uppfært 27. september 2024

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á marktæk jákvæð áhrif hlaupa og annarrar hreyfingar á líkamlega og andlega heilsu fólks. Hingað til hafa þessar rannsóknir, hver fyrir sig, fyrst og fremst beinst að einstökum klínískum þáttum, svo sem áhrifum hreyfingar á blóðþrýsting, beinþéttni, þunglyndi, minni, líkur á tilteknum sjúkdómum o.s.frv. Í vor sem leið birtust hins vegar í Nature fyrstu niðurstöðurnar úr stóru rannsóknarverkefni þar sem hópur vísindamanna beindi sjónum að áhrifum hreyfingar á einstakar frumur og efnaskipti. Rannsóknirnar sem um ræðir voru að vísu gerðar á rottum en ekki fólki, enda öðru fremur verið að skoða einstök líffæri, vefi og frumur sem ekki er auðvelt að taka úr lifandi lífverum. Ein helsta niðurstaðan var að reglubundin hreyfing kallaði fram breytingar í öllum þeim 19 líffærum sem skoðuð voru í þessum rannsóknum bæði hvað varðar starfsemi frumanna og lífefnafræðilega þætti.

Hvers konar breytingar?

Meðal þeirra líffæra sem tekin voru sýni úr til að rannsaka áhrif hreyfingar voru hjarta, heili og lungu. Öll þessi líffæri tóku breytingum við reglubundna hreyfingu tilraunadýranna, þ.m.t. breytingum sem auðvelda líkamanum að stjórna ónæmiskerfinu og bregðast við streitu, auk þess að auka viðnámsþrótt gegn lifrarsjúkdómum, hjartasjúkdómum og áverkum af ýmsu tagi.

Það þarf heilt þorp

Þegar niðurstöður rannsóknanna voru birtar komst einn höfundanna svo að orði að það hefði þurft heilt þorp af vísindafólki með ólíkan vísindalegan bakgrunn til að skapa og tengja saman það gríðarlega magn upplýsinga sem hefði fengist í rannsóknunum. Þetta væri fyrsta kortlagningin sem næði til áhrifa hreyfingar á öll helstu líffæri sama einstaklings. Þetta var mögulegt vegna þess að fjöldi fólks vann úr sýnum úr sömu vefjum sömu dýra samtímis á mörgum rannsóknarstofum þar sem fengist er við mismunandi fræðasvið.

Nýrnahetturnar breytast mest

Þegar allt er talið gerði vísindafólkið hátt í 10.000 greiningar sem fólu í sér u.þ.b. 15 milljón mælingar á blóð- og vefsýnum. Þau komust að því að reglubundin hreyfing hefur áhrif á þúsundir sameinda, en mestar breytingar fundu þau þó í nýrnahettum dýranna. Nýrnahetturnar framleiða einmitt hormón sem stýra ýmsum helstu lífeðlisfræðilegu ferlum líkamans, svo sem ónæmiskerfinu, efnaskiptum í frumum, blóðþrýstingi o.m.fl. Í allmörgum tilvikum kom fram munur á áhrifum reglubundinnar hreyfingar eftir kynjum, sérstaklega hvað varðar virkni ónæmiskerfisins. Hjá kvendýrum komu breytingar á lykilsameindum ónæmiskerfisins til að mynda fram strax á fyrstu eða annarri viku æfingatímabilsins, en sambærilegar breytingar hjá karldýrum komu fyrst fram eftir 4-8 vikur.

Óvænt áhrif á lifur

Eitt af því sem kom á óvart í rannsóknunum var að reglubundin hreyfing leiddi til breytinga á próteinum í hvatberum lifrarfruma, en þessar tilteknu breytingar eru til þess fallnar að breyta orkubúskap og hafa áhrif á orkugeymslu í lifur. Þetta hefur í för með sér að fita í lifur minnkar sem dregur um leið úr hættu á lifrarsjúkdómum. Þessar uppgötvanir munu e.t.v. nýtast til meðhöndlunar á fitulifur, en fram til þessa hafa áhrif líkamsræktar á lifur ekki verið mikið í sviðsljósinu.

Hagnýtar rannsóknir

Enda þótt rannsóknirnar hafi verið gerðar á rottum en ekki mönnum munu þær mögulega auka skilning á ýmsum heilsufarsvandamálum. Sömuleiðis vonast vísindafólkið til að rannsóknir þeirra muni nýtast til að sérsníða æfingaáætlanir fyrir fólk með tiltekin heilsuvandamál, svo og til að þróa aðferðir sem líkja eftir tiltekinni líkamsrækt þegar um er að ræða fólk sem ekki getur gert raunverulegar æfingar.

Opin gagnaveita

Til að auðvelda áframhaldandi rannsóknir hefur öllum gögnum sem urðu til í þessum rannsóknum verið komið fyrir í opinni nettengdri gagnaveitu þar sem hver sem er getur nálgast niðurstöður um ólíklegustu þætti, þ.m.t. um breytingar á samsetningu próteina í lungum kvenrotta eftir átta vikna reglulegar æfingar á hlaupabretti, eða áhrif æfinga á RNA í frumum allra líffæra bæði kvendýra og karldýra á ólíkum tímum, svo eitthvað sé nefnt.

Hvað kemur okkur þetta við?

Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig niðurstöðurnar sem hér hafa verið til umræðu geti nýst leikmönnum sem eru ekkert að spá í hvatbera úr rottulifrarfrumum svona dagsdaglega, hvorki í vinnu né frístundum. Stutta svarið við þeirri spurningu er að þessar niðurstöður sýna að hreyfing skiptir máli fyrir næstum öll líffæri líkamans, þannig að líklega eru áhrifin miklu fjölbreyttari, víðtækari og langvinnari en nokkrum getur dottið í hug þegar hann reimar á sig hlaupaskóna. Með öðrum orðum getum við dregið þá ályktun að munurinn á því að hlaupa og hlaupa ekki sé líklega miklu meiri en okkur hefur órað fyrir. Hlaup breyta sem sagt lífinu. Og önnur líkamsrækt gerir það líka, (jafnvel þó að hún sé ekki alveg eins skemmtileg).

Efnisflokkur: Heilsa

Heimildir og lesefni

Broad Institute of MIT and Harvard (2024): Scientists work out the effects of exercise at the cellular level. ScienceDaily, 1. maí 2024. sciencedaily.com/releases/2024/05/240501125227.htm.