Hvað má hlaupa mörg maraþon á einu ári ?

uppfært 25. janúar 2022

Í hlaupaheiminum, rétt eins og í öðrum heimum, eru á hverjum tíma uppi ýmsar „viðteknar skoðanir“ eða grunnreglur, sem eiga það sameiginlegt að manni refsast fyrir að brjóta þær. Eða svo er manni alla vega sagt. En þessum grunnreglum fækkar jafnt og þétt, því að margar þeirra hafa einhvern tímann verið brotnar svo rækilega að þær hættu að vera grunnreglur, oft fyrir tilstuðlan einstaklinga sem nenntu ekki að láta segja sér fyrir verkum.

Eru maraþon hættuleg fyrir gamalt fólk?

Einu sinni var það t.d. viðtekin skoðun eða grunnregla að maraþonhlaup væru hættuleg fyrir eldra fólk, t.d. fólk sem komið var yfir fertugt. Mér er sagt að þessi umræða hafi m.a. komið upp sumarið 1968 eftir að Jón heitinn Guðlaugsson varð fyrstur Íslendinga til að ljúka formlegri keppni í maraþonhlaupi, þá nýorðinn 42ja ára. Þessi grunnregla var löngu gleymd þegar Jón hljóp sitt síðasta maraþon u.þ.b. 46 árum síðar.

Eru maraþon hættuleg fyrir konur?

Einhvern tímann þótti það alveg út í hött að konur tækju þátt í maraþonhlaupum. Þá grunnreglu braut Kathrine Switzer eftirminnilega árið 1967 og nú þykir þátttaka kvenna ekki í frásögur færandi, alla vega ekki í þeim heimshluta sem við þekkjum best.

Eru hægt að hlaupa lengra en 42,2 km?

Mig rámar í að hafa heyrt að maraþonvegalengdin væri á mörkum mannlegrar getu og allt umfram það væri allt að því ógerlegt. Hafi þetta verið grunnregla hefur hún gjörsamlega þurrkast út á síðustu árum. Hérlendis á Gunnlaugur A. Júlíusson sinn þátt í að útvíkka þessi mörk, því að allt í einu var þessi tiltölulega venjulegi skrifstofumaður með lítinn íþróttabakgrunn farinn að hlaupa 100 km eins og ekkert væri, já og jafnvel 200 km, ef ekki 300 eða 400. Árið 2000 höfðu tveir Íslendingar lokið 100 km hlaupi ef mér skjátlast ekki, árið 2005 var talan komin upp í 7 – og núna hafa hvorki meira né minna en 189 manns öðlast rétt til inngöngu í Félag 100 km hlaupara. Þar af hafa 29 hlaupið 100 mílur (161 km) eða lengra!

Er bannað að hlaupa fleiri en tvö maraþon á ári?

Ein grunnregla sem mér var einhvern tímann kennd var að maður ætti alls ekki að hlaupa fleiri en tvö maraþon á ári. Ég hef aldrei tekið þessa reglu mjög hátíðlega, en gert ráð fyrir að hún gæti átt við heimsklassahlaupara þar sem barist er um sekúndubrot í hverju hlaupi, en ekki um korter eða hálftíma eins og væri nær lagi í mínu tilviki. Og ég hef tekið eftir því að bestu hlauparar í heimi hafa gjarnan látið duga að taka eitt gott maraþon að vori og annað að hausti. Kannski ruglaði Covid-19 þetta skipulag eitthvað. Alla vega lét Peres Jepchirchir sem vann maraþon kvenna á Ólympíuleikunum í sumar (2:27:20 klst) sig ekki muna um að vinna líka New York maraþonið nákvæmlega þremur mánuðum seinna (2:22:39 klst). Molly Seidel var líka með í báðum þessum hlaupum; fékk brons í Japan og varð fjórða í New York. Hjá silfurverðlaunahafanum í Sapporo, Brigid Kosgei, leið enn skemmri tími á milli hlaupa. Hún hljóp á 2:27:36 klst í Japan 7. ágúst og var aftur mætt til leiks í London 3. október, þar sem hún náði 4. sæti í mjög hröðu hlaupi á 2:18:40 klst. Þar liðu bara 57 dagar á milli hlaupa.

Og hjá Kenenisa Bekele leið enn styttri tími (42 dagar) á milli Berlínarmaraþonsins 26. september (2:06:47 klst) og New York maraþonsins 7. nóvember (2:12:52 klst). Enn má nefna þá Abdi Nageeye frá Hollandi sem vann silfur í maraþoninu á Ólympíuleikunum í sumar (2:09:58 klst) og bronsverðlaunahafann Bashir Abdi frá Belgíu (2:10:00 klst). Báðir létu sig hafa það að keppa aftur í haust, jafnvel þótt Ólympíuhlaupið í Sapporo hafi farið fram 8. ágúst. Bashir Abdi gerði sér þannig lítið fyrir og bætti Evrópumetið í Rotterdam 24. október, aðeins 77 dögum eftir Ólympíuhlaupið. Og tíminn var hreint ekki slakur, 2:03:36 klst, sem færði hann upp í 13.-14. sæti á heimsafrekaskránni frá upphafi. Abdi Nageeye varð fimmti í New York maraþoninu 7. nóvember (2:11:39 klst). j

Fólkið sem hér hefur verið nefnt eru augljóslega heimsklassahlauparar sem komast ekkert upp með að skokka bara þennan spotta til að spara sig fyrir næsta hlaup. Hér snýst þetta sem sagt um 5 af 6 verðlaunahöfum á Ólympíuleikunum. Sá sjötti, sjálfur Eliud Kipchoge sleppti hins vegar hausthlaupunum. Þegar hann hljóp til sigurs í Sapporo voru líka ekki liðnir nema tæpir fjórir mánuðir frá sigri í Enschede (2:04:30 klst).

Shalane þáttur Flanagan

Finnist manni dæmin hér að framan ekki duga til að eyðileggja grunnregluna um eitt maraþon að vori og eitt að hausti að hámarki, þá er ekki úr vegi að skoða dagbókina hennar Shalane Flanagan frá því í haust. Hún hætti reyndar að keppa sem atvinnumaður haustið 2019, tveimur árum eftir afar eftirminnilegan sigur í New York maraþoninu. Þá var hún 38 ára og gat stolt dregið sig í hlé eftir 15 ár í atvinnumennsku, snúið sér að þjálfun og haldið áfram með feril sinn sem höfundur matreiðslubóka. En hún hélt auðvitað eitthvað áfram að skokka, svona sér til skemmtunar og heilsubótar.

Í upphafi síðasta árs sagði Shalane Flanagan í fyrsta sinn frá þeirri hugmynd sinni að ljúka öllum sex World Marathon Majors hlaupunum á einu ári, ekki vegna þess að hún þyrfti að sanna eitthvað fyrir einhverjum, heldur vegna þess að það að setja sér krefjandi markmið var hennar leið til að finna gleðina eftir tvær skurðaðgerðir á hné og andlega og líkamlega dýfu í heimsfaraldrinum. Í venjulega ári hefðu þrjú af þessum sex hlaupum verið haldin að vori (Tókýó, London og Boston) og þrjú að hausti (Berlín, Chicago og New York), en vegna Covid voru þau öll haldin sl. haust – og reyndar var Tókýó-hlaupið bara sýndarhlaup. Verkefnið sem Shalane Flanagan stóð frammi fyrir var sem sagt að hlaupa sex maraþon á sex vikum. En hún var auðvitað ekkert að hugsa um verðlaunasæti, enda hætt að spá í svoleiðis. Markmiðið var bara að klára öll þessi hlaup, já og fyrst hún væri að þessu á annað borð vildi hún geta hlaupið þau öll undir 3 klst, (enda vön tímum í kringum 2:25 klst (best 2:21:14 klst í Berlín 2014)).

Til að gera langa sögu stutta náði Shalane markmiði sínu og vel það. Fjórum sinnum var tíminn undir 2:40 klst og lakasti tíminn var 2:46:39 í Chicago 10. október. Stærsta afrekið í öllu þessu ferli var þó líklega þegar hún hljóp Boston maraþonið á 2:40:34 klst daginn eftir hlaupið í Chicago! Árangur hennar í hlaupunum sex var annars sem hér segir:

Dags.Dagar síðan síðastStaðurTími (klst)
26.9.2021Berlín02:38:32
3.10.20217London02:35:04
10.10.20217Chicago02:46:39
11.10.20211Boston02:40:34
18.10.20217Oregon/Tókýó02:35:14
7.11.202120New York02:33:32

Lokaorð

Boðskapur þessa pistils er í stuttu máli sá að okkur hættir til að vanmeta eigin getu. Ekkert gerist af sjálfu sér, en fátt er ómögulegt. Það má t.d. alveg hlaupa fleiri en tvö maraþon sama árið.

Heimildir

Þessi samantekt er byggð á ýmsum heimildum og fréttapistlum, upplýsingasíðum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF), heimasíðum maraþonhlaupa, upplýsingum frá Félagi 100 km hlaupara – og síðast en ekki síst á Instagramsíðu Shalane Flanagan. Mynd með grein einnig fengin af Instagram síður Shalane Flanagan.