Finninn fljúgandi, Hannes Kolehmainen

birt 12. desember 2018

Flestir sem fylgst hafa með árangri langhlaupara síðustu ár og áratugi kannast við nöfn á borð við Paavo Nurmi (1897-1973) og Lasse Viren (f. 1949), en þessir tveir eru líklega þekktustu nöfnin í stjörnum prýddri sögu finnskra langhlaupara. Nafn þriðja Finnans, Hannesar Kolehmainen, hefur hins vegar fallið svolítið í skuggann, en hann var í raun og veru fyrsti Finninn sem lét verulega að sér kveða í langhlaupum á heimsvísu. Hann og Paavo Nurmi voru samtímamenn, en Hannes var nokkrum árum eldri og ruddi brautina fyrir þá sem á eftir komu. Hann var sem sagt fyrsti „fljúgandi Finninn" og fyrsti Finninn sem varð þjóðhetja vegna íþróttaafreka sinna.

Fyrstu skrefin
Hannes Kolehmainen, eða Johannes Petteri Kolehmainen eins og hann hét réttu nafni, fæddist í borginni Kuopio í Finnlandi 9. desember 1889, þ.e. fyrir réttum 129 árum. Þegar Hannes var 5 ára dó faðir hans frá honum og fjórum systkinum hans sem ólust síðan upp hjá móðurinni í sárri fátækt. Hannes lærði ungur múrverk til að geta lagt sitt af mörkum til að framfleyta fjölskyldunni, en gaf sér engu að síður tíma til að stunda íþróttir. Reyndar fór þetta saman að vissu leyti, því að veturinn þegar Hannes var 16 ára gekk hann jafnan á skíðum á milli heimilis og vinnu um helgar, 100 km hvora leið.

Hannes var engan veginn eini íþróttamaðurinn í Kolehmainen-fjölskyldunni, því að eldri bræður hans Tatu (f. 1885) og Viljami (f. 1887) voru líka hlauparar í fremstu röð. Þegar þeir voru að komast á unglingsárin í byrjun 20. aldar voru langhlaup ekki stunduð í Finnlandi. Hins vegar var þar mikil hefð fyrir keppni í skíðagöngu og þar hófst íþróttaferill þeirra bræðranna. Hlaupin fengu svo smám saman aukið vægi í lífi þeirra allra, jafnvel þótt sú iðja væri litin hornauga í fyrstu.

Stokkhólmur 1912
Árið 1912 var Hannes Kolehmainen, að öðrum ólöstuðum, orðinn besti langhlaupari í heimi. Þetta ár vann hann þrenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi, þar sem hann kom fyrstur í mark í 5.000 m hlaupi, 10.000 m hlaupi og í víðavangshlaupi, sem nú er reyndar löngu aflagt sem keppnisgrein á Ólympíuleikum. Undanrásir í 10.000 m hlaupi fóru fram 7. júlí og úrslitin degi síðar. Þar sigraði Hannes með yfirburðum á 31:20,8 mín, sem var fyrsta opinberlega skráða heimsmetið á vegalengdinni. Undanrásir í 5.000 m hlaupi fóru svo fram daginn eftir og úrslitin einum degi síðar. Þar háði Hannes eftirminnilega keppni við Frakkann Jean Bouin og hafði sigur á síðustu metrunum, 1/10 úr sekúndu á undan Frakkanum. Sigurtíminn, 14:36;6 var nærri 25 sek. betri en fyrra heimsmet og aldrei áður hafði þessi vegalengd verið hlaupin á skemmri tíma en 15 mín.

Eftir þessa fjögurra daga hlaupatörn á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi átti Hannes frí í einn dag, en 12. júlí hljóp hann 3.000 m í liðakeppni, þar sem hann setti þriðja heimsmetið á 5 dögum, hljóp á 8:36,9 mín. Þrátt fyrir þetta komust Finnar ekki í úrslit í keppninni.

Hannes var ekki eini Kolehmainen-bróðirinn í Stokkhólmi, því að þar keppti elsti bróðirinn Tatu bæði í 10.000 m hlaupi og maraþoni. Hann vann sinn riðil í 10.000 m í undanrásunum á 32:47,8, en tókst ekki að ljúka úrslitahlaupinu. Sama var uppi á teningnum í maraþoninu. Þetta ár var Viljami líka á ferðinni, þá orðinn atvinnumaður í hlaupum í Bandaríkjunum. Þar bætti hann heimsmet atvinnumanna í maraþonhlaupi á braut þegar hann hljóp vegalengdina á 2:29:39 klst. í október.

Þjóðernisvitund og þjóðaríþrótt
Sigrar Hannesar Kolehmainen á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi voru upphafið að finnska hlaupaundrinu sem oft hefur verið vísað til síðar. Einn þeirra sem létu hrífast af þessum frábæra árangri var einmitt Paavo Nurmi, sem þá var nýorðinn 15 ára. Sjálfum mun Hannesi hafa sárnað það mitt í sigurgleðinni, að þegar hann steig á efsta þrep verðlaunapallsins var rússneski fáninn dreginn að húni en ekki sá finnski. Á árunum sem í hönd fóru varð góður árangur Finna í langhlaupum og þá um leið hinn rómaði og þögli viljastyrkur finnskra langhlaupara, þ.e.a.s. það sem kallað er sisu á frummálinu, að eins konar tákni fyrir styrkinn í baráttu Finna fyrir sjálfstæði frá Rússum, sem fékkst svo loks árið 1917.

Stríðsárin
Eftir Ólympíuleikana í Stokkhólmi fluttist Hannes Kolehmainen vestur um haf og keppti þar næstu ár í fjölmörgum hlaupum, sem hann vann næstum öll. Þeirra á meðal var árlegt hlaup þvert í gegnum New York (u.þ.b. 20 km), þar sem þátttakendur voru gjarnan á annað þúsund og áhorfendur taldir í hundruðum þúsunda. Þetta hlaup vann Hannes fjórum sinnum á fimm árum. Alþjóðlegar keppnir lágu hins vegar niðri á meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst - og sumir helstu keppinautarnir féllu í stríðinu, þ.á.m. Jean Bouin.

Fyrstu maraþonhlaupin
Árið 1917 hljóp Hannes Kolehmainen fyrsta stóra maraþonhlaupið sitt og endaði þá í 4. sæti í Boston. Árið 1920 náði hans hins vegar að sigra á New York maraþoninu á tímanum 2:47:49 klst. Þar með tryggði hann sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Antwerpen síðar á sama ári.

Antwerpen 1920
Maraþonvegalengdin var ekki komin í alveg fastar skorður árið 1920 og maraþonhlaupið á Ólympíuleikunum í Antwerpen þá um sumarið var lengsta maraþonið í sögu leikanna, 42,75 km. Hannes Kolehmainen tók forystu þegar hlaupið var u.þ.b. hálfnað en Suður-Afríkumaðurinn Chris Gitsham fylgdi honum þó eftir þar til 37 km voru búnir af hlaupinu. Eftir það var hljóp Hannes einn síns liðs og vann öruggan sigur þó að Eistinn Jüri Lossmann næði reyndar að draga vel á hann undir lokin. Sigurtíminn, 2:32:26 klst., var besti tími sem náðst hafði í venjulegu maraþonhlaupi fram til þess tíma. Tatu Kolehmainen var heldur ekki langt undan, en hann náði 10. sæti í hlaupinu á 2:44:03 klst. Á þessum leikum lét Paavo Nurmi líka til sín taka og hreppti gull í 10.000 m hlaupi og silfur í 5.000 m.

Árin eftir Antwerpen
Hannes Kolehmainen hélt áfram að keppa í langhlaupum fram eftir 3. áratug 20. aldar. Á þessum árum setti hann m.a. heimsmet í 25.000 og 30.000 m hlaupum. Hann tók líka þátt í maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum í París 1924 en lauk ekki keppni. Keppnisferlinum lauk svo árið 1928.

Lokaorð
Hannes Kolehmainen dó í Helsinki í ársbyrjun 1966. Ferill hans á sér fáar hliðstæður og í raun er erfitt að gera sér í hugarlund hversu gríðarlega stóran þátt hann átti í að efla sjálfstraust Finna og trú þeirra á framtíðina á erfiðum tímum á árunum eftir 1910. Hannes var stórstjarna í finnsku íþróttalífi og finnsku þjóðlífi. Hlaup eru nefnilega ekki bara hlaup.

Efnisflokkur: Saga

Heimildir:

  1. Antti O. Arponen (2007): Kolehmainen, Hannes. Biografiskt lexikon för Finland. http://www.blf.fi/artikel.php?id=1791.
  2. New York Times (1912): Marathon Record for Kolehmainen. The New York Times, 21. október. https://timesmachine.nytimes.com/timesmachine/1912/10/21/100553407.pdf.
  3. Sport Reference LLC: Ýmsar síður. https://www.sports-reference.com.
  4. Thor Gotaas (2008): Løping. En verdenshistorie. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.