New York maraþonið er alltaf sögulegt og í þeim efnum var hlaupið sem fram fór sunnudaginn 4. nóvember sl. engin undantekning. Fréttirnar af þessu hlaupi snúast ekki bara um sigurvegarana, heldur líka um negatív splitt, um góða frammistöðu heimamanna, um forseta og lífverði og um 52.812 manneskjur sem allar náðu langþráðu markmiði þennan dag.
Afskaplega „negatívt splitt"
Flestir maraþonhlauparar kannast við hugtakið „negatívt splitt", sem þýðir að síðari helmingur hlaupsins er hraðari en sá fyrri. Fáir hafa samt náð eins langt í þessu og Mary Keitany þegar hún vann New York maraþonið á dögunum í 4. sinn á 5 árum. Mary hafði sig lítið frammi í fyrri hluta hlaupsins og lét sér nægja að fylgja fyrstu konum eftir.Tíminn eftir hálft maraþon var 1:15:50 klst, sem benti svo sem ekki til að nein met yrðu slegin í hlaupinu. En þegar 25 km markið nálgaðist bætti hún svo hressilega í að enginn af keppinautunum átti minnsta möguleika á að fylgja henni.
Tíminn á 10 km kaflanum frá 25-35 km var 30:53 mín, en til að setja þann tíma í eitthvert samhengi má nefna að á þessu ári hafa aðeins 4 konur í heiminum náð betri tíma og sjálf á Mary best 30:41 mín í 10 km hlaupi einu og sér.
Eftir þetta þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Mary kom langfyrst í mark á 2:22:48 klst, rúmum 3 mín. á undan næstu konu. Seinni helmingurinn var sem sagt hlaupinn á 1:06:58 klst, þ.e. nærri 9 mín hraðar en sá fyrri. Þessi tími er ekki nema 2 mín. lakari en Mary á best í hálfu maraþoni! Og þegar upp var staðið vantaði hana ekki nema 17 sek. upp á 15 ára gamalt brautarmet Margaret Okayo. Mary Keitany telst án nokkurs vafa ein af bestu maraþonhlaupurum sögunnar. Auk fjölmargra sigra í maraþonhlaupum á hún „heimsmetið í karlmannslausu maraþonhlaupi", 2:17:01 klst. frá því í London 2017. Engin nema Paula Radcliff hefur náð betri tíma (2:15:25 klst).
Eþíópískur endasprettur
Karlahlaupið þróaðist allt öðru vísi en kvennahlaupið. Þar kom Eþíópíumaðurinn Lelisa Desisa í mark 2 sek. á undan landa sínum Shura Kitata á 2:05:59 klst. eftir mikinn endasprett þeirra félaga sem aðrir áttu ekkert svar við. Lelisa Desisa er enginn nýgræðingur í götuhlaupum, þó að hann sé aðeins 28 ára gamall. Hann hefur hins vegar oft staðið í skugganum af stærstu nöfnum samtímans í maraþonheiminum. Shura Kitata á styttri feril að baki, enda er hann aðeins 22ja ára gamall. Hann er samt hreint enginn byrjandi, sem sést m.a. á því að í fyrra vann hann bæði Rómarmaraþonið og Frankfurtmaraþonið.
Þessir félagar skipa 30. og 33. sætið á heimsafrekaskránni í maraþonhlaupi frá upphafi. Sú skrá er frekar einsleit, ef svo má segja, en þar einoka Eþíópíumenn og Kenýubúar 46 efstu sætin. Bretinn Mo Farah skaust upp í 47. sætið þegar hann setti Evrópumet í Chicago á dögunum (2:05:11 klst).
Sterkir Bandaríkjamenn
Heimamenn létu meira að sér kveða í New York maraþoninu á dögunum en oftast áður. Þar ber hæst árangur Shalane Flanagan sem fylgdi eftirminnilegum sigri í New York í fyrra eftir með því að komast aftur á pall. Í þetta skiptið fékk hún bronsið eftir hafa hlaupið á 2:26:22 klst. Af 20 fyrstu konum voru 13 bandarískar, þar af fjórar á betri tíma en 2:30 klst. Og í karlahlaupinu áttu Bandaríkjamenn 12 af fyrstu 20. Þeirra fremstur var tölfræðimeistarinn Jared Ward á 2:12:24 klst.
Aldrei of seint að byrja
Bandaríkjamaðurinn sem lenti í 18. sæti í New York maraþoninu fékk meiri athygli en flestir aðrir í hlaupinu, og það ekki að ósekju. Þetta var nefnilega hin tæplega 44ja ára gamla goðsögn Bernard Lagat sem var þarna að hlaupa sitt fyrsta maraþonhlaup. Lagat á ótrúlegan feril að baki í brautarhlaupum. Verðlaunasafnið hans inniheldur hvorki meira né minna en 13 verðlaunapeninga frá heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum, þ.á m. 5 gullpeninga. Hann á bandarísku metin í 1.500 m hlaupi og míluhlaupi innanhúss og í 1.500 m, 3.000 m og 5.000 m hlaupi utanhúss, auk þess sem hann á Kenýamet í 1.500 m hlaupi, sem jafnframt er næst besti tími sögunnar á þeirri vegalengd (3:26,34 mín). Þetta var í Brussel 2001. Síðan eru liðin 17 ár!
Árangur Lagats í New York var reyndar undir eigin væntingum. Markmið hans var að bæta Bandaríkjamet Meb Keflezighis í flokki 40-44 ára en það er 2:12:21 klst. Fyrri hluti hlaupsins gekk að óskum og millitíminn eftir hálft maraþon var 1:06:06 klst. Upp úr því tók að hægjast á kappanum og lokatíminn varð 2:17:20 klst. En þetta var líka bara fyrsta hlaupið. „Aldur er bara tala" eins og Lagat hefur sjálfur sagt. Hann á nóg eftir.
Hinn hlaupandi forseti. Skyldi Guðna Th. dreyma um New York?Einn forseti og tveir lífverðirLeyniþjónustumenn eiga misnáðuga daga á skrifstofunni. Dæmi um þetta eru þeir félagar Mason Brayman og Bill Uher sem báðir starfa fyrir bandarísku leyniþjónustuna og hafa þar það hlutverk að gæta erlendra þjóðhöfðingja sem sækja landið heim. Sunnudaginn 4. nóvember fólst vinnan þeirra í að tryggja öryggi forseta Eistlands, Kersti Kaljulaid, en hún var ein þeirra sem hlupu New York maraþonið þennan dag.Lokatíminn hennar var 4:02:40 klst. - og þó að það sé enginn heimsmetstími fer því fjarri að hvaða skrifstofumaður sem er geti náð honum upp úr þurru, allra síst ef hann þarf að hafa öryggisbúnað meðferðis og vera viðbúinn alls konar uppákomum og neyðarástandi.
Það vill reyndar svo vel til að þessir tveir höfðu skokkað þessa vegalengd áður, annar 56 sinnum og hinn 28 sinnum. Og öll komust þau á leiðarenda vandræðalaust.
Stærsta maraþonhlaup sögunnar
Samtals skiluðu 52.812 hlauparar frá 129 löndum sér yfir marklínuna í New York á dögunum og þar með varð hlaupið fjölmennasta maraþonhlaup sögunnar. Fyrra metið átti New York maraþonið 2016 sem 51.388 manns tókst að ljúka. Þau maraþonhlaup sem komast næst New York hvað þetta varðar eru Chicago maraþonið þar sem þátttakendafjöldinn hefur farið vel yfir 44.000 og Parísarmaraþonið sem hefur komist vel yfir 42.000.
Efnisflokkur: Keppnishlaup
Heimildir og lesefni:
Byggt á allmörgum fréttum og greinum af heimasíðu New York maraþonsins (https://www.tcsnycmarathon.org), Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (https://www.iaaf.org) og Runner‘s World (https://www.runnersworld.com).
Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.