Ég fór Laugaveginn í fyrsta sinn fyrir tveimur árum og var það nokkursskonar rannsóknarferð og útsýnisferð í samhlaupi með Svani Bragasyni. Laugavegurinn er þessháttar áskorun að hafirðu farið hann einu sinni þá kallar hann á að fara aftur, annað hvort til að gera betur en síðast eða til þess að njóta leiðarinnar og þess stórkostlega veisluborðs náttúrunnar sem upp á er boðið á leiðinni. Ég var nokkru betur undir búinn nú en síðast og var því nokkuð spenntur að vita hvernig undirbúningurinn myndi skila sér á þessari löngu og krefjandi leið sem Laugavegurinn er.
Ég tók rútuna upp í Hólaskóg kvöldið áður ásamt rúmlega 40 öðrum Laugavegsförum. Ég ber það ekki saman hvað það er betra að fara þangað og geta sofið rólegur fram á um sex um morguninn í stað þess að rífa sig upp um þrjú um nóttina, ósofinn af stressi yfir að sofa yfir sig. Í Hólaskogi er fín gistiaðstaða og rúmt var á hópnum. Pasta var borðað og síðan gengið upp að vörðunni á hjallanum fyrir ofann skálann, þar sem Gísli aðalritari ákallaði veðurguðina til stuðnings hlaupurum og bað um léttan vind í bakið, hóflegan hita og lítið sólskin. Sambandið hefur verið gott þetta kvöldið því Gísli var bænheyrður eins og hægt var því veður daginn eftir var eins og best var á kosið. Að bænahöldum loknum lögðu viðstaddir stein í sístækkandi vörðu.
Rútan lagði af stað korter yfir sjö um morguninn en hægt sóttist ferðin því hún náði ekki fram til Landmannalauga fyrr en korter í níu. Af þeim sökum frestaðist ræsing þar til 10 mínútur yfir níu sem er ekki faglegt. Með hliðsjón af veðri ákvað ég að hlaupa í stuttbuxum og hlýrabol til að verða ekki of heitt á leiðinni. Með gott lag af vaselíni, hitakremi og sólarvörn þar sem skein í bert skinn þóttist maður fær í flestan sjó. Ég hafði keypt mér nýtt átta brúsa belti hjá Torfa til að vera öruggur með að hafa alltaf nóg að drekka á leiðinni. Það tekur um 1 1/3 lítra og á að endast örugglega á lengstu köflunum milli þess sem vatn er að fá.
Ég svitna alltaf mikið og er farinn að þekkja hvað ég verð að drekka til að halda óskertum dampi. Fyrir tveimur árum drakk ég ekki nóg í upphafi og það hefndi sín á söndunum. Ég var einnig með fjóra orkubita, tíu gelbréf og einnig hafði ég tvö bréf með salti í. Annað setti ég út í drykkina á leiðinni upp að Hrafntinnuskeri og hitt drakk ég eftir að komið var yfir Bláfjallakvíslina. Planið var að drekka jafnt og reglulega frá starti, taka gel á hálftíma fresti og borða orkubita eftir hverja drykkjarstöð. Einnig hafði ég með nokkur Mars stykki ef allt um þryti með orkuna. Þannig lagði ég af stað og þóttist nokkuð vel úr garði gerður. Ég var með stafi síðast og tók þá með aftur. Mér finnst styrkur að hafa þá í ósléttu, stuðningur og öryggi niður brattar brekkur og gott að geta látið framdrifið hjálpa sér upp þessar tvöhundruð minni og stærri brekkur á leiðinni. Þeir há mér ekkert á hlaupum á sléttu heldur rúlla með svo að ég er á því að það sé betra að hafa þá þar til annað kemur í ljós.
Ég fylgdi Þórði Sigurvins, Kötu og Gunnari Páli upp að Hrafntinnuskeri og síðan áfram þar til fór að halla niður að Álftavatni. Þórður stjórnaði ferðinni hokinn af reynslu úr Laugavegshlaupum og lagði áherslu á að ganga upp allar brekkur því langt væri eftir. Lítill snjór var á þessum slóðum og því gengið á föstu því sem næst alla leið. Þegar að Hrafntinnuskeri kom sáust menn á hlaupum niður að skálanum með hvíta brúsa. Það voru vatnsmenn sem voru að mæta á vettvang. Ég var í ca 35 sæti þar þannig að nokkuð margir höfðu komið að tómum kofanum og reyndist það ekki í síðasta sinn í hlaupinu. Ég sleit mig frá hópnum niður Jökultungurnar því Þórður hlífði hnénu niður brattar brekkurnar. Mér fannst leiðin úr Hrafntinnuskeri í Álftavatn miklu styttri nú en fyrir tveimur árum. Þá fann ég verulega fyrir þreytu við Áltavatn en nú örlaði hvergi á slíku. Við Álftavatn var ég á ca 2.30. Verðirnir við Álftavatn fylltu á brúsana þannig að maður hélt af stað eftir lágmarksstopp. Stigi var lagður yfir fyrstu kvíslina þegar haldið var frá Álftavatni en ekki yfir þá næstu og það gerði svo sem ekkert til, þetta er nú einu sinni fjallahlaup þar sem gengur á ýmsu.
Hvanngil birtist fyrr en varði og síðan Bláfjallakvísl. Við Hvanngil var kallað í mann og sagt í hvaða sæti maður væri. Það er ágætt að fá aðeins hugmynd um hvar í röðinni maður er til að fá hugmynd um hvernig gengur. Þar voru pokamenn með vaðpoka en engir pokar sem sendir höfðu verið frá Landmannalaugum. Einn björgunarsveitarmaður sem ég þekkti sagði farir þeirra ekki sléttar. Þeir hefðu komið of seint í Hrafntinnusker og of seint að Bláfjallakvísl vegna þess að björgunarsveitin þekkti leiðina ekki nógu vel!! Ég átti hvorki nesti eða nýja skó geymda við ána þannig að ég rúllaði ótruflaður suður sandana en heyrði fyrir aftan mig að það voru ekki allir ánægðir þegar yfir kvíslina var komið og enga poka að sjá. Sandarnir voru þéttir eftir rigningu og mjög auðvelt að hlaupa þá. Lengst niður á söndunum var síðan farangur þeirra sem höfðu sent hann á undan sér. Þeir hlauparar se þegar björgunarsveitina bar að garði höfðu verið eltir uppi og farangurinn settur þarna út. Þarna kom í ljós að það var eins gott að treysta á sig en ekki aðra hvað drykkina varðaði. Þar sem farangurinn var, var stafli af Kók en einungis einn munnsopi af Leppinvökva. Þar sem ég drekk ekki kók og hef ekki gert í tæpan aldarfjórðung hefði ég getað lent í vandræðum ef maður hefði treyst á að fá áfyllingu þarna.
Við Botnaskálann var fyllt á, skellt í sig hálfum banana og lagt í síðasta legginn. Enn var allt í góðum gír, engin þreyta í fótunum og staðan bara góð. Þetta voru mikil viðbrigði frá því fyrir tveimur árum þegar hver brekka á söndunum var eins og fjallgarður. Þegar á leið og ég sá að allt gekk vel sá ég að tíminn yrði nokkuð mikið betri en áður. Ég sá að það færi kannski að hilla í sex tímana en sá við Botnaskálann að það gengi ekki upp. Það skipti svo sem ekki miklu, aðalatriðið var að staðan var góð og hlaupið tóm skemmtan. Niður að ánni og áfram niður Fauskatorfurnar gekk allt vel. Ég fékk samfylgd mestan hluta leiðarinnar. Ánægjulegt var að sjá niður flatann og vita að giljunum færi að fækka. Þarna fékk ég viðvörun um hve lítið má út af bera þar sem leiðin liggur niður smá klettahjalla. Þar sem ég stökk niður og var ekki eins liðugur og ég hélt að ég væri bögglaðist löppin undir mér og mátti engu muna að ég misstigi mig svo illa að það væri hökt á sprungnu sem eftir væri. Sem betur fer gerðist það ekki en minnti mann á að lítið má út af bera.
Kápan leið hjá átakalaust en aðeins voru lærin farin að minna á að þau væru búin að standa í ströngu. Rétt fyrir ofan Þröngána stökk fylgdarmaður minn niður brekkurnar eins og fjallageit, og hvarf sjónum og sá ég hann ekki fyrir en í markinu. Á síðasta leggnum voru alla vega fimm útverðir með drykki, sælgæti og hvatningarorð á vörum. Það er mjög gott því ýmsir eru orðnir aðþrengdir á þessari leið sem eðlilegt er og því mikil nauðsyn að geta fyllt á orku- og vatnsforða sem oftast. Eins og mér fannst leiðin frá Þröngánni löng síðast þá var hún bara stutt nú og síðan bir mikilli vellíðan yfir vel heppnuðu hlaupi. Síðast var maginn orðinn ósáttur í hlaupalok en nú tók hann þakksamlega á móti öllu sem í hann fór, hvort sem um var að ræða öl, heit súpa eða grillað kjöt.
Umsögn um framkvæmd hlaupsins og fleira.
Allt sem máttarvöldin höfðu á sinni könnu var eins gott og hægt var að hugsa sér. Það sama verður ekki sagt um mannanna verk. Því ætla ég að fara nokkrum orðum hér um framkvæmd hlaupsins, ekki til að nöldra heldur til að taka saman það sem ég veit um misfellur í þeim tilgangi að hvetja til að úr því verði bætt og betur verði staðið að málum í framtíðinni. Hér er um að ræða hlaup sem er auglýst á alþjóðavettvangi sem alvöru ultramaraþon og fólk greiðir töluverð þátttökugjöld til. Útlendingar eru ofan í kaupið að koma jafnvel gagngert erlendis frá til að taka þátt í hlaupinu þannig að þeir leggja í mun meiri kostnað en við innlendir. Því verða þau atriði sem í mannlegu valid er að stjórna að vera í lagi, annað er einfaldlega óásættanlegt.
1. Ræsing
Hún var tíu mínútur seinni en auglýst var. Það er slæmt að geta ekki haldið tímasetningar. Þessi frestun helgast að því að rútan var einn og hálfan tíma frá Hólaskógi en ekki klukkutíma eins og vanalegt er. Rútan vitist ætla að hristast í sundur á malarvegunum ef henni var beitt eitthvað svo að hún lötraði bara áfram. Nauðsynlegt að hafa almennilega bíla.
2. Drykkjarmál
Þau voru í miklum ólestri. Ég hef áður minnst á hlaupandi brúsamenn við Hrafntinnusker þegar ég kem þangað sem voru fyrst að koma á vettvang þegar um 30 hlauparar eru farnir hjá. Fyrstu menn komu að öllum auglýstum drykkjarstöðvum ómönnuðum. Steinar Friðgeirsson sagðist hafa hlaupið hring kringum skálann í Botnum til að gá hvort vatnsmenn hefðu lagt sig í brekku og gleymt sér en hvergi séð mann. Þegar búið er að auglýsa drykki og næringu á ákveðnum stöðum þá verður það að vera 100% öruggt að það sé til staðar fyrir alla en ekki einungis fyrir þá sem eru svo heppnir að koma eftir að vatnsmenn birtast.
3. Vöðslupokar
Fyrstu menn þurftu að vaða pokalausir yfir Bláfjallakvísl. Hún er jökulköld og það er ófært að þurfa að gera slíkt. Það hefur eitthvað farið úrskeiðis hjá þeim björgunarsveitarmönnum sem áttu að standa sína plikt, hvort heldur er við ár eða á drykkjarstöðvum.
4. Markið
Það var ekki klukka í markinu og mér var sagt að markið hefði ekki verið komið upp þegar fyrsti maður birtist. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Ég veit t.d. ekki enn nákvæmlega á hvaða tíma ég hljóp (sunnudagskvöld).
5. Verðlaunaveiting
Það var einhverra hluta vegna ekki hægt að veita viðurkenningar fyrir aldursflokka og sveitir í gærkvöldi. Úrvinnslumálin hafa einhverra hluta vegna orðið flóknari en ætti að vera með rúmlega hundrað manna hóp. Þetta er ekki hægt. Það er auðvitað allt annað að fá eitthverja viðurkenningu senda í pósti en að taka á móti henni í lok hlaups með félagana í kringum sig.
6. Merkingar
Víðast hvar rekur leiðin sig sjálf en þó eru staðir þar sem mætti bæta merkingar. Ég nefni staðinn þar sem leiðin liggur af veginum á söndunum við Stóru Súlu austur yfir sandana. Það er ekki sjálfgefið að ókunnugur maður átti sig á að þar skuli hlaupið en ekki beint áfram niður veginn. Svona atriði verða að vera á hreinu.
7. Bananar
Mér fannst einkennilegt að sjá það tiltekið í fylgibréfi að einungis megi borða einn banana á hverjum viðkomustað. Common. Maður er að borga níu þúsund kall í þátttökugjald fyrir utan rútu og gistingu og það er verið að telja bananana með dropateljara. Ætli að það hafi verið akkúrat 117 bananar á hverjum viðkomustað? Þatta er smásálarháttur sem ég hef hvergi séð tiltekið í kynningum á þeim hlaupum sem ég hef skoðað. Ég vona að svona lagað sjáist ekki aftur.
8. Að fara fyrr af stað
Núna var tiltekið að þeir sem væru lengur en sex tíma í Botnaskálann yrðu að hætta þar. Það er hið besta mál og kominn tími til að slík viðmiðunarmörk séu tekin upp. Það er bara að það verði ekki eins og í fyrra að þegar síðasti maður kom í Botnaskálann og hefði viljað hætta, að því mér er sagt, þá voru allir farnir þaðan svo hann átti engan kost annan en að hökta áfram við illan leik alla leið í Þórsmörk. Þegar svona tímamörk eru tekin upp, hvað þá með það að leyft er að einhverjir fari fyrr af stað. Nú plagar það mig ekki þótt einhverjir geri það en gildir það fyrir suma eða alla að geta lagt af stað kl. átta ef maður vill það. Gilda sex tímamörkin í Emstrum fyrir þá sem fara fyrr af stað eða eru sjö tíma mörk fyrir þá. Þetta eru spurningar sem mér finnst eðilegt að komi fram því í svona viðburðum verða að gilda ákveðin princip.
9. Úrslit
Þegar þetta er skrifað á sunnudagskvöld eru úrslitin ekki komin á netið. Þetta er heldur slöpp frammistaða. Fjöldinn er ekki svo mikill að það er t.d. hægt að hringja tímana úr Þórsmörk í bæinn strax á laugardagskvöld og setja þá inn á netið ef ekki er tölvusamband þaðan. Það eru ýmsir sem vilja sjá frammistöðu sinna manna sem fyrst, t.d. aðstandendur erlendra þátttakenda. Hvað kemur í veg fyrir að úrslitin komi inn á vefinn strax að hlaupi afloknu? Ég bara spyr.
10. Annað
Ég spjallaði aðeins við bresku konuna sem vann kvennaflokkinn. Hún var kát með góðan árangur og gott hlaup. Ég spurði hana meðal annars hvar hún hefði heyrt af hlaupinu. Hún sagðist hafa heyrt af því á kynningarfundi fyrir fjallahlaup í Bretlandi sem hún stundar mikið og ákveðið eftir það að skella sér til Íslands. Sagt er að ánægður kúnni sé besta auglýsingin. Hvor skyldi nú vera betri kynningarfulltrúi á Laugaveginum erlendis sá sem getur sagt frá frábæru hlaupi, einstöku landslagi og hnökralausri framkvæmd eða sá sem er ánægður með landslagið en fer síðan yfir það sem misfórst í framkvæmdinni sjálfri eins og hér hefur verið rakið að framan? Svari hver fyrir sig. Að hennar sögn er mikill fjöldi hlaupara sem stundar fjallahlaup í Bretlandi sem sérgrein. Hún var að spyrja um hvort ekki væru fleiri fjallahlaup hérlendis því henni fannst Laugavegurinn svo fallegur og dásamaði hlaupaleiðina. Þetta leiðir hugann að því sem ég hef sagt áður að það þarf að standa betur og markvissar að kynningarmálum á hlaupum hérlendis gagnvart erlendu áhugafólki því nægur er fjöldi áhugasamra. Sem dæmi má nefna að hægt væri að setja upp sérstakan vef fyrir íslensk fjallahlaup með myndum frá hverri hlaupaleið til að markaðssetja þau erlendis. Þetta eru Laugavegurinn, Vatnsneshlaupið, Hornstrandahlaupið, Þorvaldsdalsskokkið, Barðsneshlaupið og nú síðast Jökulsárhlaupið. Ekki dónaleg samsetning þetta. Gleymdi ég annars einhverju??
Ég hef sett hér niður nokkrar hugleiðingar að afloknum Laugaveginum 2004. Bæði var ég að taka saman góðar minningar frá hlaupinu ef einhver hefur af því gagn eða gaman, en einnig og ekki síður að draga saman þaðs em betur mátti fara. Það er gert í góðri meiningu með það fyrir augum að lögð verði áherls á að þessi atriði verði í lagi í framtíðinni. Ef eitthvað er missagt eða ofsagt þá verður það vonandi leiðrétt því hafa skal það sem sannara reynist.