Laugavegurinn 2001 - Viktor A. Ingólfsson

birt 01. febrúar 2004
Frásögn Viktors A. Ingólfssonar

Þegar ég var að brölta síðustu 10 km niður í Þórsmörk sl. laugardag hét ég því að nú mundi ég ekki skemmta skrattanum með því að skrifa pistil um hlaupið á hlaup.is. En það er nú einu sinni þannig að heitstrengingar sem gerðar eru í langhlaupum eru marklausar. Þess vegna er ég nú byrjaður að slá þetta inn. Gísli ritari er reyndar búinn að vera að fjalla um hlaupið á heimasíðu FM en nú er hann orðinn svo leiður á sjálfum sér að hann er farinn að auglýsa eftir tilleggi frá öðrum. Það skal látið eftir honum en tekið fram að markhópurinn fyrir þessi skrif eru hægfara miðaldra skokkarar eins og ég, þ.e. þeir sem fara helst ekki hraðar en á 6 mínútna tempói á æfingum.

Þið eruð forréttindafólk sagði Guðjón Ólafsson áður en hann byrjaði að telja niður í startið í Landmannalaugum og skömmu síðar skokkaði 101 hlaupari af stað. Kunnugir töluðu um að þetta væri sennilega besta veður sem hefði verið í Laugavegshlaupi og það er varla hægt að hugsa sér það betra. Skýjað og að mestu logn, hiti líklega svona 7-12 gráður. Það er gott að vera laus við blessaða sólina á svona vegalengd því hún getur verið vægðarlaus í skjóli.

Ég var að leggja af stað í annað skipti því ég tók þátt í Fljótshlíðarhlaupinu fræga í fyrra. Markmiðið var óljóst en horft með löngunaraugum á 7 klst. Ég hafði reyndar fengið leiðinlegt kvef þremur vikum fyrir hlaup og því ekkert æft. Þetta er bara óvenju löng hvíld fyrir hlaup, hugsaði ég og reyndi að bera mig vel. Fyrir startið sagði Gísli ritari að það tæki fjóra tíma að hlaupa frá Álftavatni í Þórsmörk, það væri lögmál. Tíminn í Álftavatn ræður því endanlegum tíma.

Eins og sl. ár fór ég inn í Laugar á föstudagskvöldi og gisti í FÍ skálanum. Ég hafði pantað gistingu fyrir mig og bílstjórann einhverntíman í mars en mikið óskaplega var troðið þarna inn. Ég held ég prófi næst að fara með næturrútunni. Maður er hvort sem er svo upptjúnaður af Leppin carbo-load duftinu að það skiptir engu máli hvort maður sefur eitthvað þessa vikuna.
Þrátt fyrir veðurblíðuna var ég vel klæddur eins og venjulega, síðbuxur, síðerma bolur, vindjakki, þunnir bómullarhanskar og derhúfa . Það var rétt á meðan sást til sólar að mér fannst þetta fullmikið en annars bara þægilegt. Margir voru bara í stuttbuxum og bol og báru sig vel. Ég er alltaf að prófa mig áfram með útbúnaðinn. Í fyrra notaði ég legghlífar til að losna við að fá snjó og möl ofan í skóna. Það reyndist mjög vel og voru mjög margir með svipaðan búnað í ár. Vatnsbeltið hefur valdið mér vandræðum í lengri hlaupum. Ég hef þurft að herða það inn í ístruna til að það hangi uppi og eftir 30 km fer það að valda óþægindum. Nú keypti ég mér axlabönd til að halda beltinu uppi og reyndist það mjög vel. Það bætist reyndar við einn staður til að bera á vaselín, þ.e. axlirnar en það er o.k. Ég fann ekkert fyrir beltinu og þunganum af því alla leiðina. Maður þarf að bera talsvert vatn með sér á áfanganum upp á Hrafntinnusker og yfir Jökultungur. Eins er mjög gott að fylla allar flöskur í skálanum við Hvannagil áður en lagt er á sandana. Það eru þægilegir vatnskranar fyrir utan skálann og maður er fljótur að afgreiða þetta.

Næsta ár er ég að hugsa um að prófa göngustafina sem margir nota á leiðinni í Álftavatn. Ég held reyndar að maður þurfi að æfa notkun þeirra talsvert því mér sýndist sumir nýta sér þá illa.
Í síðasta pistli minntist Sigurður P. á einhverja ameríkana sem voru að taka myndir af hlaupinu. Það er tímabært að einhver kunnugur útskýri hvaða myndatökumenn þetta voru því þeir voru ótrúlega víða á leiðinni. Á einum stað voru tveir hjálparsveitarstrákar að aðstoða hlauparana við tipla á steinum yfir læk og myndatökumaður að fylgjast með. Ein íslenska hlaupadrottningin varð svo upptekin af þessari myndatöku að hún hljóp út úr brautinni og stefndi til fjalla. Það þurfti þríraddaðan karlakór til að hóa í hana til baka.

Aðstoðarfólk með vaðpoka var við helstu ár og nýta sér það flestir. Ég óð hins vegar bara beint yfir og finnst þægilegt að kæla tærnar. Skórnir eru smá stund að tæmast og á meðan labbar maður. Þeir sem eru að reyna við góða tíma ættu sennilega að nota vaðpokana til að halda skónum þurrum.
Eins og áður sagði notaði ég Leppin carbo-load fyrir hlaupið. Maður tekur þetta inn blandað í vatni þrjá sólarhringa fyrir hlaup. Þetta er ekki bragðvont en mikið óskaplega verð ég skrýtinn í hausnum. Reyndar finnst mér þetta virka ágætlega, þ.e. orkan verður yfirdrifin. Ég auglýsi eftir reynslusögum af þessu dufti. Gerir það eitthvað gagn að taka minni skammt en leiðbeiningarnar mæla með? Ég notaði Leppin gelið eins og venjulega, 4-5 bréf. Ég tók líka með mér eitt Snickers súkkulaði sem ég maulaði eftir bananaátið við Álftavatnsskálann. Það gerði mér mjög gott því líkaminn kallaði á góða næringu á lögbundnum hádegisverðartíma.

Nú skokkið gekk samkvæmt áætlun og ég var kominn í Álftavatn eftir 2:54. Samkvæmt kenningu Gísla átti ég möguleika í 7 klst. tíma og var nokkuð ánægður með mig. Þessi gleði hélst alla leið í Emstrur en fljótlega þar á eftir fór ég að finna fyrir gamalkunnum verk í vinstra hné. Þetta er einhver skollans stífleiki sem kemur fram í langhlaupum, venjulega eftir 30 km. Verkurinn hverfur svo að mestu á hálftíma eftir að komið er í mark og að öllu leyti á einum sólarhring svo ekki er þetta lífshættulegt. Á meðan þetta var bara í öðru hnénu kom það ekki mikið að sök en fljótlega varð hægra hnéið líka aumt. Ég reyndi ýmsar hlaupategundir, stutt skref og löng, en verkurinn jókst, sérstaklega niður brekkur. Það endaði með því að ég ákvað bara að ganga því allar tímaáætlanir voru löngu brostnar. Það hlupu margir framúr á þessum kafla og sýndu hluttekningu. Mér var gefið íbúfen og ég hvattur til dáða. Ég hélt mig þó við göngutaktinn því nú óttaðist ég að þurfa að stoppa alveg ef ástandið versnaði. Reyndar veit ég að það hefði glatt hjálparsveitarfólkið í Mörkinni mikið ef það hefði fengið að sækja mig á börum en mér þótti virðulegra að skrölta þetta sjálfur. Ég kom í markið á rétt liðlega 8 klst. þ.e. lögboðnum vinnudegi, úthvíldur eftir labbið. Náði þó að skokka síðustu metrana þegar enn einn þátttakandinn gerði sig líklegan til að fara fram úr. Geðið var hins vegar í lægð og þegar Pétur formaður óskaði mér til hamingju með hlaupið snéri ég bara upp á mig. Hann er hins vegar vanur að hugga misheppnaða skokkara og eftir stutta viðtalsmeðferð hafði ég tekið gleði mína aftur. Sjálfur var Pétur hins vegar á ótrúlegum tíma innan við 6 klst. Margir aðrir höfðu náð settu marki eða jafnvel gert betur og í Þórsmörk ríkti gleði og ánægja. Það er sérstaklega gaman hvað margir koma inn í Mörk til að taka á móti hlaupurunum. Það var sannarlega hátíðarstemming í blíðunni. Ég þurfti því miður að drífa mig í bæinn og gat ekki verið við verðlaunaafhendinguna.

Gísli ritari segir að menn séu ekki sammála um hvort eigi að telja Fljótshlíðarhlaupið með í tölu Laugavegshlaupa. Ég hef enga skoðun á því en ég held að síðasti leggurinn frá Emstrum sé erfiðari hlaupaleið en bílslóðin niður í Fljótshlíð. Það er svo spurning hvor leiðin er lengri. Theódór Ásgeirsson var með GPS tæki á sér í hlaupinu og ætlaði að láta það mæla vegalengdina á Laugaveginum nákæmlega. Ég gerði tvær tilraunir til að hringja í hann á meðan ég var að slá þetta inn en náði honum ekki. Hann er því vinsamlegast beðinn um að gefa töluna upp hér á síðunni.
Nú er bara að gera nýtt æfingaplan fyrir næsta Laugavegshlaup og reyna að leysa hnjávandamálin. Kannski að göngustafir í fyrsta áfanga og auknar fjallaæfingar dugi til. Ég sé nú að 7 klst. er fyrir utan mína getu en 7:30 ætti að takast.

Ég er núna að skoða kortið af nýju RM leiðinni og velta því fyrir mér hvort ég eigi að fara í heilt eða hálft. Endanleg ákvörðun bíður enn í nokkra daga. Það var hins vegar ótrúlegt að sjá í úrslitum Ármannshlaupsins í gær að þar höfðu menn tekið þátt sem fóru Laugaveginn 5 dögum fyrr. Það er ofurmannlegt.