Fyrir svo sem þremur árum könnuðust líklega fáir lesendur hlaup.is við nafnið Joshua Cheptegei. En nú á þessi drengur allt í einu heimsmetið í 5 km götuhlaupi, auk heimsmetanna í bæði 5.000 og 10.000 m brautarhlaupum. Tvö þau síðarnefndu voru þó ekki vistuð hjá neinum meðalmanni. Eþíópíumaðurinn Kenenisa Bekele átti jú bæði þessi met, annað þeirra var orðið 15 ára gamalt og hitt 16 ára. Og þar áður átti Haile Gebrselassie þau bæði.
Þegar nýir einstaklingar skjótast á toppinn í íþróttum veltir maður því stundum fyrir sér hvort ný stjarna sé fædd eða hvort þetta sé einhvers konar tilviljun – og síðan ekki söguna meir. Reyndar er ljóst að enginn setur heimsmet í langhlaupum af tilviljun, jafnvel þótt nóg sé af meðfæddum hæfileikum. En samt er það einhvern veginn þannig að sumir verða stjörnur sem skrá nöfn sín nánast óafmáanlega á spjöld sögunnar á meðan nöfn annarra gleymast furðu fljótt þegar frá líður. Kenenisa Bekele og Haile Gebrselassie tilheyra vafalítið fyrri flokknum, en hversu margir lesendur muna t.d. eftir Yobes Ondieki og William Sigei? Þetta voru samt engir aukvisar, áttu báðir heimsmetið í 10.000 m hlaupi um tíma á síðasta áratug 20. aldar. Sá fyrrnefndi var meira segja fyrstur allra til að brjóta 27 mínútna múrinn á þessari vegalengd!
En hvað skilur þá á milli? Hvað þarf til að menn verði stjörnur sem lengi verða í minnum hafðar? Ef það er rétt hjá mér að fáir muni í fljótu bragði eftir Yobes Ondieki, þá dugar greinilega ekki að setja heimsmet. Líklega snýst þetta um marga þætti. Einn þeirra er vafalítið varanleikinn, þ.e. hvort viðkomandi hafi haldið sér á toppnum árum saman eða bara átt eitt gott tímabil. Annar þáttur er líklega útgeislunin, þ.e. hvort þessi einstaklingur hafi eða hafi ekki þetta „eitthvað“ sem skilur á milli þeirra sem allir taka eftir og hinna sem hverfa í fjöldann. Þetta „eitthvað“ tengist líklega m.a. ásýnd og framkomu. Þar hjálpar trúlega að vera ófeiminn, vel máli farinn og jafnvel þokkalegur tungumálamaður – og svo skiptir líka máli að gefa af sér, vera félagslyndur, miðla öðrum af reynslu sinni, sýna öðrum virðingu og hvetja þá til dáða. Nú til dags er frammistaðan á samfélagsmiðlum líka eitt atriðið. Loks er hógværð líka hluti af þessari mynd, þó að vissulega séu til „íþróttastjörnur“ sem fara sparlega með hógværðina. Kannski fer það eitthvað eftir íþróttagreinum.
Spurning dagsins er sem sagt þessi: Mun nafn Joshua Cheptegei festast á spjöldum sögunnar eða mun það fljótlega mást okkur úr minni og tapa merkingu sinni nema fyrir þá örfáu sem kunna frjálsíþróttasöguna utan að? Er Joshua Cheptegei með öðrum orðum ný stjarna, eða bara ljós sem lýsir eina kvöldstund? Mun hann áfram standa upp úr fjöldanum eða verður hann fljótlega bara einn af þessum 452 Afríkumönnum sem flestir virðast heita svipuðum nöfnum og hafa allir hlaupið 10.000 m á braut undir 28 mínútum (miðað við afrekaskrána að kvöldi 10. október 2020)?
Bakgrunnurinn
Joshua Kiprui Cheptegei fæddist 12. september 1996 í fjallaþorpinu Kapsewui í Kapchorwa-héraðinu í Úganda. Hann spilaði fótbolta í grunnskóla og prófaði líka fleiri íþróttir, en fljótlega kom í ljós að hann bjó yfir miklum hæfileikum sem langhlaupari. Það er reyndar ekkert óvenjulegt á þessum slóðum, enda eru íbúar Kapchorwa náskyldir þeim ættbálkum í Kenýu sem hafa gefið af sér hvað flesta afreksmenn í langhlaupum. Kapchorwa er einmitt norðvestan í Elgon-fjallinu á landamærum Úganda og Kenýa. Þessi landamæri réðust á sínum tíma af hentugleikum nýlenduherra í Evrópu en ekki af raunverulegum mun á þjóðerni eða menningu fólksins sem bjó sitt hvorum megin í fjallinu. Þess má geta í þessu sambandi að Stephen Kiprotich, Úgandamaðurinn sem vann Ólympíugullið í maraþonhlaupi á leikunum í London 2012 og varð heimsmeistari í sömu grein árið eftir, er einmitt líka frá Kapchorwa.
Alþjóðlega sviðið
Ég hef lítið fundið af heimildum um hlaupaafrek Joshua Cheptegei fyrstu árin, en hann lét fyrst verulega að sér kveða á alþjóðlega sviðinu þegar hann varð heimsmeistari unglinga í 10.000 m hlaupi 18 ára gamall árið 2014. Þar hljóp hann á 28:33 mín – og varð svo fjórði í 5.000 m á 13:33 mín. Ári síðar (2015) varð hann níundi á heimsmeistaramóti fullorðinna á 27:49 mín. og það ár vann hann líka Zevenheuvelenloop (Sjöhæðahlaupið) í Nijmegen í Hollandi (15 km) á 42:39 mín. Þessi sigur var sá fyrsti af fjórum í röð – og í fjórða skiptið (2018) setti hann óopinbert heimsmet þegar hann hljóp þessa 15 km á 41:05 mín. Sjálfur segir hann að Zevenheuvelenhlaupin hafi mótað hann sem heimsklassahlaupara.
Árið sem Cheptegei varð tvítugur (2016) náði hann 8. sæti í 5.000 m á Ólympíuleikunum í Ríó á 13:09 mín og 6. sæti í 10.000 m á 27:10 mín. Fyrstu verðlaunin á stórmóti í flokki fullorðinna komu svo á heimsmeistaramótinu í London 2017 þar sem hann náði silfrinu á 26:49,94 mín, 0,4 sek á eftir Mo Farah. Þar með var hann orðinn einn af 20 bestu 10.000 m hlaupurum sögunnar – og ekki einu sinni orðinn 21 árs. Síðan þá hafa gullpeningarnir safnast upp og á síðasta ári varð hann t.d. bæði heimsmeistari í 10 km víðavangshlaupi og í 10.000 m hlaupi.
Fyrsta heimsmet Joshua Cheptegei, að 15 kílómetrunum frátöldum, leit dagsins ljós í Valencia á Spáni 1. desember 2019 þegar hann bætti 9 ára gamalt met Leonard Komon í 10 km götuhlaupi um 6 sekúndur, niður í 26:38 mín. Það met stóð reyndar ekki lengi, því að Kenýumaðurinn Rhonex Kipruto færði það niður í 26:24 mín. aðeins 6 vikum síðar.
Sigurgangan 2020
Ári 2020 hefur verið óvenjulegt fyrir margra hluta sakir og flestum stærri frjálsíþróttamótum og götuhlaupum hefur verið frestað eða aflýst. Þetta endurspeglast m.a. í því að það sem af er þessu ári hefur Joshua Cheptegei aðeins hlaupið þrjú keppnishlaup. En hann setti líka heimsmet í þeim öllum. Fyrst féll metið í 5 km götuhlaupi í Mónakó í febrúar, 12:51 mín. Fram að þeim tíma hafði götuhlaupið aldrei verið hlaupið undir 13 mín. Á demantamóti í Mónakó í ágúst tók hann svo heimsmet Kenenisa Bekele í 5.000 m hlaupi þegar hann hljóp á 12:35;36 mín og loks féll met Bekele í 10.000 metrunum í Valencia á dögunum, 26:11:00 mín.
Stjarna eða ekki stjarna?
Upptalningin hér að framan sýnir að Joshua Cheptegei er enginn meðalmaður. En samt er of snemmt að segja til um hversu fast nafn hans verður skráð á spjöld sögunnar. Mun hann t.d. verða goðsögn á borð við Kenenisa Bekele eða Eliud Kipchoge, svo nefnd séu tvö nöfn úr samtímanum? Mig grunar í öllu falli að hans verði lengi minnst – og sjónvarpsviðtöl eftir hlaupið í Valencia eiga sinn þátt í að sannfæra mig um það. Cheptegei er greinilega vel máli farinn, góður enskumaður, hógvær og þaulskipulagður með skýr markmið. Kannski skiptir menntun ekki öllu máli í þessum stjörnupælingum, en Cheptegei hefur stundað háskólanám í bókmenntum og tungumálum. Það spillir örugglega ekki fyrir. Svo segir líka sína sögu að hann hefur látið málefni heimabyggðarinnar til sín taka, m.a. með baráttu sinni gegn kynfæralimlestingum kvenna sem eru útbreiddar í austanverðu Úganda.
Joshua Cheptegei hefur sjálfur sagt að Bekele og Kipchoge séu hans helstu fyrirmyndir – og svo hefur hann líka sótt innblástur í bækur á borð við Grit (Tögg) eftir bandaríska sálfræðinginn Angelu Duckworth, þar sem sett er fram sú kenning að leyndardómurinn á bak við framúrskarandi árangur liggi ekki í hæfileikunum, heldur í sérstakra blöndu af ástríðu og þrautseigju, þ.e.a.s. því sem Angela kallar tögg (e. grit).
Næsta stóra vísbending um stöðu Joshua Cheptegei á „stjörnuhimninum“ fæst í frumraun hans í hálfu maraþoni á heimsmeistaramótinu í Gdynia á laugardaginn (17. október). Þar eru 157 karlar skráðir til leiks, þar af 15 sem hafa hlaupið vegalengdina undir 1 klst. Svo verða vonandi haldnir Ólympíuleikar á næsta ári.
Efnisflokkur: Keppnishlaup
Heimildir:
Byggt á upplýsingum og fjölda greina á vefsíðum Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF), Runner‘s World, Olympic Channel og víðar, að ógleymdri Instagramsíðu Joshua Cheptegei, þ.á m. eftirtöldum heimildum:
- Evelyn Watta (2020a): Joshua Cheptegei: Six things you didn't know. Olympic Channel, 15. ágúst 2020. https://www.olympicchannel.com/en/stories/news/detail/joshua-cheptegei-six-things-you-didn-t-know.
- Evelyn Watta (2020b): Unlocking the secrets of world 5000m record holder Joshua Cheptegei. Olympic Channel, 8. september 2020. https://www.olympicchannel.com/en/stories/features/detail/exclusive-interview-world-5000m-record-holder-joshua-cheptegei-inspiration.