20 ára afmæli hlaupahópsins Laugaskokks var fagnað með fjölmennu afmælishlaupi og kaffi í World Class Laugum þann 24. febrúar síðastliðinn.
Þar komu saman nýir og gamlir hlaupafélagar til að fagna afmælinu með góðum hópi hlaupavina. Laugaskokkarar byrjuðu daginn á hlaupaæfingu kl. 9 þar sem hlaupinn var “Rocky” hringurinn svokallaði frá Laugum, upp Skólavörðustíginn og upp að Hallgrímskirkju en síðan var hlaupið í ýmsum vegalengdum aftur í Laugar þar sem hlauparar gæddu sér á afmælisköku og öðrum kræsingum. Um hundrað hlauparar tóku þátt í hátíðahöldunum og var mikil gleði meðal gesta eftir orkugefandi útiveru og frábæra samveru. “Þetta er helgardjammið okkar” segir Halla hlaupaþjálfari og bætir við að það sé toppurinn að byrja helgina með laugardagshlaupaæfingu og fara inn í helgina full af orku og endorfíni.
Hlaupahópurinn Laugaskokk á sér langa sögu. Fyrir 20 árum var hópur fólks á námskeiði hjá Námsflokkum Reykjavíkur sem þá voru að hætta. Annar hópur, Hlaupahópur Hreyfingar var þá einnig að hætta þannig að þessir hópar sem þekktust innbyrðis ákváðu að sameinast undir nafni Laugaskokks og hefja æfingar frá World Class í Laugum sem var þá nýbúið að opna dyrnar í Laugardalnum. Æfingar hafa verið samfelldar frá upphafi og hefur starf hópsins verið fjölbreytt og skemmtilegt æ síðan. Áhugi á hlaupum hefur gengið í bylgjum undanfarna áratugi og æfingahópurinn sömuleiðis. Félagsskapurinn og gleðin hefur hins vegar alltaf verið aðalsmerki hópsins.
Laugaskokk er líklega stærsti götuhlaupahópur landsins en það má áætla að mörg hundruðir félagar hafi mætt á starfstíma hópsins. Æfingar eru þrisvar í viku á mánudögum og miðvikudögum kl. 17:30 og á Laugardögum kl. 9 frá World Class Laugum. Þá leggja þjálfarar fram tillögur að æfingum sem þátttakendur geta aðlagað að eigin getu. Til viðbótar eru skipulagðir ýmiskonar viðburðir og skemmtileg heit yfir árið þar sem bryddað er upp á tilbreytingum í æfingum og í félagslífi. Þá eru reglulega boðið upp á utanvegaæfingar, hópferðir í hlaup innanlands og utan og fastar ævintýraferðir um undralendur Íslands. Nánari upplýsingar hér á hlaup.is.
Formaður Laugaskokks, Ívar Adolfsson sem hefur verið í hópnum frá upphafi segir það skemmtilegasta við hópinn að hitta skemmtilegt fólk og að hlaupa með þeim á æfingum í fjölbreyttu starfi. Sem dæmi nefnir hann að í svona stórum hlaupahóp komi fram allskonar hugmyndir og verkefni sem félagar taka þátt í. Hann minnist sérstaklega þess fyrir um áratug þegar félagar í Laugaskokki tóku sig saman og skipulögðu hlaupaferð til Montreal. Ferðin heppnaðist einstaklega vel og setti tóninn að því samfélagi sem hópurinn er í dag. Það sem einkennir hlaupahópinn er ekki síst það að innan hópsins eru allskonar áhugahópar sem finna sameiginleg markmið, hraða og verkefni til að taka sér fyrir hendur sem hvetur aðra til að stunda þetta skemmtilega sport.
“Þetta snýst ekki bara um hvað Laugaskokk getur gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir Laugaskokk. Ef þú mætir ertu búinn að gera 90%”. Þetta er í samræmi við einkennisorð Laugaskokks: Mæting er bæting.
Halla Björg Þórhallsdóttir og Guðmundur Kristinsson eru þjálfarar Laugaskokks. Aðspurð um hvað geri Laugaskokk að Laugaskokki segja þau án þess að hika: “fólkið og félagsskapurinn”. Í Laugaskokki sameinast allir í áhugamálinu. Fólk hefur gaman að því að hittast og hreyfa sig. Fólk kynnist félögum, mynda tengsl og það heldur fólki saman í hópnum yfir lengri tíma. Sumir félagar koma á æfingum á tilteknum árstíma eða í undirbúningi fyrir ákveðin hlaup eins og Reykjavíkurmaraþonið, enda er það einn stærsti hlaupaviðburður ársins. Aðrir hlaupa með Laugaskokki úti allt árið.
“Við erum alltaf í Lífshlaupinu” segir Halla. “Þetta er ekki bara átak heldur hluti af því að auka lífsgæði: hreyfa sig, styrkja sig andlega og líkamlega með því að vera í hlaupahóp. Laugaskokk hentar öllum. Bæði fyrir þau sem vilja bæta sig og líka fyrir þá sem vilja bara hafa gaman. Hlaup eru fyrir alla”.
Einn af stærstu kostunum við að vera í stórum hlaupahópi eins og Laugaskokki er að það eru alltaf hópar á mismunandi hraða, fólk á öllum aldri, ólíkir hópar og breytt getustig allt frá göngudeildinni svokölluðu yfir í órólegu deildina þannig að hver og einn getur fundið sér sinn stað.
“Það er bara að mæta!” segir Ívar og brosir enda er það viðurkennt að hjá Laugaskokki eru öll velkomin.