Hver verður drottningin? (eða: Hvernig stillir maður sjónvarpið á sunnudaginn?)

uppfært 02. desember 2022

Líklega eru flestir sammála um að Eliud Kipchoge sé maraþonkóngur samtímans, en hjá konunum er ekki eins augljóst hver trónir á toppnum. Nafnið Brigid Kosgei kemur líklega fyrst upp í hugann en síðustu tvö ár hafa svo margar hlaupakonur tekið sér stöðu í efstu sætum heimslistans að e.t.v. er stutt í að einhver stífla bresti og nýtt nafn verði skráð á bls. 1 í maraþonsögunni. Í þessum pistli mínum ætla ég að reyna að spá fyrir um hvaða nafn það gæti orðið, þ.e.a.s. hver verði „drottningin“.

Frá upphafi hafa 58 konur hlaupið maraþonhlaup undir 2:20 klst – og þar af hvorki fleiri né færri en 22 á þessu ári. Sé einhver ný „drottning“ að vaxa upp er alls ekki ólíklegt að hún sé í þeim hópi, en svo eru líka dæmi um ótrúlega góðan árangur maraþonkvenna í fyrsta hlaupi. Á þessu ári hafa t.d. tvær ungar konur hlaupið á 2:17 klst í sínu fyrsta hlaupi.

Í þessari spámannsæfingu minni ætlaði ég upphaflega að velja fimm nöfn af „undir-2:20-lista“ ársins  og reyna svo að færa rök fyrir því að „drottningin“ væri ein af þeim. En fljótlega komst ég á þá skoðun að fimm væri ekki nóg, sjö væri algjört lágmark. Og reyndar koma mun fleiri til greina. Til dæmis komst Eþíópíukonan Gotytom Gebreslase ekki á 7 kvenna listann minn, þrátt fyrir að hún sé þessa stundina efst í styrkleikalista Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Í umfjölluninni hér að framan er konunum sjö raðað eftir árangri (frá upphafi), en meginniðurstaðan kemur svo þar á eftir, ef einhver verður.

1. Brigid Kosgei (Kenía)
  • Fædd 20. febrúar 1994
  • Fjöldi maraþonhlaupa: A.m.k. 16
  • Besti tími: 2:14:04 klst, Chicago 13. okt. 2019 (gildandi heimsmet)
  • Staða á afrekaskrá frá upphafi: Nr. 1

Brigid Kosgei byrjaði að æfa hlaup 17 ára en hefur aldrei látið mikið til sín taka í brautarhlaupum. Fyrsta maraþonhlaupið hennar sem ég fann heimildir um í fljótu bragði var í Porto 2015, þar sem hún kom fyrst í mark á 2:48 klst. Síðan þá hefur hún hlaupið 2-3 maraþon ári og bætt sig jafnt og þétt. Árið 2018 hljóp hún í fyrsta sinn undir 2:20 klst, þegar hún vann Chicagomaraþonið á 2:18:35 klst. Ári síðar kom svo stóra stökkið, líka í Chicago, þegar Brigid bætti 16 ára gamalt heimsmet Paulu Radcliffe, sem fram að því hafði verið talið næsta ósnertanlegt. Heimsmetstíminn var 2:14:04 klst og hefur nú staðið í rúm þrjú ár. Samtals hefur Brigid hlaupið sex sinnum undir 2:20, þ.á m. á 2:16:02 þegar hún vann Tókýómaraþonið í mars 2022. Hún er sem sagt hvergi nærri hætt, enda ekki nema 28 ára gömul. Engin af bestu maraþonkonum samtímans getur státað af annarri eins sigurgöngu. Í þeim a.m.k. 16 maraþonhlaupum sem Brigid á að baki hefur hún unnið minnst 9 sinnum og fjórum sinnum verið í öðru sæti.

2. Ruth Chepngetich (Kenía)
  • Fædd 8. ágúst 1994
  • Fjöldi maraþonhlaupa: A.m.k. 9
  • Besti tími: 2:14:18 klst, Chicago 9. okt. 2022
  • Staða á afrekaskrá frá upphafi: Nr. 2

Ruth Chepngetich hefur verið áberandi í maraþonsögunni síðustu fjögur ár og í Chicagomaraþoninu í haust hjó hún nærri heimsmeti samlöndu sinnar og jafnöldru þegar hún kom langfyrst í mark á 2:14:18 klst. Hún er eina konan í heiminum sem hefur hlaupið maraþon þrisvar undir 2:18 klst og það heyrir til tíðinda ef hún vinnur ekki hlaup sem hún tekur þátt í. Meðal helstu afreka, annarra en að hlaupa á 2:14 má nefna heimsmeistaratitil í maraþoni í Doha 2019 og heimsmet í hálfu maraþoni (1:04:02 klst) í Istanbúl í apríl 2021. Það met stóð reyndar ekki lengi, eins og lesa má um hér að neðan. Rétt eins og Brigid Kosgei hefur Ruth lítið komið við sögu í brautarhlaupum. Þar á hún þó mjög góða tíma í 5.000 og 10.000 m hlaupum.

3. Tigist Assefa (Eþíópía)
  • Fædd 3. desember 1996
  • Fjöldi maraþonhlaupa: 2 (bæði 2022)
  • Besti tími: 2:15:37 klst, Berlín 25. sept. 2022
  • Staða á afrekaskrá frá upphafi: Nr. 4

Tigist Assefa vann eitt óvæntasta hlaupaafrek ársins þegar hún vann Berlínarmaraþonið í haust á 2:15:37             klst, sem skilaði henni í 3. sæti (nú 4. sæti) á heimsafrekaskránni frá upphafi. Berlínarmaraþonið var aðeins annað maraþon Tigist Assefa. Það fyrra hljóp hún í Riyadh í Sádi-Arabíu í mars sl. á 2:34:01 klst. Líklega hefur því enginn spáð henni sigri í Berlínarmaraþoninu. Tigist á bakgrunn í brautarhlaupum, þar sem hún keppti aðallega í 800 m hlaupi, m.a. á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Tíminn hennar þar var 2:00,21 mín í 5. riðli undanrásanna (7 sek lakari tími en Aníta Hinriksdóttir náði í næsta riðli á undan). Besti tími Tigist Assefa í 800 metrunum er 1:59:24 frá árinu 2014 þegar hún var 18 ára. Hún skipti svo yfir í götuhlaupin 2018.

4. Almaz Ayana (Eþíópía)
  • Fædd 21. nóvember 1991
  • Fjöldi maraþonhlaupa: 1
  • Besti tími: 2:17:20 klst, Amsterdam 16. okt. 2022 (Besti tími nýliða)
  • Staða á afrekaskrá frá upphafi: Nr. 7

Almaz Ayana á að baki glæsilegan feril í brautarhlaupum og varð fyrst áberandi á alþjóðlega sviðinu þegar hún vann bronsverðlaun í 5.000 m hlaupi á heimsmeistaramótinu í Moskvu 2013. Ári síðar varð hún Afríkumeistari í greininni og bar þá m.a. sigurorð af Genzebe Dibaba. Næstu misserin þar á eftir vann hún nokkur alþjóðleg mót í 5.000 m og vorið 2016 hljóp hún fyrsta 10.000 m hlaupið sitt – á besta tíma sem nýliði hafði þá nokkru sinni náð (30:07 mín). Á Ólympíuleikunum í Ríó síðar um sumarið bætti hún um betur og kom langfyrst í mark á 29:17,45 mín, sem var 14 sek. bæting á 23ja ára gömlu heimsmeti kínversku stúlkunnar Wang Junxia, sem enginn hafði nokkurn tímann komist nálægt. Heimsmet Almaz Ayana er mörgum Íslendingum minnisstætt, ekki þó endilega vegna ótrúlegrar bætingar á heimsmetinu, heldur vegna magnþrunginnar lýsingar Sigurbjörns Árna Arngrímssonar. Heimsmetið stóð í 5 ár, þ.e. þangað til Sifan Hassan bætti það á móti í Hollandi vorið 2021 og síðan Letesenbet Gidey tveimur dögum síðar.

Eftir mjög góðan árangur á hlaupabrautinni 2017 tók Almaz Ayana sér þriggja ára hlé frá keppni vegna meiðsla og barneigna. Hún sneri aftur vorið 2022 og hljóp fyrsta maraþonið sitt í Amsterdam 16. október – þar sem hún vann á besta tíma nýliða frá upphafi, 2:17:20 klst.

Almaz Ayana var valin frjálsíþróttakona ársins hjá IAAF 2016. Hún er í 3. sæti á heimsafrekaskránni frá upphafi í bæði 5.000 og 10.000 m hlaupum.

5. Yalamzerf Yehualaw (Eþíópía)
  • Fædd 3. ágúst 1999
  • Fjöldi maraþonhlaupa: 2 (bæði 2022)
  • Besti tími: 2:17:23 klst, Hamborg 24. apríl 2022 (Besti tími nýliða á þeim tíma)
  • Staða á afrekaskrá frá upphafi: Nr. 8

Tólf ára gömul var Yalamzerf Yehualaw farin að vinna brautarhlaup í skólanum sínum og 14 ára fékk hún inngöngu í Íþróttaakademíu æskunnar í höfuðborginni Addis Ababa. Ferill hennar á alþjóðavettvangi hófst með sigri í hálfmaraþonhlaupi í Marokkó vorið 2019 og eftir það rak hver sigurinn annan. Vorið 2020 náði hún bronsinu á heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni í Gdynia og um haustið vann hún Delhi hálfmaraþonið á 1:04:46 klst, sem var þá næstbesti tími sögunnar. Haustið 2021 bætti hún tímann sinn niður í 1:03:51 í Valencia, sem var betri tími en gildandi heimsmet á þeim tíma. Heimsmetið varð þó ekki hennar, þar sem Letesenbet Gidey var næstum heilli mínútu á undan henni í hlaupinu. Þessar tvær tróna nú á toppnum yfir bestu hálfmaraþonhlaupara sögunnar. Yalamzerf Yehualaw á hins vegar heimsmetið í 10 km götuhlaupi alein (29:14 mín), en það setti hún á Spáni í febrúar 2022. Fyrsta maraþonhlaupið hennar var í Hamborg sl. vor, þar sem hún náði besta tíma sem nýliði hafði þá nokkru sinni náð (2:17:23 klst). Hálfu árið síðar hljóp hún á 3 sek lakari tíma í London. Yalamzerf er yngsti hlauparinn í þessum samanburði og full ástæða til að ætla að hún eigi mikið inni.

6. Genzebe Dibaba (Eþíópía)
  • Fædd 8. febrúar 1991
  • Fjöldi maraþonhlaupa: 1
  • Besti tími: 2:18:05 klst, Amsterdam 16. okt. 2022
  • Staða á afrekaskrá frá upphafi: Nr. 19

Genzebe Dibaba er vafalítið þekktasta nafnið á þessum sjö kvenna lista, enda ein af sigursælustu millivegalengda- og langhlaupurum sögunnar. Þegar þetta er skrifað á hún fjögur heimsmet, þ.e. í 1.500 m hlaupi utanhúss og í míluhlaupi, 3.000 m hlaupi og 5.000 m hlaupi innanhúss. Hana hefur heldur ekki skort fyrirmyndir, því að eldri systur hennar, Ejegayehu (f. 1982) og Tirunesh (f. 1985) hafa báðar unnið til verðlauna í hlaupagreinum á Ólympíuleikum. Sú síðarnefnda setti einhver heimsmet á sínum tíma og er í 12. sæti á heimsafrekaskránni í maraþonhlaupi, með tímann 2:17:56 klst frá því í London 2017. Ejegayehu hljóp á 2:22:09 klst. í Chicago 2011. Líklega er þessi árangur systranna einstakur, þó að það hafi reyndar ekki verið rannsakað sérstaklega við ritun þessa pistils.

Genzebe Dibaba hóf sigurgöngu sína á alþjóðlegum vettvangi þegar hún var 16 ára og hefur síðan rakað inn verðlaunum bæði í brautarhlaupum og í víðavangshlaupum. Hún keppti m.a. á öllum heimsmeistaramótum í frjálsum íþróttum á tímabilinu 2009-2017, bæði innanhúss og utan, komst alltaf í úrslit og vann fjölmörg gull. Genzebe Dibaba var valin frjálsíþróttakona ársins hjá IAAF 2015.

Haustið 2020 sneri Genzebe sér að götuhlaupum eftir að hafa ekki keppt í rúmt ár. Fyrsta innkoman var sigur í hálfmaraþoni í Valencia í desember á 1:05:18 klst, sem var þá besti tími „byrjanda“ frá upphafi. Fyrsta maraþonið var svo í Amsterdam í október sl., þar sem hún kom önnur í mark á eftir Almaz Ayana á 2:18:05 klst. Genzebe Dibaba er vissulega sú elsta á þessum sjö kvenna lista, en 31 ár er ekki hár aldur fyrir maraþonhlaupara. Ótrúlegur ferill í brautarhlaupum gefur manni fulla ástæðu til að ætla að hún gæti setið ein á toppnum innan tveggja ára eða svo.

7. Letesenbet Gidey (Eþíópía)
  • Fædd 20. mars 1998
  • Fjöldi maraþonhlaupa: 0 (Fyrsta hlaup áformað í Valencia 4. des. 2022)
  • Besti tími: -
  • Staða á afrekaskrá frá upphafi: -

Letesenbet Gidey er sú eina af konunum sjö sem aldrei hefur hlaupið maraþon. Því er eðlilegt að spurt sé hvað hún sé yfirleitt að gera á þessum lista. Svarið er í raun tvíþætt. Annars vegar á hún heimsmetin í 5.000 m hlaupi, 10.000 m hlaupi og hálfmaraþoni (auk besta tíma sögunnar í 15 km götuhlaupi) og hins vegar stefnir hún að því að hlaupa sitt fyrsta maraþon í Valencia á sunnudaginn (4. desember 2022).

Upphafið á hlaupaferli Letesenbet Gidey var nokkuð sérstakt. Þegar hún var 13 ára var henni vísað úr skóla fyrir að neita að hlaupa í íþróttatímum og ekki leyft að koma til baka fyrr en hún samþykkti að taka þátt. Ári síðar vann hún bæði 2.000 og 3.000 m hindrunarhlaup fyrir heimahéraðið sitt (Tigray) á skólameistaramóti Eþíópíu. Sextán ára gömul náði hún bronsinu í 5.000 m hlaupi á eþíópíska meistaramótinu á 16:19,30 mín, en þess má geta að Almaz Ayana vann það hlaup.

Árið 2016 var Letesenbet farin að láta verulega til sín taka á alþjóðlega sviðinu og eftir það hefur sigurgangan verið nokkuð óslitin. Hún fékk silfurverðlaun í 10.000 m hlaupi á heimsmeistaramótinu í Doha haustið 2018 og haustið 2019 náði hún besta tíma sögunnar í 15 km götuhlaupi í Nijmegen í Hollandi, þar sem hún bætti tveggja ára „heimsmet“ Joyciline Jepkosgei um 1:17 mín og varð fyrst kvenna til að rjúfa 45 mín múrinn (44:20 mín). Síðan þá hafa heimsmetin fallið hvert af öðru. Þann 7. okt. 2020 bætti hún heimsmet Tirunesh Dibaba í 5.000 m hlaupi í Valencia um meira en 4 sek og kom í mark á 14:06:62 mín. Þann 8. júní 2021 bætti hún svo tveggja daga gamalt heimsmet Sifan Hassan í 10.000 m hlaupi um tæpar 6 sek eftir að hafa hlaupið síðasta hringinn á 63 sek og komið í mark á 29:01:03 mín. Loks rústaði hún heimsmeti Ruth Chepngetich í hálfu maraþoni í Valencia 24. október sama ár. Lokatíminn var 1:02:52 klst, en fram að þeim tíma hafði engin kona hlaupið á löglegri braut undir 1:04 klst.

Meginniðurstaðan

Ég held að Letesenbet Gidey setjist í hásætið á sunnudaginn í Valencia þegar hún hleypur fyrsta maraþonið sitt. Kannski er bjartsýni að halda að einhver geti bætt heimsmet í fyrsta hlaupi, en það hefur Letesenbet reyndar gert tvisvar áður, fyrst í 15 km götuhlaupi og svo í hálfmaraþoninu í fyrra. Og svo hefur hún reyndar aldrei hlaupið í Valencia án þess að setja heimsmet (5.000 m 2020 og hálft maraþon 2021). Já, og hún er örugglega ekki að fljúga til Valencia til að vera með í einhverju skemmtiskokki, („njóta en ekki þjóta“).

Eins og við öll sem höfum hlaupið maraþon vitum (og sennilega líka hin sem hafa ekki gert það) getur margt komið upp á í svoleiðis hlaupi. Hvernig sem allt fer verður hlaupið í Valencia þó sögulegt, því að aldrei áður höfum við haft tækifæri til að fylgjast með maraþonhlaupi einstaklings sem á heimsmet í 5.000 m hlaupi, 10.000 m hlaupi, 15 km götuhlaupi og hálfmaraþoni. Nú þarf bara að finna út hvernig maður stillir sjónvarpstækið.

Heimildir:

Byggt á upplýsingum og fjölda greina á vefsíðum Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins og víðar, svo og: