"Gerfiskinn" - Frásögn Péturs Reimarssonar
Ég leit upp frá tölvunni en ég var að skoða heimasíðu Námsflokkanna þar sem er að finna lista um nauðsynlegan búnað til að hlaupa Laugaveginn, þessa 55 km leið frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk.
Svo kallaði ég á konuna mína og spurði hvaða fiskur væri gerfiskur. "Er það eitthvað sem konur nota?" Hún kom hlaupandi, leit á mig og eins og segir í kvæðinu "hló að mér um leið".
Í vor og sumar var að myndast hjá mér þessi ásetningur að taka þátt í Laugavegshlaupinu. Ég hljóp mitt áttunda maraþon við Mývatn og fannst að mér væri svo sem ekkert að vanbúnaði, þótt ég hefði aldrei farið áður þessa leið hvorki gangandi né skokkandi.
Til undirbúnings tók ég svo þátt í Þorvaldsdalshlaupinu í byrjun júlí. Það fannst mér mjög skemmtilegt og vel að öllu staðið. Ég varð samferða lengstan hluta leiðarinnar tveimur stúlkum frá Sauðárkróki og Pétri Valdimarssyni en þau voru öll að búa sig undir Laugaveginn líka. (Hefur annars nokkur tekið eftir því hvað eru margir Pétrar í þessum hlaupum). Leiðin er krefjandi og töluvert á brattann í upphafi og svo öslar maður mýrar og urðir eins og húnveskur smali á réttardegi. Fyrir þann árangur að verða fyrstur í 50 ára aldursflokknum fékk ég svo fyrsta bikar sem mér hefur áskotnast í lífinu.
Daginn eftir Þorvaldsdalshlaupið fór ég með Ölhópnum á Helgafell og um Búrfellsgjá. Þar var meðal annarra Pétur Frantzson með fríðan flokk karla og kvenna í Laugavegsundirbúningi. Á leiðinni datt ég og fékk þvílík svöðusár á sköflunginn að blóðið spýttist í allar áttir og konurnar voru komnar fjórar til að reyna að stöðva flæðið. Ein þeirra afklæddist svo að hluta og var flíkin bundin um sárið. Hélt ég svo áfram skokkinu en stytti nokkuð leiðina í lokin. Þeim sem ég mætti varð starsýnt á fótinn sem var alblóðugur frá ökkla að hné. Svo kom nú í ljós að meiðslin voru minni en á horfðist.
Ég fór líka tvisvar upp að steininum í Esjunni og skokkaði niður. Það fannst mér alveg nauðsynlegt til að taka út harðsperrurnar í vöðvunum framan á lærunum.
Ég las allar reynslusögur sem ég komst yfir og krækti í millitíma hjá þeim sem ég treysti til að ljúga ekki mjög miklu. Svo reyndi ég að skoða úrslit fyrri ára til að sjá hvar ég stæði hugsanlega.
Eitt af því sem ég gerði var að bera saman tíma þeirra sem höfðu hlaupið við Mývatn og svo farið Laugaveginn sama árið. Þá sá ég að menn voru um þremur klukkutímum lengur að hlaupa Laugaveginn og að sá tími sem það tekur að skokka kílómeter á Laugaveginum er um 40% lengri en í Mývatnsmaraþoni.
Að þessu öllu skoðuðu sýndist mér að ég gæti reiknað með að vera nokkuð öruggur með að ná í mark á rétt undir 7 tímum og kannski nálægt 6 og hálfum ef vel gengi.
Ó, þvílík bjartsýni.
Kvöldið fyrir hlaupið gekk ég frá drykkjarbeltinu sem í var leppingel, salt í baukum, plástrar, gerfiskar, vatn í brúsum og þrúgusykur. Hitastigið, veðrið og veðurspáin var þannig að augljóst var að stuttbuxnafæri yrði alla leið og ég tók hvorki með síðar buxur né jakka ef veður breyttist. Ég ákvað þó að vera með derhúfuna mína til varnar sólinni. Ég leitaði til Halldórs Guðmundssonar um hvort hann sendi nýja skó eða annan búnað að Bláfjallakvísl en hann sagðist ekki gera það og ákvað ég þá að fylgja hans fordæmi.
Ég var svo næstum búinn að sofa yfir mig og náði ekki að drekka kaffi áður en haldið var af stað í rútunni um ½ 5 að laugardagsmorgni. Þess vegna var ég ekki búinn að því sem mér finnst mikilvægast að gera áður en lagt er af stað í langhlaup.
Í Landmannalaugum ríkti létt eftirvænting og spenna en jafnframt kvíði yfir hópnum. Menn skiptust á áætlunum og veltu fyrir sér hverjir ætluðu að verða samferða og hvernig væri að hlaupa þegar svona heitt væri en hitastigið var eitthvað töluvert yfir 20°C. Ég þakkaði mínum sæla að vera með saltvatn í einum brúsanum en reynslan hafði kennt mér að það væri nauðsynlegt til að koma í veg fyrir krampa og sinadrátt í fótum.
Ég ætlaði að stefna á um 1:20 upp í Hrafntinnusker. Svo hófst hlaupið og menn geystust af stað. Ég fann fljótt áhrif hitans en svitinn bogaði og rann og svo fór að ég var búinn með allt vatn úr beltinu þegar komið var að fyrstu drykkjarstöðinni eftir 1:23. Aðeins á undan mér þarna voru Halldór Guðmundsson (6:38), Svanur Bragason (6:44) og svo horfði ég á bakið á Garðari Hilmarssyni (7:23).
Mér fundust brekkurnar niður að Álftavatni erfiðar og það kom mér á óvart hversu hægt maður varð að fara til að slasa sig ekki. Ég stefndi á 1:15 frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni og var mjög nálægt því á 1:17 og í heild á 2:40 eða um 5 mínútum frá áætlun. Hins vegar fann ég það að ég var orðinn allt of þreyttur, mér var illt í maganum og staðan langt frá því að vera góð.
Við Álftavatn voru fjórir að hætta keppni þegar ég kom og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að gera slíkt hið sama. Svo settist ég niður og hvíldi mig um stund, át nokkra banana, drakk eins mikið og ég gat og gerði svo það sem ég þurfti nauðsynlega að gera og hefði átt að vera búinn að.
Mér fannst helvíti aumingjalegt að hætta og ákvað að trítla af stað og nú var tíminn 3:03 og ég því búinn að dvelja um 23 mínútur við Álftavatn. (Það var ekki í áætluninni.) Þarna fór af stað á svipuðum tíma Áslaug Ösp (7:31) og eins nokkurn veginn samferða urðu námsflokkastúlkurnar sem hjúkruðu mér tveim vikum áður. Ég þekki þær ekki með nafni nema Jóhönnu Eiríksdóttur (7:46) og Fjólu Jónu (7:50). Þær stoppuðu svo við Bláfjallakvísl.
Ég hélt síðan áfram og skokkaði eins og hægt var en búinn að leggja til hliðar alla drauma um að ná í mark áinnan við 7 tímum. Upphaflega reiknaði ég með að vera 1:55 eða svo að skálanum í Botnum og að heildartíminn yrði um 4:35. Mér fannst hins vegar trúlegt að ég gæti þurft að bæta við um 20 mínútum eða svo eins og aðstæður voru orðnar. Svo þegar ég var kominn yfir Innri Emstruá var ég búinn með allt vatn og var farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að finna vatn þarna á söndunum. Þá var þarna allt í einu auka drykkjarstöð sem bjargaði mér alveg. Ég heyrði svo að vatnið hafi allt verið búið þar þegar síðustu menn voru á ferðinni. Svo fór fram úr mér hópur léttra hlaupara frá Sauðárkróki sem ég hafði hitt í Þorvaldsdalnum m.a. Guðrún Sæmundsdóttir (7:23) og Ingibjörg Valgeirsdóttir (7:49). Á móti manni streymdi svo volgur sunnanvindurinn og engin kæling í honum fólgin. Að skálanum í Botnum kom ég á millitímanum 2:15. Þar var boðið upp á 25°C heitt vatn í flöskum og hitinn við skálann nánast óbærilegur. Ég stoppaði í um 6 mínútur og þá komu þær aftur námsflokkastúlkurnar sem áð höfðu við Bláfjallakvísl. Þegar ég lagði af stað voru 2:21 frá því ég fór frá Álftavatni og heildartíminn orðinn 5:24.
Þarna voru líka þrír prinsar frá Wales (8:08) sem voru nánast yfir sig komnir af náttúrufegurðinni og urðu þeir samferða næstu kílómetrana. Nú snerist málið um að ljúka hlaupinu og að skokka við fót og reyna að halda áfram að juða. Það kom mér á óvart hversu margar brekkur og erfiðar voru á þessum síðasta áfanga. Nú tókst mér að fara fram úr nokkrum hlaupurum og þeir sem fóru fram úr mér voru heldur færri á þessum áfanga. Besta vatnið á allri leiðinni var í Slyppugili og því gerði ég góð skil. Þegar kom að Þröngá var þar staddur gjaldkeri maraþonfélagsins sem hafði það hlutverk að taka utan um brjóstin á stúlkunum og fylgja þeim yfir ána til að þær drukknuðu ekki. Honum virtist alveg sama um okkur karlana. Mikið hrikalega var áin annars köld. Ég hafði upphaflega áætlað að vera um 2:05 með síðasta áfangann og því um 6:40 í heild. Niðurstaðan var sú að þetta tók um 2:25 og heildartíminn um 7:49 og ég í 71. sæti af 110 sem luku keppni. Ég var því um klukkutíma lengur en ég ætlaði og hefði náttúrlega átt að endurskoða áætlun mína í ljósi hitans áður en ég fór af stað.
Að hlaupinu loknu var mér nær ómögulegt að slökkva þorstann og drakk marga lítra af vatni og öðru og hafði kannski verið heldur ákafur við saltinntökuna á leiðinni. Eftir hvíldina við Álftavatn leið mér hins vegar aldrei illa, þreytan náttúrlega jókst eftir því sem á leið en ég fékk engin meiðsli og þótt vöðvarnir séu enn stirðir þá jafnar það sig fljótt.
Eftir situr hins vegar minningin um skemmtilegasta hlaup sem ég hef tekið þátt í, umhverfi sem ég á engin orð til að lýsa, bjartviðri og fjallasýn eins og hún gerist best og þó hitinn væri mikill og tímarnir kannski ekki þeir bestu þá gerir það lítið til.
Eini gallinn er að þurfa að bíða í heilt ár eftir næsta Laugavegshlaupi.
Reykjavík, 23. júlí 2003.
Pétur Reimarsson.