Hjartað yngist um fjögur ár í fyrsta maraþoninu

uppfært 09. ágúst 2020

Fyrsta maraþonið og æfingarnar sem því fylgja lækka blóðþrýsting og mýkja æðaveggi svo mjög að það samsvarar því að hjarta og æðakerfi yngist um fjögur ár. Þetta eru í stuttu máli niðurstöður rannsóknar vísindamanna við UCL-háskólann og Barts háskólasjúkrahúsið í London, sem sagt var frá í janúarhefti læknatímaritsins Journal of the American College of Cardiology og byggðar voru á mælingum á 138 fullfrískum einstaklingum sem hlupu Londonmaraþonið í fyrsta sinn á árunum 2016 og 2017. Fjögur árin sem hér eru nefnd eru að sjálfsögðu meðaltal, því að ávinningurinn var í sumum tilvikum minni og í sumum tilvikum meiri. Mestur var ávinningurinn meðal eldri, hægfara karla með tiltölulega háan blóðþrýsting í upphafi rannsóknar.

Þátttakendurnir
Þátttakendur í rannsókninni þurftu að vera við góða heilsu í upphafi rannsóknar og máttu ekki hafa hlaupið meira en 2 klst. í viku. Rannsóknin hófst í raun sex mánuðum fyrir Londonmaraþonið þegar ljóst var hverjir hefðu fengið keppnisrétt í hlaupinu. Tilteknir heilsufarsþættir voru þá mældir og síðan var þátttakendum ráðlagt að fylgja 17 vikna æfingaáætlun Londonmaraþonsins fyrir byrjendur. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir þremur æfingum á viku til að byrja með, samtals 10-20 km, en síðan er álagið aukið smám saman. Megintilgangur áætlunar af þessu tagi er eðlilega að búa sig undir hlaupið en ekki endilega að bæta heilsuna.

Helstu mælingar
Fylgst var með blóðþrýstingi og stífleika ósæðarveggja í þátttakendum á æfingatímabilinu og síðan voru lokamælingar gerðar einni til þremur vikum eftir hlaup, þ.e. nógu seint til að mesta þreytan væri liðin úr skrokknum og nógu snemma til að aðrir þættir væru ekki farnir að hafa mikil áhrif á niðurstöðurnar. Ástæða þess að sjónum var beint sérstaklega að ósæðinni var sú að ástand ósæðar gefur almennt betri vísbendingar um líkur á æðasjúkdómum en ástand slagæða annars staðar í líkamanum. Ósæðarveggir stífna með aldrinum og stífleiki þeirra hefur fylgni við heilabilun og nýrnasjúkdóma, jafnvel þótt æðakölkun sé ekki til staðar. Hægt er að gera býsna nákvæmar mælingar á ástandi ósæðar með hjartasegulómun (cardiovascular magnetic resonance (CMR)).

Helstu niðurstöður
Frá því að rannsóknin hófst og þar til maraþonið var að baki höfðu efri mörk blóðþrýstings (systolic) lækkað að meðaltali um 4 mmHg og neðri mörkin (diastolic) um 3 mmHg. Þetta er svipaður árangur og vænta má af vægum skammti blóðþrýstingslækkandi lyfja. Stífleiki ósæðarveggja hafði jafnframt minnkað (eða mýktin aukist) að meðaltali um 9% á þessum sex mánuðum, en það samsvarar því að u.þ.b. fjögurra ára stirðnun hafi gengið til baka. Breytingar á blóðþrýstingi og stífleika æðaveggja reyndust vera óháðar hjartsláttartíðni, líkamsfitu og þyngd, svo og breytingum sem urðu á þessum þáttum á meðan á rannsókninni stóð. Svona mikil lækkun á blóðþrýstingi og stífleika æðaveggja er talin lækka dánartíðni vegna hjartaáfalla um 10% og koma í veg fyrir fjölda ótímabærra dauðsfalla.

Takmarkanir
Eins og flestar aðrar rannsóknir hafði þessi rannsókn tilteknar takmarkanir frá aðferðafræðilegu sjónarmiði. Þannig voru aðeins teknir til skoðunar þeir þátttakendur sem komust í gegnum æfingatímabilið og luku maraþoninu. Ekki er hægt að útiloka að þeir sem luku ekki hlaupinu, hvort sem það var vegna meiðsla eða af öðrum orsökum, hefðu sýnt einhverjar aðrar niðurstöður. Rannsóknin gefur heldur ekki tilefni til að fullyrða að beint orsakasamhengi sé á milli æfinganna og áhrifanna á hjarta- og æðakerfið, því að ákvörðunin um að taka þátt í hlaupinu gæti hafa leitt af sér breytingar á lífsstíl sem voru ekki endilega hluti af áætluninni, svo sem breytingar á mataræði eða hegðunarmynstri, sem aftur hefðu getað skilað sér í lægri blóðþrýstingi og teygjanlegri æðaveggjum.

Aldrei of seint að byrja!
Höfundar rannsóknarinnar benda á að skuldbindingin sem felst í því að skrá sig í maraþon sé líkleg til að stuðla að heilsufarslegum ávinningi, því að almennt sé markviss markmiðssetning góður hvati til að halda sér við efnið. Og auðvitað þurfi ekkert endilega að æfa fyrir heilt maraþon til að bæta heilsuna. Meira sé vissulega yfirleitt betra í þessum efnum, en öll hreyfing komi að gagni. Höfundarnir benda einnig á að samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sé aldrei of seint að byrja, og reyndar virtist ávinningurinn verða því meiri sem fólk var eldra og seinfærara.

Tímar í fyrsta maraþoni
Þess má geta að kvenkyns þátttakendur í rannsókninni voru að meðaltali 5,4 klst. að ljúka þessu fyrsta maraþoni sínu og karlarnir 4,5 klst. Líta má á þá tíma sem vísbendingu um það hvers óvanir hlauparar mega vænta í sínu fyrsta maraþoni.

Kínalífselexírinn fundinn?
Líklega er óhætt að fullyrða að ef til væri pilla sem gæfi jafn afgerandi árangur og fram kom í þessari rannsókn, myndi sú pilla seljast í bílförmum og vera kölluð undralyf!

Efnisflokkur: Heilsa

Heimildir og lesefni:

  1. Anish N. Bhuva et.al (2020): Training for a First-Time Marathon Reverses Age-Related Aortic Stiffening. Journal of the American College of Cardiology. Volume 75, Issue 1, 7-14 January 2020, Pages 60-71. Elsevier, https://doi.org/10.1016/j.jacc.2019.10.045.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.