Í október sl. tók ég þátt í mínu fyrsta utanvegahlaupi á erlendri grundu. UTLO, 60 km hlaupi á Ítalíu með 3.200 metra hækkun. Laugavegurinn hvað?! Nei, ég myndi svo sannarlega aldrei gera lítið úr Laugaveginum enda frábært hlaup í stórkostlegri náttúru. Þar hef ég hlaupið undanfarin þrjú sumur en mér til ólukku hef ég í öll skiptin fengið hina óvelkomnu krampa rétt fyrir Emstrur og háð langa baráttu við þá það sem eftir er hlaups.
Á Ítalíu opnuðust fyrir mér nýjar víddir í hlaupunum. Ég hafði hlaupið nokkur maraþon erlendis, sem er algjörlega frábært, en þetta var eitthvað allt annað. Ég og Þórdís, konan mín, laumuðum okkur með hlaupahóp FH og nutum þar góðs félagsskaps Friðleifs og co. Að fara til Ítalíu í október fannst okkur góð hugmynd og frábær framlenging á sumrinu.
Þegar fáeinir dagar voru í hlaup hljómaði veðurspáin upp á 300-400 mm rigningu yfir hlaupahelgina, en til samanburðar er árs meðalúrkoma í Reykjavík rétt um 800 mm. Já, við 80 manna hópurinn vorum að fara að hlaupa 17 til 100 km í aðstæðum sem voru ólíkar öllu öðru sem menn þekkja frá Íslandi. Ég verð að viðurkenna að þetta setti aukna spennu í verkefnið.
Að hlaupinu sjálfu, sem hófst kl. 9 um morguninn. Það hafði nú ekki alveg ræst úr þeirri rigningu sem búið var að lofa en blautt var það samt. Gamli skíðamaðurinn lét sig gossa niður brekkurnar og drullusvaðið var algjört. Hlaupið var á milli lítilla fjallaþorpa og útsýnið yfir vötnin og hæðirnar var einstakt þegar það gaf færi á sér. Helsti óttinn var að fá krampa og ég er búinn að lesa mikið um ástæður þess að menn fái krampa og eru menn langt í frá sammála um orsökina. Ég hallaðist helst að því að það að hlaupa á háum púls, eins og ég geri venjulega, væri ein af lykilástæðunum en ég hef ekki verið góður hingað til að láta púlsinn ráða för. Var ákveðinn í að láta á þetta reyna og miðaði við að halda mér undir 150. Það tókst ekki alveg og ég var stundum að missa hann rétt yfir 160 en meðalpúlsinn í hlaupinu endaði í 147.
Viti menn ég slapp við að fá krampa þó að þeir hafi aðeins látið vita af sér í 50 km. Gat meira að segja tekið síðustu 2 km sem voru á jafnsléttu inn í bæinn Omegna á 4:20 pace sem er önnur upplifun en að skrölta í mark með mikla krampa í báðum fótum. Kom í mark með bros á vör eftir frábært og vel heppnað hlaup í alla staði. Niðurstaðan var 10. sætið á 7:02:05 og fyrstur í aldri.
Klárlega ekki síðasta utanvegahlaupið erlendis og lærdómurinn er láta púlsinn ráða för og virða þau mörk sem hann setur mér. Þetta er einmitt eitt af því skemmtilega við hlaupin að maður er sífellt að læra eigin misstökum (og annarra) til að gera betur.
UGLOW
Daginn eftir voru ég og Þórdís stödd í EXPO-inu og rákumst á bás með franska vörumerkinu UGLOW og urðum algjörlega ástfangin. Þórdís aðeins öfgafyllra en ég enda kom hún heim með fulla ferðatösku af fötum (og ég eitt sokkapar, sem þeir gáfu mér í miskabætur vegna vörukaupa hennar). Fötin (og sokkarnir) reyndust það vel að við fórum að vinna í því að fá umboðið fyrir vörunum, sem var svo komið í hús tveimur mánuðum síðar. Við höfum því opnað vefverslunina www.hlaupar.is auk þess sem við höfum innréttað rými í bílskúrnum hjá okkur í Lambaseli 8. Þar er hægt að koma að skoða og máta alla þriðjudaga frá 17-20 eða eftir samkomulagi. Með þessu móti ætlum við að halda vöruverðinu niðri og stefnum á að auka úrvalið af gæða hlaupavörum með tíð og tíma.
Vöruúrvalið er allt frá regnheldum jökkum og buxum í fisléttar stuttbuxurnar og boli og allt þar á milli. Semsagt heildstæð hlaupavörulína bæði fyrir hefðbundin og utanvegahlaup.
Sjáumst á hlaupum ;)
Hlynur Guðmunndsson
Þessi pistill er að hluta kostuð kynning