fram 2 maí sl.) en þar er hlaupinn 7 km hringur í kringum Reykjavíkurflugvöllinn í Vatnsmýrinni.

Önnur hlaup sem hafa vakið athygli og rétt er að nefna í þessu samhengi:

  • Reykjavíkurmaraþonið á menningarnótt (5 km, 10 km, 21.1 km og 42.2 km)
  • Brúarhlaupið á Selfossi( haldið  þann 10 ágúst 2019 þar sem keppt er í  5 km og 10 km. (Klassískt að kíkja í Huppu ísbúðina eftir keppni!)
  • Hausthlaup UFA þann 12 september nk. þ.s keppt er í 10 km.

Hlaupalíf Hlaðvarp
Elín og Vilhjálmur eru með Hlaupalíf hlaðvarp.

Hvaða keppnir eru líklegar til bætinga í götunni?
Margir sem eru að æfa hlaup hafa mikinn áhuga á því að bæta sinn persónulega besta tíma í hinu ýmsum götuhlaupum og er því ekki úr vegi að fara yfir nokkur götuhlaup hérna heima sem mætti segja að uppfylli nokkur skilyrði til að vera líkleg til bætinga og þá aðallega að vera flatar brautir, lítið af brekkum og löglega mældar. Athugið að það er hægt að sjá í hlaupadagskránni á hlaup.is hvaða keppnishlaup eru lögleg mæld en það sést á þeim vegalengdum sem eru rauðmerktar.  En til að nefna nokkur hlaup sem okkur fannst falla undir ofangreind skilyrði mætti nefna þessi hlaup:

  • Ármannshlaupið þann 2 júlí næstkomandi en þar keppt í 10 km hlaupi frá Sundagörðum að Hörpu og aftur til baka.
  • SUZUKI Miðnæturhlaupið þann 20 júní þar sem keppt er í 5 km, 10 km og 21,1 km en öll hlaupin byrja og enda í Laugardalnum.
  • Þá mætti nefna Akureyrarhlaup Íslenskra verðbréfa þann 4. júlí næstkomandi þar sem einnig er keppt í 5 km, 10 km og 21.1 km og síðasta vegalengdin er jafnframt íslandsmeistaramótið í hálfu maraþoni, eins og áður hefur komið fram.
  • Loks mættiti nefna Adidas Boost hlaupið þann 31. júlí þar sem keppt er í 10 km í Elliðaárdalnum og Fossvoginum og svo væri hægt að loka sumrinu í Gloebathon hlaupinu þann 8. september þar sem keppt er 5 km og 10 km.

Utanvegahlaup:
Ekki má gleyma öllum frábæru utanvegahlaupunum sem eru á dagskrá hérna heima í sumar og ef einhverjir eru í vandræðum með að átta sig á allri utanvegahlaupa flórunni þá koma hér þau utanvegahlaup sem hafa verið kosin vinsælust af lesendum hlaup.is undanfarin tvö ár og smá umjöllun um þau:

2018 Utanvegahlaup: 
1 sæti: Gullspretturinn: 8,5km hlaup þar sem hlaupið er í kringum Laugavatn og er vel þekkt hlaup. Elín Edda hefur farið nokkrum sinnum í þetta hlaup. Þetta er algjör veisla. Torfæruhlaup, en stutt, þannig að það ættu allir að geta klárað þetta. Það fer auðvitað eftir því hversu blautt hefur verið, en maður getur þurft að fara í gegnum drullu og mýri. Fólk sem er jafn lítið og Elín Edda  þurfa jafnvel að synda smá. Svo eru stórhættuleg dýr sem geta orðið á vegi manns á leiðinni svo sem brjálaðar kríur og nautgripir. Loks er frítt í Fontana böðin og gúrm veitingar að loknu hlaupi og ber þar helst að nefna "Hverabrauð Erlu, reyktan silung og pilsner".
2 sæti: Snæfellsjökulshlaupið 29 júní - Hlaupaleiðin er um 22 km. Langstærsti hluti hlaupsins er malarvegur og fyrstu 8 km þarf að hlaupa upp í móti í c.a. 700 metra hæð. Síðan tekur hlaupaleiðin að lækka þar til komið er til Ólafsvíkur. Hlauparar eiga von á að þurfa kljást við snjó og drullu frá 1 km til 7 km af leiðinni, en fer það eftir því hvað veturinn var snjóþungur. Hlauparar fá á leiðinni að upplifa einstaka náttúrufegurð og að öllu ógleymdu allri þeirri orku sem Snæfellsjökull býr yfir.
3 sæti: Laugavegshlaupið 13 júlí - Ein stórfenglegasta og fallegasta hlaupaleið landsins. Laugavegshlaupið er 55 km utanvegahlaup sem tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands, tvær sannkallaðar náttúruperlur. Göngugarpar eru venjulega fjóra daga á leið sinni um Laugaveginn en hröðustu hlaupararnir fara leiðina á 4-5 klukkustundum. Eru með mjög flotta heimasíðu, en það er að sjálfsögðu löngu uppselt í hlaupið. Undirlagið er fjölbreytt þar sem hlaupið er á sandi og möl, í grasi og snjó, á ís og yfir ár og læki.

2017 Utanvegahlaup:
1 sæti: Súlur Vertical er haldið á Akureyri þ. 3 ágúst nk og þar eru tvær vegalengdir í boði 18 km með 450m hækkun og 28 km m/ 1400m hækkun. Það sem athyglisvert er að 28 km gefur 2 UTMB punkta. Þetta hlaup var áður í október en það voru einhverjir hlauparar sem settu út á það í einkunnagjöfinni sem hlaupahaldararnir hafa greinilega tekið til sín ;)
Á sama tíma verður mikið líf og fjör í bænum ásamt ýmsum viðburðum sem tengjast útivist og hreyfingu.
2 sæti: Volcano Trail Run  verður haldið þann 14 september nk og er það 12 km hlaup.
Hlaupið er opið öllu áhugafólki um utanvega- og fjallahlaup. Hlaupið fer fram í Þórsmörk. Athugið að hámarksfjöldi í hlaupið fyrir árið 2019 er 150 manns
3 sæti: Hvítasunnuhlaup Hauka. Frábært utanvegahlaup sem er haldið hverja Hvítasunnuhelgi og getum við klárlega mælt með því á næsta ári. 22km leiðin gefur eitt UTMB stig.

Áframhald af utanvegaumræðum:
Jökulsárhlaupið (verður haldið þann 10 ágúst 2019):
Öll þau utanvegahlaup sem við höfum tekið þátt í hafa gefið okkur alveg svakalegt boost. Það er bara eitthvað við það að fara út og skoða náttúruna á harðahlaupum. Hins vegar höfum við ekki mikla reynslu af þeim, enda viljum við spara þau þar til seinna ;) Við höfum þó farið farið í Jökulsárhlaupið tvisvar sinnum og Elín fór í bæði skiptin í lengstu vegalengdina sem er 32-33km. Það er líka hægt að fara styttri veglengdir, 13 og 23km, en við mælum með 33km þar sem maður sér lang skemmtilegasta hluta leiðarinnar! Upplifunin var stórkostleg í alla staði í bæði skiptin. Það er líka svo skemmtileg upplifun að láta keyra með sig í rútu frá Ásbyrgi upp að Dettifossi þar sem lengsta vegalengdin byrjar og hlaupa svo meðfram Jökulsárgljúfrinu alla leið í Ásbyrgi aftur. Margir sem leggja leið sína í þetta hlaup hafa verið að fara í stórum hópum og jafnvel taka fjölskylduna og húsbílinn með. Það er því svakalega góð stemning þegar maður er kominn í mark. Í fyrrasumar var fólk meira að segja að skála í freyðivíni í markinu. Margir gista í Ásbyrgi og mjög skemmtileg stemning getur myndast þarna þessa helgina. Við fórum náttúrlega i fyrra og þá gistum við í tjaldi nóttina fyrir hlaup, en komum okkur í sumarbústað nóttina eftir hlaup. Það skemmdi kannski smá upplifunina þegar Vilhjálmur vaknaði um morguninn á ískaldri jörðinni og helmingurinn af dýnunni okkar hafði þá orðið loftlaus öðru megin J.

Dyrfjallahlaupið (verður haldið þann 20 júlí 2019):
Þetta hlaup er haldið við fjörðinn fallega, Borgarfjörð eystri og er um 23 km fjallahlaup með 1100m hækkun og lækkun. Hefur verið haldið tvisvar sinnum og við fórum í fyrra skiptið. Okkur fannst þetta hlaup meira krefjandi en t.a.m Jökulsárhlaupið þar sem það er eiginlega bara aflíðandi niður á við, en þetta hlaup er með mikilli hækkun. Þetta er hlaup í stórbrotnu landslagi frá Hólalandi í Borgarfirði, í Stórurð og þaðan í Bakkagerðisþorp í Borgarfirði. Hér er líka gaman að gera sér ferð með hópi eða fjölskylduna og gista á tjaldsvæðinu eftirá. Helsti gallinn er kannski sá að erfitt er að vera á hlaupum allan tímann því stundum var það hreinlega bara hættulegt eða stórgrýtt, en ég held nú að flestir séu bara alveg til í að ganga aðeins í svona hlaupum og njóta náttúrunnar svo við mælum klárlega með þessu hlaupi.

Vesturgatan (18-20 júlí 2019):
Hluti af hlaupahátíð Vestfjarðar og á þessi hlaupahátíð að vera mjög skemmtileg en við stefnum á að fara í sumar. Það er boðið upp á þríþraut, þannig að fullkomið er að tvinna þetta saman. Þar er m.a keppt í tveimur götuhlaupum (10 km og hálf maraþoni) á föstudeginum sem ber nafnið Arnarneshlaup, en á sunnudeginum er keppt í Vesturgötunni; hálf(10 km), heil(24 km) svo og tvöföld vesturgata(42 km)

Keppnishlaup á braut:
Þegar talað er um brautarhlaup er átt við keppnishlaup á 400m frjálsíþróttabraut (t.d á Laugrdalsvelli, Kópavogsvelli eða í Kaplakrika) þar sem hlaupið er í hringi. Í 3000m hlaupi er t.a.m. hlaupnir 7,5 hringir í kringum völlinn. Það virðist ekki vera mikil aðsókn í íslensku brautarhlaupin hér heima en við getum hæglega mælt með þeim þar sem þau reyna vel á hausinn og geta hjálpað manni að vinna í hraðanum og svo er auðvitað líklegt að maður nái góðum tíma þar sem brautin er marflöt og engar brekkur að stríða manni ;) Þau brautarhlaup utanhús sem koma helst til greina hér á landi í sumar eru eftirfarandi hlaup, en það er hægt að nálgast frekari upplýsingar um þau inn á www.fri.is og www.thor.fri.is.

  • 3000m í Kaldalshlaupinu á Vormóti ÍR þann 25 júní á Laugardalsvelli.
  • Meistaramót Íslands helgina 13-14 júlí á hinum nýja frjálsíþróttavelli ÍR-inga í Breiðholtinu og þar væri hægt að keppa í 5000m og 1500m.
  • MÍ í 10000m kk og 5000m kvk - ekki komin dagsetning á þessi hlaup. Í fyrra voru þessi hlaup haldin samdægurs á Laugardalsvellinum.
  • MÍ öldunga er með 30 ára aldurstakmark en þar er keppt í vegalengdum frá 800m og upp úr.

Hlaup erlendis:
Við höfum ekki ofur mikla reynslu af keppnishlaupum erlendis en við höfum þó eitthvað keppt í götuhlaupum erlendis. Að keppa erlendis er alltaf öðruvísi en að keppa hérna heima, maður fer svolítið út fyrir þægindarammann en á móti kemur að það er ótrúlega gaman að gera góða helgarferð í kringum keppnishlaup í útlöndum.

Til þess að leita að góðu keppnishlaupi í útlöndum þá mælum við með þessari síðu: https://worldsmarathons.com sem við fréttum af nýverið og virðist vera afar þægileg í notkun.

Lokin:
Vonandi hefur fólk gagn og gaman að renna yfir þessi hlaup sem við nefnum í þessum pistla og kannski hjálpað einhverjum hlaupara að velja sér keppnishlaup ef sá hinn sami er í einhverjum vafa.

Hvað okkur varðar þá stefnum við á að keppa í Miðnæturhlaupinu og Ármannshlaupinu hérna í höfuðborginni en bregða undir okkur betri fætinum og kíkja á Hlaupahátíðina á Vestfjörðum í júlí.

Kv. Vilhjálmur og Elín Edda frá Hlaupalíf Hlaðvarp