Fórum á Laugarvatn um helgina. Ástæða að taka þátt í gullhlaupinu 2005.
Hlaupið var hringinn í kringum Laugarvatn. Ræst við gufubaðið og hlaupið réttsælis í kring um vatnið. Fátt sem líktist hefðbundnu keppnishlaupi hvað snerti braut og hlaupaleið. Þátttaka var góð. Taldi ekki, en örugglega um eða yfir 40 hlupu hringinn. Margir reyndir hlauparar þar á meðal.
En leiðin. Eins og áður var sagt lögðum við upp frá gufubaðinu. Fyrstu metrahundruðin voru eftir þurrum norðurbakka vatnsins. Hlaupið fram hjá Vígðulaug og út fyrir bæjarmörkin. En það var bara upphafið. Fljótlega tóku við krókar og keldur, mýrar og ár. Fyrsta áin var þokkaleg, leir í botni og ekki breitt vað. Áfram haldið skurðir urðu á leiðinni og fleiri ár. Þriðja áin, sú sem rennur úr vatninu var töluvert breið og nokkuð djúp á vaðinu. Ótrúlegt hvað rennur stór á úr svona litlu vatni. Á milli áa var hlaupið eftir bakka vatnsins sem sumstaðar dúaði alveg heil ósköp. Mjúk mýri undir fæti. Drykkjarstöð við Útey. Áfram haldið eftir suðvesturbakkanum. Á leið okkar voru girðingar. Gaddavír víða en ein úr hvítum borða. "Já þessa er líklega best að stíga vel yfir og snerta ekki ", hugsaði sveitamaðurinn. Enda jafngott því þau sem næst mér voru gáfu bæði frá sér hljóð þegar þau fóru yfir og snertu borðan. Þetta var rafmagnsgirðing og straumurinn á!
Jæja nú styttist í mark. Laugarvatnsbyggðin nálgaðist aftur. Síðasta áin var sú kaldasta. Enda rennur hún ofan af Lyngdalsheiði út í vatnið.
Eftir hana var leiðin eftir þurrum bökkum og sandfjöru í áttina að gufubaðinu. Við stóra hverinn hjá vatnsbakkanum voru kríur sem gogguðu hlaupara nokkuð. Hoppa síðan yfir stóra hverinn og ljúka hringnum Þetta var frábær upplifun. Hlaup sem situr hátt í röðinni sem eitt af skemmtilegustu hlaupunum sem ég hef tekið þátt í. Ný upplifun að fara svona hlaupaleið. Fjölbreytt og krefjandi. Laugvetningar halda vonandi aftur svona hlaup. Þeir búa vel að hafa tvö skemmtileg hlaup í næsta nágrenni. Gullhlaupið og Bláskógaskokkið. Það verður haldið þann 2. júlí. Hvatning til allra um að koma og taka þátt í því.
Njörður Helgason