Laugavegurinn 2004 - Haraldur Haraldsson

birt 02. ágúst 2004

Það var ekkert sérstaklega erfitt að vakna kl. 3:45 morguninn sem Laugavegshlaupið skyldi þreytt.  Ástæðan kann að liggja í því að til að vakna, þarf maður að sofna og það var ári lítið um svefn þessa blessuðu nótt.  Morgunmaturinn var tvær rúgbrauðsneiðar með kæfu (mikið af enni) og 2 ristaðar brauðsneiðar með marmelaði og osti.  Með þessu var drukkið Leppin Energy Boost.  Rúmlega kl. 4 hringir Birgir hlaupafélagi minn og segist vera fyrir utan eftir 5 mínútur.  Við Íþróttamiðstöðina í Laugardalnum voru allir útlendingar mættir, en Íslendingarnir svona flestir farnir að spá í að mæta fljótlega.  Nokkrir mættu á mínútunni en tveir tveimur mínútum síðar, Sem að hlýtur að teljast nokkuð gott af Íslendinga hálfu.

Við vorum mætt mjög tímanlega upp í Landmannalaugar og því hægt að gefa sér fínan tíma í standa í röð eftir klósetti og gera sig kláran að öðru leiti fyrir hlaupið.  Júgursmyrsl var borið ýmsa líkamsparta og þar sem undirritaður er óreyndur mjög, þá kom þessi setning honum í opna skjöldu, "ekki gleyma kúlunum!".  Ekki meira um það.  Klæðnaður var FBT stuttermabolur, léttar Nike stuttbuxur, glænýir hlaupasokkar frá Asics og Kayano hlaupaskór.  Aukabúnaður var 4 vatnsbrúsar með Leppin Energy Boost, höfuðklútur, vettlingar, 6 orkugel, 4 Ibufentöflur 600 mgr, klósettpappir (já maður veit aldrei) og þá held ég að það sé upptalið.  Á meðan biðinni stóð var hægt að spjalla og spyrja um markmið og ráðleggingar.  Ég hafði ekki sérstök markmið önnur en að klára hlaupið.  Hef ekki æft hlaup sérlega lengi, byrjaði fyrir ári hjá Skokkhópi Fjölnis þar sem snillingurinn Erla Gunnars ræður ríkjum.  Fyrsta árið var æði stopult, ekki viss um að æft hafi verið meira en tvisvar í viku að meðaltali, en frá páskum í vor hef ég varla misst úr æfingu og tekið þátt í ýmsum götuhlaupum, þannig að mér finnst ég bara í fínu formi.  Ekki hefur verið æft neitt sérstaklega fyrir þetta hlaup og eina langa hlaupið sem ég tekið þátt í er hálft maraþon í Mývatnssveit fyrr í sumar.  Ég ætlaði mér að hanna plan eftir því sem á hlaupið liði, eftir því hvernig mér liði.

Rétt fyrir níu var kallað að allir ættu að gera sig klára fyrir start.  Ég stóð í miðjum hópi, þeir sem ætluðu að spæna af stað áttu að vera fyrstir og síðan þeir sem rólegri yrðu í tíðinni.  Kl. 9:10 hófst hlaupið (labbið), því það voru væntanlega 5 mínútur í fyrstu hlaupaskref.  Fyrsta hlutann höfðu allir sagt að ég yrði að taka rólega og gerði eins fyrir var lagt, enda fyrstu 10 km eintómt brölt upp á við.  Við Hrafntinnusker var ég eftir ca. 79 mínútur, 5 mínútum á undan vatni, orkudrykk og bönunum, þannig að það var bara að hlaupa áfram með 2 fulla brúsa og 2 tóma.  Þarna rakst ég á Pétur Frantzson sem varð eiginlega minn hlaupamakker, lengi hlaups.  Það gat ekki verið betra fyrir nýgræðinginn, en að hengja sig á reynsluboltann.  Ég opnaði fyrsta orkugelið þarna og síðan á ca. hálftíma fresti það sem eftir lifði hlaups.

Núna hófst  giljahlaup mikið þar sem mjög lítill snjór er á svæðinu, þá þurfti að fara ofan í næstum öll gil sem á leiðinni urðu.  Ég verð að viðurkenna að ég var að verða svolítið langeygður eftir lækkuninni sem lofað hafði verið til Álftavatns, fannst þetta endalaust halda áfram að vera á fótinn.  En hún kom og þá með stæl.  Hér var mætt "brekkan mikla" eins og Pétur Helgason hafði kallað hana í endurminningum sínum.  Ég tók hana bærilega hratt, fór fram úr nokkrum og hafði myndað 1 - 2 mínútna forskot á næsta fólk þegar niður var komið.  Þar sem ég var löngu orðinn vökvalaus stoppaði ég hjá fyrsta læk sem þarna var og fyllti á brúsana.  Þarna í grónu fallegu umhverfi bárust mér heldur óskemmtilega tíðindi frá vinstri kálfanum, smá titringur í gangi og mér sem leið svo vel að öðru leiti.  En við þessu brást ég með að fá mér slurk af saltlakkrís, sem einhver hafði tjáð mér að gæti verið ágætt ráð til að varna sinadrætti.  Einleikurinn á fiðlu hætti fljótlega í kálfanum og leiðin að Álftavatni var greið.  Tíminn að Álftavatni frá Hrafntinnuskeri var 76 mín.  Þar bauðst ljúf stúlka til að fylla á brúsana mína, meðan ég tróð í mig heilum banana og drakk sitthvort glasið af orkudrykk og vatni.  Þarna gaf ég mér einnig tíma til að reyna að teygja á kálfum og lærum.  Það hafði ekki verið gert mikið af því fyrir hlaup.

Sprækur hljóp ég aftur af stað og sá þá að Pétur hafði greinilega ákveðið að stoppa ekkert við Álftavatn og var kominn rétt á undan mér.  Við ána við Álftavatn voru strákar að hlaupa með stiga til að reyna brúa ána.  Við Pétur gátum ekki beðið eftir því og óðum því ána.  Við Pétur vorum greinilega 5 mínútum of fljótir að hlaupa þetta hlaup.  Segir nú lítið af okkur fyrr en við Bláfjallakvíslina, þar kom ég aðeins á undan Pétri og fór eins og mér var ráðlagt í tvo laxapoka til að vaða kvíslina.  Rétt þegar ég er að koma yfir kemur Pétur á harðaspretti yfir ána og lætur sig laxapoka engu varða.  Hann varð því ekki sérlega kátur þegar það kemur í ljós að engan fatapakka var að hafa eins og venjulega við Bláfjallakvísl.  Það var því ekki annað að gera en halda áfram.

Ég tók fyrstu íbúfen töfluna þarna, vegna verkja í náranum vinstra megin (orsök: 28.947 útspörk um ævina).  Þar sem síðan beygt er af veginum birtist drykkjarstöð þar sem töskur hlaupenda loks voru.  Jón bróðir Péturs var þarna staddur að útdeila kóki (hefði mátt hafa vatn líka).  Mér leið það vel á fótunum, að ég var að hugsa um að skipta ekkert um skó eða sokka, en því betur lét ég verða af því að skipta um sokka og leið miklu betur á eftir (að ráðleggingum Péturs).  Ég hafði sett 4 auka gel í pokann minn og það tók ég með mér, en skipti ekki um bol.  Meðan við Pétur vorum að bjástra þarna komu nokkrir hlauparar og stoppuðu sumir lítið og aðrir ekkert.  Þarna voru því allt í einu 4 - 5 komnir fram úr mér.  Pétur lagði líka fyrr af stað en ég, þannig að ég var ekkert alltof kátur þegar ég loks drattaðist af stað.  Þarna er hlaupið í sandi og ég var heldur farinn að þyngjast.  Nárinn var þó miklu betri, þannig að það var bara að reyna að halda tempói og missa hópinn ekki of langt frá sér.  Þessi hluti leiðarinnar líkist mest því sem við getum kallað venjulegu hlaupi, þó ekki sé það slétt.  Þarna á söndunum gafst manni tími til að fyllast smá svartnætti, leysa lífsgátuna, brosa til íslenskra yngismeyja á göngu og síðan vera bara svaka kátur með lífið.  Í Emstrum (Botnum) vorum við orðnir nokkurn veginn að hópi, nema að Gunnlaugur hagfræðingur sveitarfélaganna var sloppinn þó nokkuð í burtu.  Tíminn frá Álftavatni með stoppi þar, var 107 mín.  Aftur var boðist til að fylla á brúsa, og þáði ég 2 með orku og 2 með vatni.  Át heilan banana og drakk eins og fyrr eitt glas af orkudrykk og eitt af vatni.  Ég var mest undrandi yfir því hvað mér fannst ég hress á líkama og sál.  Ég spurði hversu langt væri eftir og var tjáð að það væri um 16 km og gamli bjartsýnisálfurinn fór að reikna.  Búinn að vera 4 klst og 22 mínútur.. mmm var 68 mínútur að hlaupa Bláskógaskokkið um daginn, þannig að ég get bara jafnvel verið á ca 6 tímum!  Já svona geta byrjendur leyft sér að vera vitlausir.

Í þessum hugrenningum var hlaupið af stað í síðasta legginn.  Við vorum 3 saman (ég þekki engin nöfn) og Gunnlaugur með einhverjar mínútur á okkur.  Þegar komið var að brekkunni við Fremri Emstruá, bað ég um leyfi til að fara framúr og lét mig síðan vaða niður brekkuna og alveg niður að brú.  Við þetta kvaddi ég þessa félaga og náði Gunnlaugi rétt hinum meginn við brúna.  Mér fannst það hyggilegt að planta mér í nálægð við Gunnlaug, enda voru núna farnar að koma fram ýmsar vísbendingar um að löppunum þætti þetta að verða djöfull gott í dag.  Léttir sinadráttakippir aftan í lærum og í kálfum urðu núna staðalástand það sem eftir lifði hlaups.  Meiri saltlakkrís var tugginn og ein Íbúfen og ástandið varð fljótlega bærilegt.  Síðustu.. segjum 8 km fóru að koma reglulega vatnsstöðvar og drakk ég yfirleitt vatnsglas, enda var vatnsbúskapurinn greinilega farinn að versna til muna.  Rétt fyrir kápuna fékk ég síðustu áfyllingu á brúsana og tók ég bara orku í þetta skiptið.  Ég get ekki sagt að þessi Kápa hafi verið sérstaklega pöntuð á þessum tímamótum í lífi mínu, en upp var skundað og þar yfirhöluðum við Gunnlaugur meira segja einn útlending.  Nokkuð var af fólki þarna í hlíðinni sem hvatti okkur og var það ljúft.  Þegar toppi var náð, var sem endurnýjaður kraftur kæmi yfir mann.  Þetta var allt að hafast.

Á leið niður ákvað ég að taka sénsinn, að eitthvað væri enn eftir í löppunum og hlaupa frá Gunnlaugi.  Ég náði svolitlu forskoti á hann fyrir Þröngá.  Rétt þegar ég var koma að ánni, skall á ferleg sinadráttarhrina í hverju skrefi, þó aldrei læstust vöðvarnir alveg.  Hlaupastíllinn hefur væntanlega ekki þótt sérstakur, en þarna stóð talsvert af fólki og hvatti mann áfram.  Við það vil ég segja: "Ég ætlaði ekki vera ókurteis og þakka ekki fyrir mig, en akkúrat þarna hafði ég ekki ástand umfram það að hugsa um næsta skref og sinadrátt.  Takk öllsömul".  Ég hafði líka áhyggjur af ánni, en einhver hafði sagt að hún framkallaði oft sinadrætti.  Ég tók í kaðalinn og öslaði yfir og ég get svarið það, ég var bara skárri hinum meginn.  Gunnlaugur var núna að koma að ánni og ég hafði áhyggur af því að hann mundi ná mér aftur.  Einhver stúlka kallaði hvatningarorð og sagði að það væru bara tæpir 3 km eftir.  Því betur var talsvert um labb, þarna fyrst eftir ána og reyndi ég að ná teygju á kálfunum í hverju skrefi, allavega þegar land varð flatara aftur, tókst mér að komast á þó nokkuð skrið.  Ég veit ekki hvort það var fallegt umhverfið, vissan um lokamarkið eða kannski svolítið gamla keppnisskapið, þá upplifði ég síðustu kílómetrana bara ljúft.  Náði að stilla hraðann þannig að sinadrættir voru bara léttur undirleikur heim í mark.  "Hlaupari að koma" heyrði ég kallað rétt áður en ég kom inn á túnið þar sem fjöldi fólks var að taka móti hlaupurunum - það var yndisleg tilfinning að hlaupa í markið.  Fimmtíu og eitthvað kílómetrar að baki, fjöll, ár, hraun, sandar, melar, skriður, snjór, leir, skógur og eflaust fleira... "og tíminn vafalaust ágætur" eins og segir í textanum.  Síðasti leggurinn var farinn á 1:50 og allt hlaupið á 6:13.

Gufubað, ísköld sturta (sem er hefð) og öl var síðan ljúft, að hlaupi loknu.  Grillveislan fór vel fram og rigningin kom, þannig að allt var þetta eftir planinu.  Í stuttu máli - frábært hlaup, í góðu veðri, í frábæru umhverfi, með frábæru fólki, smá hnökrar í skipulagi en ekkert sem skyggir á stórkostlegan dag.  Ég mæti að ári!

Haraldur Haraldsson