Frá klappstýru til sálfræðings

uppfært 09. ágúst 2020

Það var ekki auðvelt að viðurkenna mistök í æfingaferli síðustu ára, ég hafði gleymt aðalatriðinu, að hvíla. Ég kolféll á prófinu, ekki bara einu sinni heldur ítrekað. Ég tók fjöldamörg æfingatímabil í röð án þess að hvíla og það hafði alvarlegar afleiðingar.

Eftir að lenda í mínus þarf fyrst að koma sér á núllið og svo vinna sig þaðan hægt og rólega upp. Svefninn er auðvitað undirstaða alls og hann verður að vera í samfelldur og nægur. Svona ferli er vart hægt að fara í gegnum án aðstoðar og jafnvel þó ég eigi stórt bakland af frábæru fólki sem styður, peppar og skilur þá þarf sérfræðinga að borðinu.

Hafdís 4 Pistill
Hafdís áður en ofþjálfunin náði yfirhöndinni.
Klappstýran

Eftir höggið, vanlíðanina, vonbrigðin og óvissuna í lok ágúst var erfitt að finna skynsama leið út úr ógöngunum. Ég reyndi að lesa mér til um vandann og næstu skref en ég fann fyrst og fremst efni um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofþjálfun sem felast einkum í skynsömum hvíldartímabilum.

Eftir fyrirspurnir meðal vina og kunningja var mér bent á Silju Úlfars. Ég fór og hitti hana og fékk mikið af góðum ráðum hjá henni um hvernig best væri að haga framhaldinu. Hún bauðst til að vera klappstýra, fylgjast með mér úr fjarlægð og styðja mig áfram í hægum en góðum skrefum að bata. Saman settum við upp plan sem miðaðist við að byrja á göngutúrum, bæta inn jóga og svo styrktaræfingum með það að markmiði að vera tilbúin að prófa að hlaupa í desember. Hún hvatti mig til að halda dagbók til að skrásetja líðan hverju sinni.

Svefninn

Alveg frá því nokkrum vikum fyrir áfallið átti ég í vandræðum með svefninn, ég svaf lítið og laust. Orkan virtist því lítið fara upp á við því ég var sífellt þreytt. Svefn er eins og allir vita gríðarlega mikilvægur og án hans verður lítið um viðgerðir af hálfu líkamans. Það var því forgangsatriði hjá mér að fá svefninn í lag og reyndi ég ýmis ráð til þess eins og magnesíum, slökun og melatónin. Í dag, 10 vikum eftir áreksturinn er svefninn ekki enn kominn í lag en hann er þó orðinn betri.

Markmiðin

Ég var strax staðráðin í að tækla þetta tímabil eins vel og ég gæti því ég fann frá fyrstu stundu hversu mikið mig langaði til að geta hlaupið aftur langar vegalengdir. Ég var gekk lengi með þá hugmynd í maganum að geta farið til Hong Kong í janúar þar sem ég var þegar skráð en Silju tókst að fá mig til að afskrá mig og einbeita mér að því. Það var í sjálfu sér mikill léttir að taka þá ákvörðun þó hún væri líka ákveðin vonbrigði.

Eftir ráðleggingar frá klappstýrunni minni byrjaði ég á göngutúrum og bætti svo við jóga. Fyrstu göngutúrarnir voru stuttir og hægir og fyrstu tvo jógatímana gat ég ekki klárað. Nokkuð fljótlega var ég þó farin að njóta mín í bæði lengri og hraðari göngutúrum. Þegar átta vikur voru frá hlaupinu afdrifaríka í Frakklandi fór ég fyrsta göngutúrinn á Esjuna sem gekk vonum framar.

Ég er ekki tilbúin að gefa frá mér drauminn um 100 mílna hlaup árið 2020 og ákvað að hugsa það til að byrja með sem gulrót frekar en pressu. Ef mér tekst vel upp með að byggja mig hægt og rólega upp aftur þá hugsanlega á ég möguleika á að komast í draumahlaupið 2020. Ef ekki, þá kemur alltaf annað ár og annað hlaup.

Sálfræðingur

Þar sem ég var tilbúin að gera allt sem þyrfti til að eiga afturkvæmt í hlaupin ákvað ég að panta einnig tíma hjá sálfræðingi en það hafði ég aldrei gert áður. Þegar þetta er skrifað er ég búin að fara í tvo tíma og það hefur gefið mér mikið. Hann hjálpar mér að takast á við vonbrigðin yfir ástandinu, vanlíðanina yfir því að geta ekki hlaupið og gefur mér ráð til að sigra svefnleysið.

Esjan mín

Það var alveg dásamleg tilfinning að komast aftur á Esjuna. Það var fallegur haustdagur og mikill léttir að komast upp og aftur niður og líðanin mjög góð allan tímann. Mikið sem ég hafði saknað hennar og tilfinningarinnar sem gagntekur mann við það að sigra fjall. Viku seinna var ég mætt í annað sinn og í þetta sinn var ekki síðra.

Hafdís 2 Pistill
Esjan er nærandi fyrir líkama og sál.

Ég hlustaði á viðtal Arnar Pétursson og ákvað að prófa að hafa samband við hann. Ég vissi að hann væri sá hlaupari og þjálfari sem leggur hvað mesta áherslu á hvíld, ekki bara virka hvíld heldur algjöra hvíld, bæði eftir erfiða æfingu og líka eftir æfingatímabil. Á leiðinni niður tók ég ákvörðun um að taka næsta skref í bataferlinu og hafa samband við hann.

Hungur

Hann var tilbúinn að hjálpa mér og sendi mér æfingaáætlun til níu vikna. Ég fékk nett sjokk yfir heimavinnunni eða réttara sagt skorti á heimavinnu sem framundan var, þetta gat vart talist hlaupaplan, meira labb og mjög létt skokk. Ég varð því enn sannfærðari um að hafa samband við hann hefði verið gæfuspor, ég hefði aldrei farið svona hægt og rólega af stað sjálf, aldrei.

Hungrið í löng fjallahlaup er hvergi nærri horfið, mig langar jafnvel enn meira en áður að hlaupa UTMB og seinna Tor des Geants en ég ætla að vera raunsæ og mögulega tekst það ekki á næsta ári og þá nýti ég tímann enn betur til að koma mér í gott og heilbrigt form. Ég mun sækja um í UTMB en er búin að skrá mig í 100 mílna hlaup á Spáni í byrjun júlí ef ég skyldi ekki komast inn.

Ég er full bjartsýni á að ég muni standa upp sem sigurvegari að lokum. Ég held áfram að skrifa dagbók til að skrásetja líðan og fylgja hlaupaplaninu frá Arnari með hvatningu frá klappstýrunni og góðum ráðum frá sálfræðingnum.

Síðan árið 2012, þegar ég tók hvíld síðast, hef ég hlaupið 6 maraþon og 9 ultra maraþon þar sem lengsta var 120 km. Þessi 15 æfingatímabil tók ég öll í röð án þess að hvíla á milli. Héðan í frá mun öllum mínum æfingatímabilum ljúka með hvíld, tveggja til þriggja vikna algjörri hvíld, ertu til í að hjálpa mér að muna það!

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.