birt 11. maí 2017

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum hlaupa og annarrar krefjandi líkamsræktar á starfsemi heilans. Sjálfsagt velkjast fáir hlauparar í vafa um að þessi áhrif séu mikil og góð, hvað sem öllum rannsóknum líður. Og tilfellið er að vísindamenn eru sama sinnis. Þessi jákvæðu áhrif eru margvísleg, allt frá því að sporna gegn þunglyndi og bæta minni, til þess að fækka mígreniköstum og hægja á Alzheimer sjúkdómnum. Og þessi áhrif geta meira að segja verið býsna varanleg.

Heilinn minnkar hægar þegar þar að kemur

Í rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Neurology 2016 kom fram að heilar fólks sem var í lélegu formi á miðjum aldri voru að jafnaði nokkru minni 20 árum síðar en heilar fólks sem hafði verið í betra formi. Heilar skreppa saman með aldrinum og eftir því sem rýrnunin er meiri aukast líkur á minnistapi og heilabilun. Niðurstöður rannsóknarinnar þykja benda til að fólk sem stundar reglulega líkamsrækt geti hægt á þessari þróun sem nemur einu til tveimur árum að meðaltali. (8) Þetta tengist væntanlega greiðara blóðflæði til heila eftir því sem hjarta- og æðakerfi er í betra standi, en fleiri þættir kunna að koma þarna við sögu.

Aukin vitsmunaleg færni og betra minni

Í rannsókn sem vísindamenn við Háskólann í Illinois gerðu á rottum var athugað hvaða áhrif mismunandi örvun hefði á færni dýranna til að leysa tiltekna þraut. Sum dýrin fengu sérlega hollan og bragðgóðan mat í tiltekinn tíma, önnur fengu að spreyta sig á „þroskaleikföngum" og enn önnur voru sett í búr með hlaupahjóli, auk þess sem prófaðar voru mismunandi samsetningar þessara örvunaraðferða. Í ljós kom að hlaupahjólið var eina tækið sem jók vitsmunalega færni dýranna. (6) Þetta kemur reyndar heim og saman við það sem menn hefur lengi grunað að hægt sé að styrkja heilann og bæta minnið meira með reglulegri líkamsrækt en með hugarleikfimi. Hins vegar vita menn fremur lítið um hvernig þetta gerist. Nýlegar rannsóknir á músum benda þó til að próteinið cathepsin B (CTSB) komi þarna við sögu, en það myndast í vöðvum við áreynslu. Genabreyting sem kemur í veg fyrir myndun CTSB virðist rjúfa þessi tengsl milli líkamsræktar og betra minnis. (3)

Alzheimer þróast hægar

Ýmsar rannsóknir benda til að reglulegar hlaupaæfingar seinki þróun Alzheimer sjúkdómsins. Þetta er reyndar erfitt að mæla þar sem einkenni sjúkdómsins eru mörg og breytileg eftir einstaklingum. Einn mælikvarði er þó magn svonefnds Tau-próteins í taugafrumum. Styrkur próteinsins hækkar eftir því sem fólk eldist, en hækkunin er mun meiri í fólki með Alzheimer en í öðrum. Dr. Laura D. Baker við Wake Forest læknaskólann hefur sýnt fram á að regluleg líkamsrækt getur lækkað styrkinn á Tau, en enn hefur ekki fundist neitt lyf sem hefur þessa virkni, í það minnsta ekki lyf sem fengist hefur leyfi fyrir. (1) Rétt er þó að undirstrika að hlaup geta ekki fyrirbyggt sjúkdóminn eða stöðvað framgang hans, heldur einungis frestað honum og aukið lífsgæði og færni þeirra sem glíma við hann.

Svar við MS?

Svo virðist sem tiltekinn vaxtarþáttur (VGF) sem líkaminn framleiðir á hlaupum geti átt þátt í að lagfæra skemmdir í einangrun utan á taugafrumum. Talið er að þessi uppgötvun geti nýst í meðferð gegn MS og fleiri sjúkdómum sem tengjast skemmdum í einangrun tauga. (7,9)

Gegn þunglyndi og kvíða

Margir hafa það eflaust á tilfinningunni að hlaup vinni gegn þunglyndi og rannsóknir benda einmitt til að svo sé. Fyrir þessu geta verið ýmsar ástæður og ef marka má dýrarannsókn, sem gerð var við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, tengist ein þeirra efninu kýnúrenín sem myndast í lifrinni í streituástandi og getur borist þaðan upp í heila og aukið líkur á þunglyndi. Við líkamlega áreynslu myndast tiltekið efni í vöðvum sem breytir kýnúreníni í kýnúrensýru sem kemst ekki inn í heilann og hefur því ekki þessi áhrif. (4) Rannsóknir benda einnig til að hlaup séu til þess fallin að draga úr kvíða. Mikill kvíði birtist gjarnan í hraðari hjartslætti, svita og svimatilfinningu og í versta falli verður kvíðinn að óviðráðanlegu skelfingarástandi. Vísindamenn við Southern Methodist háskólann í Dallas settu fram þá tilgátu að með því að kalla fram hraðan hjartslátt og svita með líkamlegri áherslu væri hægt að tengja þessi einkenni við öryggi í stað hættu og þannig myndi líkamsræktin hjálpa til við að draga úr kvíðanum. Rannsókn þeirra á 60 sjálfboðaliðum sem allir glímdu við kvíðaröskun studdi þessa tilgátu. Sá hluti hópsins sem tók þátt í tveggja vikna líkamsræktarátaki sýndi marktækar framfarir í því að fást við kvíðavaldandi aðstæður miðað við samanburðarhóp sem stundaði ekki líkamsrækt. (5)

Viðheldur sjón og heyrn og dregur úr mígreni

Rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Mayo Clinic Proceedings 2013, bendir til að fólk sem stundar reglulega líkamsrækt sé líklegra til að halda góðri sjón og heyrn en fólk sem hreyfir sig lítið. (10) Líkamsrækt bætir blóðflæði til líffæra, sem þýðir m.a. að frumur í augum og eyrum fá meiri næringu en ella og halda virkni sinni betur. Þá má nefna að vísindamenn við Háskólann í Gautaborg komust að því að mígreniköstum fækkaði hjá fólki sem hóf að stunda reglulega líkamsrækt í 40 mínútur í senn, þrisvar í viku á þriggja mánaða tímabili. (2)

Á þetta bara við um hlaup?

Rétt er að taka fram að allt það sem hér hefur verið sagt gildir líka um aðra líkamsrækt en hlaup, að því tilskyldu að hún reyni verulega á líkamann með tilheyrandi hjartslætti og svita, að hún sé stunduð nógu oft og standi yfir í drjúgan tíma í senn (30-45 mín). Og svo er líka rétt að taka fram að hér hafa aðeins verið nefndar örfáar rannsóknir af fjölmörgum sem benda eindregið til að hlaup og önnur sambærileg líkamsrækt hressi verulega upp á starfsemi heilans.

Efnisflokkur: Heilsa

Heimildir:

  1. Alison Wade (2015): Exercise May Be the Best Weapon Against Alzheimer''s. Runners´ World, 15. desember 2015. http://www.runnersworld.com/health/exercise-may-be-the-best-weapon-against-alzheimers.
  2. Emma Varkey o.fl. (2011): Exercise as migraine prophylaxis: A randomized study using relaxation and topiramate as controls. Cephalalgia, 2. september.
  3. Hyo Youl Moon o.fl. (2016): Running-Induced Systemic Cathepsin B Secretion Is Associated with Memory Function. Cell Metabolism. Volume 24, Issue 2, 9. ágúst 2016, (bls. 332-340). http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S1550413116302479.
  4. Karolinska institutet (2014): How physical exercise protects the brain from stress-induced depression. Fréttatilkynning 26. september 2014. http://ki.se/en/news/how-physical-exercise-protects-the-brain-from-stress-induced-depression.
  5. Kirsten Weir (2011): The exercise effect. Monitor of Pscychology, December 2011, Vol 42, No. 11. http://www.apa.org/monitor/2011/12/exercise.aspx.
  6. Martina L. Mustroph o.fl. (2012): Aerobic exercise is the critical variable in an enriched environment that increases hippocampal neurogenesis and water maze learning in male C57BL/6J mice. Neuroscience. 2012 Sep 6; 219: (bls. 62-71). https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3402695.
  7. Matías Alvarez-Saavedra o.fl. (2016): Voluntary Running Triggers VGF-Mediated Oligodendrogenesis to Prolong the Lifespan of Snf2h-Null Ataxic Mice. Cell Reports, Volume 17, Issue 3, 11. okóber 2016, (bls. 862-875). http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S2211124716312529.
  8. Nicole L. Spartano o.fl. (2016): Midlife exercise blood pressure, heart rate, and fitness relate to brain volume 2 decades later. Neurology April 5, 2016 vol. 86 no. 14, (bls. 1313-1319). http://www.neurology.org/content/86/14/1313.
  9. Ottawa Hospital Research Institute (2016): Running triggers production of a molecule that repairs the brain in animal models of neurodegenerative disease. Frétt á heimasíðu 11. október 2016. http://www.ohri.ca/newsroom/newsstory.asp?ID=848.
  10. Paul D. Loprinzi o.fl. (2013): Accelerometer-Assessed Physical Activity and Objectively Determined Dual Sensory Impairment in US Adults. Mayo Clinic Proceedings, Volume 88, Issue 7, July 2013. (Bls. 690-696). http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0025619613002681.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.