Ertu á leið í Reykjavíkurmaraþon, en veist ekki alveg hvaða vegalengd þú átt að hlaupa? Kristinn Pétursson gerir verðkönnun hlauparans og reiknar dæmið til enda.
Reykjavíkurmaraþon er á næsta leiti. Þennan hátíðardag íslenskra hlaupara er boðið upp á nokkrar mismunandi vegalengdir í hlaupum; allt frá 3ja km skemmtiskokki upp í heilt maraþon - 42 km og nokkuð rúmlega það.
Þátttaka í hlaupunum kostar sitt, enda fær hver hlaupari stuttermabol og þátttökupening til eignar, auk svaladrykkja á leiðinni. En gjaldið er mismunandi eftir vegalengd og þá er kannski ekki úr vegi að reikna út kílómetragjald hverrar vegalengdar og finna þar með út hagstæðasta hlaupið - bestu kaupin í hlaupinu.
Við byrjum á skammhlaupunum. 3ja og 7 km skemmtiskokkin kosta kr. 1.200. 10 km kosta 1500 kall og hálfmaraþonið 2.000 kr. Maraþon kostar svo 2.500 kr. Þetta gerir:
3 km: 400 kr. á km
7 km: 171 kr. á km
10 km: 150 kr. á km
21 km: 95 kr. á km
42 km: 60 kr. á km
Það er þá morgunljóst í hvaða hlaupi maður gerir bestu kaupin; maður getur hlaupið maraþon fyrir 60 kall á kílómetrann á móti allt að 400 krónum í 3ja km skemmtiskokkinu! En svo má nú líka snúa þessu við og spyrja: í hvaða hlaupi kemst ég af með hvað fæsta km fyrir bol og þátttökupening? Nei, við skulum ekki hlaupa á okkur: Hagsýnir hlaupa heilt maraþon!
Og svona í lokin. Það kemur kannski ekki á óvart að stystu leiðirnar séu dýrastar, því þær eru jú nefndar skemmtiskokk og bera því trúlega skemmtanaskatt og útheimta sérstaka löggæslu og nærveru sýslumanns - og björgunarsveita í viðbragðsstöðu. Það ber því augljóslega að varast þau hlaupin. Þeim sem ætla í Laugaveginn á næsta ári er hins vegar hollast að fara að leggja fyrir, því það hlaup kostar litlar 13.000 kr. Sagt og skrifað.
Að gefnu tilefni er það svo áréttað að langhlauparar fá ekki langermaboli heldur stutterma.
Grein þessa má líka lesa á vef Langhlauparafélagsins, www.romarvefurinn.is/lhf