Heimsmeistarakeppnin í 100 km hlaupi árið 2001 - Ágúst Kvaran

birt 15. ágúst 2004

Hlaup ársins!
Frásögn Ágústar Kvarans á heimasíðu hans á slóðinni: http://www.raunvis.hi.is/%7Eagust/hlaup/cleder/hlaupid.htm. Birt á hlaup.is með leyfi Ágústar.

Þetta er það! Þetta er HLAUP ársins, hrópaði Siggi félagi minn í símann á vormánuðum síðasta árs. Við félagarnir höfðum, í nokkrar vikur, verið að grennslast fyrir um verðugt verkefni á sviði ofurmaraþonhlaupa á erlendum vettvangi, án fullnægjandi árangurs. Undanfarin ár höfðum við tekið þátt í nokkrum alþjóðlegum ofurmaraþonhlaupum og fýsti að bæta einu við. Þetta hófst allt árið 1997 með því að pistlarhöfundur tók þátt í hinu þekkta 90 km Comrade hlaupi í Suður- Afríku á milli borganna Pietermarizburg og Durban. Síðan þá höfðum við, annar eða báðir, tekið þátt í einu ofurmaraþonhlaupi á ári á erlendum vettvangi, í Hollandi árið 1998 (100 km), á Ítalíu árið 1999 (100 km fjallamarþon) og í Englandi árið 2000 (88 km). Það var komið að því að velja hlaup ársins 2001. Ég hafði vafrað um netið um nokkra hríð þegar ég loks rambaði á tilkynningu um 100 km ofurmaraþonhlaup, sem fara átti fram á Bretaníuskaga í Frakklandi síðla sumars. Hlaup þetta hafði verið stundað, einkum af þarlendum, samtals í 10 ár, en nú var fyrirhugað að efna þarna til alþjóðlegs móts sem og heimsmeistarakeppni í 100 km ofurmaraþoni. Hlaupabrautin samanstóð af tveimur 50 km hringjum í öldóttu landslagi á sveitavegum í kring um bæinn Cleder í nánd við norðurströnd Bretaníuskaga. Á fyrri árum hafði fjöldi þátttakenda aukist jafnt og þétt ár frá ári og náð hámarki árið 2000, um 550 hlauparar en að þessu sinni var búist við verulegri aukningu í þátttöku.

Engin spurning! sagði félagi minn Sigurður Gunnsteinsson, á vormánuðum þegar ég bar undir hann þá hugmynd að við slæjum til og tækjum þátt í heimsmeistarkeppni í 100 km ofurmaraþoni 26. ágúst, 2001. Þetta er HLAUP ÁRSINS 2001sagði hann einbeyttur. Ákvörðun var tekin. Við höfðum æft vel undanfarna mánuði viðbúnir því að takast á við eitthvert verðugt verkefni, en þessi ákvörðun fastbatt frekari æfingaáætlun. Framundan var núna tæplega fjögurra mánaða stíft æfingaprógram. Jafnt og þétt jukum við hlaupamagn per viku. Um helgar hlupum við gjarnan um og yfir 30 km hlaup auk þess sem við tókum þátt í maraþonhlaupum sem og íslenska ofurmaraþonhlaupinu um Laugarveginn frá Landmannalaugum til Þórsmerkur. Þessu til viðbótar fór ég í fjallahjólreiðar og fjallgöngur. Áætlun okkar gerði ráð fyrir auknu álagi þar til 3- 4 vikum fyrir keppnina. Þá var hlaupamagnið minnkað jafnt og þétt úr um það bil 150 km per viku niður í um 30 km per viku. Þannig átti að vera tryggt að við kæmum frískir og óþreyttir til keppni og að líkama okkar hungraði í átök á örlagastundu!

Við fengum uppáskrift Frjálsíþróttasambands Íslands þess efnis að það heimilaði okkur að taka þátt í keppninni fyrir Íslands hönd og mótshaldarar gáfu grænt ljós. Fyrsta þátttaka íslendinga í heimsmeistarakeppni í 100 km ofurmaraþoni var að verða að veruleika. Það fór að fara um okkur. Hvað vorum við búnir að koma okkur í?! Við létum þó engan bylbug á okkur finna, vanir mennirnir, og héldum okkar striki við æfingar þar til þremur dögum fyrir keppni að við héldum utan í boði Flugleiða og lentum í París 23. ágúst. Þaðan ókum við félagarnir sem leið lá í bílaleigubíl til Cleder.

Þegar þangað var komið var okkur vísað til gistingar í heimahúsi hjá viðkunnalegri kennslukonu, sem tók okkur fagnandi og bauð okkur að láta eins og við værum heima hjá okkur. Bærinn, sem og nágrannabæjir voru undirlagður undir stórviðburð. Þorpsbúar höfðu verið virkjaðir til sjálfboðavinnu og til að hýsa fjölda erlendra þátttakenda. Bærinn iðaði af mannlífi. Íþróttamenn, þjálfarar og fararstjórnendur spókuðu sig um í landsliðsbúningum í góða veðrinu talandi tungum. Við Siggi mættum samviskusamlega í skólahúsnæði bæjarins til að ganga frá skráningu og til að afla nauðsynlegra upplýsinga. Hver er fararstjóri íslenska landsliðsins spurði góðlátleg frönsk kona á bjagaðri ensku. Við litum spyrjandi hvor á annan uns ég bennti á Sigga og svaraði um hæl Hann. Og hvar eru keppendurnir? Við bentum á hvorn annan, Við! Þetta vakti nokkra undrun. Keppendur, þjálfarar og fararstjórn íslenska landsliðsins samanstóð ef tveimur fífldjörfum ofurhugum eða hvað(!?). Fararstjórinn fékk ógrynni af upplýsingabæklingum og blöðum og þjálfarinn annað eins, en keppendurnir áttu að slappa af og hlýða tilmælum! Tveimur úr fararstjórninni var því næst boðið að mæta til kynningarfundar næsta dag, hvað við gerðum, samviskusamlega. Öll skipulagning var til mikillar fyrirmyndar. Hugsað var fyrir öllu.


Íslensku keppendurnir ásamt nokkrum keppenda frá Kanada

Daginn fyrir hlaupið fór fram mikil og vegleg skrúðganga og þátttakendakynning. Keppendur gengu fylktu liði um götur bæjarins í kjölfar fánabera hvers lands. Ég gekk bíspertur í landsliðsbúningi á eftir fararstjóranum, þjálfaranum, keppandanum og fánaberanum Sigurði Gunnsteinssyni og veifaði stoltur til fjöldans. Að lokinni athöfninni hófst vegleg átveisla þar sem við innbyrgðum lokaorkubirðar fyrir hlaupið í formi pasta og orkudrykkja. Mér hafði orðið lítið svefnsamt fram að því að vekjaraklukkan mín hringdi aðfaranótt sunnudagsins 26. ágúst. Hlaupið átti að hefjast í býtið um morguninn! Þögulir, einbeittir en dálítið taugastrekktir gerðum við okkur klára og héldum í myrkrinu niður að þorpstorginu. Þar voru mættir samtals um 1800 hlauparar tilbúnir að leggja að baki 100 km vegalengd næstu klukkustundirnar.

Þátttakendur Íslands í heimsmeistarakeppni í 100 km hlaupi í skrúðgöngu í Cleder í Frakklandi 25. ágúst, 2001

Á slaginu kl. 5: 00 reið af fallbyssuskot og þvaga af hlaupurum lagði af stað út í myrkrið. Við félagarnir kvöddumst og óskuðum hvor öðrum velgengni. Í fyrstu einkenndist hlaupið af ferskleika og kátínu hlauparanna um leið og menn reyndu að finna sinn rétta hlaupatakt og sess í þvögunni. Leiðin lá í fyrstu suður á bóginn eftir kræklóttum sveitavegum. Það skiptust á akrar og þorp. Í fyrstu lá þokuslæðingur yfir byggðinni sem breyttist í væga rigningu. Smám saman jókst birtan og áhorfendum og hvetjendum fjölgaði við vegkanta. Áningarstöðvum hafði verið komið fyrir með um fimm kílómetra millibili. Þar var boðið upp á vatn, orkudrykki, orkumat sem og ávexti af ýmsu tagi. Auk þess var algengt að keppendur nytu aðstoðarmanna með vistir á hjólum.

Okkur keppendum sem skráðir voru í heimsmeistarakeppnina var þó uppálagt að hafna allri slíkri aðstoð eða aðföngum, utan afmarkaðra svæða við áningarstaðina. Þegar á leið hlaupið greiddist sífellt meir úr þvögunni, hlauparar urðu þögulli uns þeir liðu áfram líkt og í leiðslu. Hlaupaleiðin sveigði til norðurs í gegnum fallegann kastalagarð. Áfram, þorp og akrar á víxl. Framundan blasti við hafið og við sveigðum til austurs eftir malarstíg sem lá meðfram norðurströndinni. Það var farið að hlýna. Þegar á að giska 35 km voru lagðir að baki var skyndilega hrópað og kallað. Ég leit upp furðu lostinn og ljósmyndablossi reið af. Mér leið vel. Ég gætti þess að drekka vel, bæði orkudrykki og vatn á hverri drykkjarstöð. Auk þess fékk ég mér öðru hverju vænan slurk af dísætri orkuríkri leðju úr þar til gerðum gelpokum sem Leppin umboðið á Íslandi hafði góðfúslega látið okkur í té fyrir ferðina. Skyndilega blasti við skilti: 42,2 km. Staðlaðri maraþonvegalengd var náð þegar tæpar þrjár og hálf klukkustundir voru liðnar frá upphafi hlaupsins. Þetta var fyrr en áætlun mín hafði gert ráð fyrir. Var ég að fara of hratt, spurði ég sjálfan mig. Ég vissi að það gat komið mér í koll síðar í hlaupinu. Í svona þrekraun er mikilvægt að freistast ekki til að ganga um of á orkuforða líkamans snemma í hlaupinu til að eiga eitthvað eftir fyrir lokaátökin. Eg hægði ögn á mér. Það var múgur og margmenni sem hrópaði hástöfum hvatningarorð þegar ég renndi fram hjá 50 km merkingunni í miðbæ Cleder 4 klst og 13 mín frá upphafi hlaupsins.


Ágúst eftir 35 km hlaup
 


Ágúst eftir 85 km hlaup. Ólíku saman að jafna?!

Nú hófst síðari helmingur sem ég vissi að yrði mun erfiðari. Sólin gægðist öðru hvoru fram úr skýjunum og hóf að þerra regnvotar göturnar. Aftur var haldið suður á bóginn. Þreytan var óneitanlega farin að segja til sín. Allar brekkur virtust brattari en áður! Nú hægði sjálfkrafa á mér. Í stað þess að halda aftur af mér líkt og áður var hlaupageta mín nú á mörkum þess mögulega. Hitinn jókst. Ég naut ekki fegurðar umhverfisins með sama hætti og á fyrri hringnum og horfði sljóum augum á myndasmiðina, þegar þeir tóku af mér myndir öðru sinni, nú eftir ca 85 km. Enn virtist hægja á mér. Hvað var að gerast? Var orkan þrotin? Mér fannst ég varla geta drattast áfram á rólegu skokki. Ég fór að ganga og skokka á víxl. Einungis 10 km voru eftir. Hversu oft hafði ég ekki hlaupið í 10 km almenningshlaupum heima á Fróni án þess að hafa fundist það nokkuð tiltökumál. Því skyldi ég ekki geta það núna? Ég kastaðist áfram á einhvern undarlegan skrikkjóttan hátt. Framundan var hlaupari sem farinn var að ganga viðstöðulaust. Sjálfstraustið jóks þegar ég náði að sigla fram úr honum. Einungis 3 kílómetrar voru eftir. Ómurinn af hrópum úr Cleder-bæ varð háværari. Nú var að duga eða drepast. Lappirnar virtust hreyfast tilfinningalaust skref fyrir skref. Hróp og köll. Mér fannst ég ýmist vera að detta aftur eða fram fyrir mig. Áfram, áfram, áfram. Skyndilega blasti við skrautlegt markhlið og tölustafir stórrar skeiðklukku. Ærandi franska hljómaði úr gjallarhorni. Ég gaf allt sem ég átti í síðustu 100 metrana og renndi í mark þegar skeiðklukkan sýndi 8 klst, 59 mín og 5 sek. Ég hafði lokið hlaupinu á draumatíma, rétt innan við 9 klst!

Ég stóð um hríð og studdi mig við húsvegg til að forðast falli. Ég varð að hreyfa mig til að stirðna ekki upp, hugsaði ég. Ég staulaðist um mannmargt bílaplan og kinnkaði öðru hverju kolli í átt til vingjarnlegra frakka sem létu hrósyrði falla eða spurðu einhvers, sem ég ekki skyldi. Stirðleikinn magnaðist og það varð erfiðara og erfiðara að flytja fæturna fram fyrir hvor aðra. Ég lét loks tilleiðast um stund og settist niður í skugga af tré. Skammt frá var þyrping af fólki að rýna af ákafa á auglýsingatöflu. Með erfðismunum reis ég upp á ný og staulaðist í áttina að hópnum. Þar gaf að líta niðurstöður úr hlaupinu. Ég hafði hafnað í 250. sæti af heildarfjölda þátttakenda um 1800 og í 108. sæti af landsliðskeppendum 36 þátttökulanda sem skráðir voru í heimsmeistarakeppnina. Þetta var framar björtustu vonum. Sigurvegari hlaupsins og heimsmeistari hafði orðið japaninn Mikami Yasufumi, sem hljóp vegalengdina á 6 klukkustundum, 33 mínútum og 28 sekúndum. Hann hafði jafnframt slegið brautarmet.


Siggi eftir 35 km hlaup


Siggi eftir 85 km hlaup. Myndirnar hafa ekki víxlast; Ótrúlegt en satt!

Skömmu síðar birtist Siggi, kátur að vanda. Það urðu fagnaðarfundir. Á sínu sextugasta aldursári hafði þessi þrautseigi félagi minn gert sér lítið fyrir og hlaupið 100 km í heimsmeistarakeppni á 11 klst. 38 mínútum og 46 sekúndum. Hann hafnaði í 17. sæti af heildarfjölda í hans aldursflokki og í 894. sæti í heildina. Frábær árangur. Við komum okkur í heimahús, skoluðum af okkur salt og svita og hvíldum lúin bein.

Við höfðum lokið fyrstu þátttöku íslendinga í heimsmeistarakeppni í 100 km ofurmaraþoni. Tilfinningin var notaleg. Einir, með sjálfum okkur, höfðum við gengið í gegnum líkamleg og andleg átök sem höfðu kennt okkur að þekkja okkar takmörk og fært okkur ómetanlega reynslu. Við kváðum upp úr einum rómi með það að þetta uppátæki, sem sumum kann að finnast öfgafullt, væri svo sannarlega erfiðisins virði. Við félagarnir litum hvor á annan og spurðum í einlægni: Hvað næst!?

Fleiri myndir er að finna á slóðunum:
http://www.raunvis.hi.is/~agust/cled01myndir.htm
http://www.raunvis.hi.is/~agust/hlaup/10kmdeclederak.htm

Aðrar viðeigandi tilvísanir:
http://www.raunvis.hi.is/~agust/clederisl.htm
http://www.100kmdecleder.com/pages/frames.html
http://www.raunvis.hi.is/~agust/hlaup.html

Ágúst Kvaran,
13. maí, 2002