Það má segja að leiðin til NY hafi byrjað við Miðjarðarhafið, í langþráðu sumarfríi í sól og hita. Ég tók með mér gamla hlaupaskó sem ég gat reyndar ekki hugsað mér að reima á mig fyrr en 12 dögum eftir Laugavegshlaupið. Við heimkomuna þurfti svo að búa til 13 vikna æfingaáætlun en ég sat uppi með það að vera sá eini í hlaupahópi FH sem er að fara í fullt maraþon í byrjun nóvember og æfði því mikið einn. Löngu hlaupin á föstudögumÞað var ekkert mál að útbúa prógrammið og í leiðinni ákvað ég að gera breytingar á æfingadögunum sem mig hefur langað að prófa.
Ég hef svo oft verið þreyttur eftir langa laugardagshlaupið að dagurinn hefur eiginlega orðið hálf ónýtur eftir hlaup. Því ákvað ég að færa löngu hlaupin yfir á föstudaga og sjá hvort helgarnar myndu nýtast betur. Reyndar voru tvö keppnishlaup á dagskrá á laugardögum en að öðru leyti reyndi ég að taka löngu hlaupin seinni partinn á föstudögum sem mér finnst hafa komið virkilega vel út.
Jökulsárhlaupið með Guðna forseta
Fyrsta keppnishlaupið eftir Laugaveginn var Jökulsárhlaupið, eitt vinsælasta hlaup landsins en í ár seldist upp á innan við tíu mínútum. Helsta skýringin á þessum einstöku vinsældum er að hlaupið er ein af fjórum þrautum í Landvættunum og því flykkjast væntanlegir landvættir í hlaupið. Til viðbótar er hlaupið haldið í þjóðgarði og því er fjöldi þátttakenda takmarkaður og í raun ekkert sem bendir til að vinsældir hlaupsins muni minnka í framtíðinni, nema landvættunum verði fundið annað hlaup. Og það er ekkert skrýtið að hlauparar flykkist norður, Jökulsárhlaupið er stórkostlegt hlaup frá Dettifossi og inn í Ásbyrgis og í þokkalegu veðri er hægt að kalla þetta Drottningu íslenskra hlaupa, í höfuðið á Herðubreið sem er ekkert svo langt frá.
Ég var búinn að hlakka mikið til að skottast norður í Ásbyrgi og taka þátt í hlaupinu. Ekki spillti veðurspáin en það var bongóblíða alla helgina og reyndar fullheitt á hlaupadegi. Það gerði hlaupið svo enn skemmtilegra að sjálfur forsetinn var mættur til leiks og hljóp næst lengstu vegalengdina með sóma.
En okkur FH-ingum gekk misvel. Við áttum þrjá hlaupara sem enduðu á meðal tólf efstu sem er frábær árangur enda engir smá flottir hlauparar sem tóku þátt að þessu sinni. Aðrir hlupu nokkuð hægar enda algjör óþarfi að þjóta í markið á svona fallegri hlaupaleið. Ég hafði sett mér það markmið að hlaupa aðeins hraðar en í fyrra og reyna að koma í markið á undir 3 klst en lenti fljótlega í vandræðum. Þá var bara að hægja á og reyna að njóta umhverfisins sem er algjörlega stórkostlegt. Eftir á að hyggja átti ég aldrei séns á bætingu þar sem hlaupið var í lok fyrstu æfingavikunnar og það kom því hressilega í bakið á mér að hafa verið í tveggja vikna sumarfríi eftir Laugaveginn. Vel bugaður í markinu í Jökulsárhlaupinu.
Bensínlaus þrátt fyrir gel og og orkuhlaup
Þó ég hafi dælt í mig geli og orkuhlaupi þá hafði ég engan kraft til að halda hraða. Það varð endanlega ljóst þegar ég kom að Hólmatungum þar sem forsetinn og aðrir hlauparar voru ræstir, rétt áður en ég mætti á svæðið - í fyrra var ég mun fyrr á ferðinni og var á undan hersingunni. Það var í góðu lagi að lenda aftast í þessari röð hlaupara á einstiginu, hlaupið var hvort sem er hætt að snúast um einhvern lokatíma. Það var auðsótt mál að fá að stinga sér fram úr þegar færi gafst en annars dúllaði maður sér
Tæpum kílómetra áður en við komum að Stallá var svolítil bleyta á stígunum. Þegar ég kom að einum polli ætlaði ég ekki að nenna að reyna að krækja fyrir hann, enda birki sitthvoru megin við stíginn og það virtist vera meira vesen að sneiða hjá pollinum í stað þess að láta sig vaða yfir hann. Það skipti engum togum en að ég sökk upp að nára í þessum sakleysislega polli og komst ekki hjálparlaust upp úr, þá kom sér vel að vera mitt í þéttum hópi hlaupara. Svona atvik verða auðvitað ógleymanleg og skemmtileg, svo framarlega sem enginn meiðist. En áfram var haldið og hitinn, svitinn og drykkjan jókst í öfugu hlutfalli við hraðann.
Ég var nánast hættur að fara fram úr hægari hlaupurum sem ræstu frá Hólmatungum, en því fleiri sem fóru fram úr mér frá Dettifossi. Við Hljóðakletta var mikið um erlenda ferðamenn og þá er um að gera að fíflast svolítið í þeim, fá þá til að brosa að þessum miðaldra og rennsveitta hlaupara sem var orðinn ber að ofan og dröslaðist áfram á léttum miðlungshraða.
Klárað með sóma
Orkan var nánast búin í löngu brekkunni við Hljóðakletta og enn rúmlega 10 km í markið. Það sem varð mér til bjargar, rétt eins og í Laugavegshlaupinu, var reglulegt át á geli og orkuhlaupi sem skilar mér alla leið í markið. Þegar við nálguðumst Ásbyrgi var stefnan sett á að hætta að ganga og halda sér á skokkinu. Og rétt eins og á Laugaveginum var ég farinn að pikka upp hlaupara sem voru í vandræðum, oft er það krampi sem setur strik í reikninginn þegar styttist í endamarkið enda ekkert grín að hlaupa 33 km. Allt í einu blasir við endamarkið ofan af hamrinum og gaman að verða vitni af því þegar forsetinn kom í markið við dúndrandi lófaklapp, fáeinum mínútum á undan mér. Það var töluvert minna klappað þegar ég hlunkaðist í markið, algjörlega búinn á því og lá flatur eftir í dágóða stund. Svo var drukkinn einn og hálfur lítri af vökva á nokkrum mínútum og heilsan lagaðist. Lokatíminn var rétt undir 3:20 sem er 16 mín hægar en í fyrra, en mikið svakalega er gaman að taka þátt í þessu hlaupi.
Íslenska hlaupasumarið nær algjöru hámarki í ágúst, fullt af spennandi hlaupum í boði og auðvitað Reykjavíkurmaraþonið, fjölmennasta hlaup ársins. Einhver nefndi við mig þátttökugjaldið og það fór eitthvað öfugt í mig, það kostar kr. 7.900 að taka þátt í hálfu maraþoni og athyglisvert að bera það saman við Vestmannaeyjahlaupið þar sem keppendur greiða kr. 2.000 og far með Herjólfi er innifalið. Annars er ég feginn að hafa ekki tekið þátt í ár enda voru allir tímar í hálfu og heilu maraþoni ógildir vegna mistaka hlaupahaldara þar sem brautin var of stutt.
Skúli hinn óheppni
Aumingja Skúli vinur minn í FH sem var búinn að undirbúa sig af kostgæfni fyrir sitt fyrsta maraþon í Montreal í fyrra, hlaupinu var aflýst vegna mikils hita. Núna hljóp hann ´heilt´ maraþon í Reykjavíkurmaraþoni og fær ekki tímann skráðan þar sem það vantaði 213 metra upp á. Hlaupahaldararnir eru þeir sömu og sjá m.a. um Laugavegshlaupið og enn bíðum við eftir fína bolnum sem átti að bíða okkar í markinu í júlí og var innifalinn í þátttökugjaldinu...
Tindahlaupið tekið alvarlega
Tindahlaupið í Mosfellsbæ var þriðja 30+ keppnishlaupið í röð. Mér finnast hlaup sem eru hálft maraþon eða styttri vera hálfgerð spretthlaup og því hef ég sérstaklega gaman af hlaupum sem eru í kringum 30 km, þau eru vel viðráðanleg án þess að þurfa mjög langan undirbúning. Þar sem ég sleppti Reykjavíkurmaraþoninu helgina áður, fannst mér upplagt að bregða mér upp í Mosfellsbæ og taka þátt í þessu flotta hlaupi. Ég var svolítið óviss um hvort ég ætti að taka 5 eða 7 tinda, munurinn liggur í þremur kílómetrum og tveimur litlum tindum í blálokin - en hvern langar að klífa tvö fjöll eftir rúmlega 30 km hlaup? Þannig að ég skráði mig að sjálfsögðu í 7 tinda og tók það bara býsna alvarlega, sankaði að mér upplýsingum um leiðina og fékk góð ráð hjá félögum mínum, karbólódaði í þrjá daga og tók því nokkuð rólega í hlaupavikunni.
Eftir að hafa legið yfir kortinu af hlaupaleiðinni hafði ég svolitlar áhyggjur af fjarlægðinni á milli drykkjarstöðva 2 og 3, það virtust vera um 15 km á milli og með langerfiðasta tindinn. Það var ljóst að drykkjarbelti með 600 ml af vatni væri of lítið fyrir sídrykkjumanninn og því tók ég til viðbótar með mér tóma hálfslítra kókflösku í buxnastrenginn, eingöngu til að láta fylla á hana á drykkjarstöð 2.
Því myndi ég losna við að hlaupa með bakpoka með vatnsblöðru og gæti látið drykkjarbeltið duga, þetta reyndist hárrétt ákvörðun hjá mér. Byrjað rólegu í æðislegu veðriHlaupadagurinn rann upp í æðislegu veðri, bongóblíða og gaman að fá að hlaupa léttklæddur. Það var ansi fámennur hópur ræstur í 5 og 7 tindana um morguninn, aðeins um 35 manns en allt þrusugóðir hlauparar. Dagskipunin var að taka því rólega, í svona löngum og erfiðum hlaupum er grundvallaratriði að komast ómeiddur alla leið í endamarkið. Og hlaupið byrjaði svo sannarlega rólega, orkan skyldi geymast sem allra lengst. Flestir fóru mun hraðar af stað og ég var orðinn nokkuð aftarlega þegar við klifum Úlfarsfellið. Þrátt fyrir að vera í skugga byrjaði að drjúpa af mér svitinn, þessi klifur hafa alltaf reynst mér svo erfið. En það var ekkert mál að komast upp á topp, né heldur á næstu þrjá tinda. Hins vegar tókst mér að fara út af brautinni í tvígang, það þarf sífellt að vera vakandi fyrir merkingunum þegar hlaupið er í fyrsta sinn og ekki alltaf auðvelt að átta sig á hlaupaleiðinni. Lengsta æfingin, 38 km.
Gallinn við Tindahlaupið er að stór hluti leiðarinnar er utan allra stíga og slóða, þá er hlaupið á ósnortnum gróðri, mosa, mýri, urð og grjót, yfir og undir gaddavírsgirðingar og ef fáein flögg liggja á hliðinni er auðvelt að lenda í villu. Og það teygðist fljótt á hlaupahópnum og stærstan hluta hlaupsins hljóp ég því einn og því enn verra að rata ef ekki sést í neinn hlaupara fyrir framan.
Góður seinni hluti en varlega farið
En hlaupaleiðin er frábær og útsýnið af öllum tindunum æðislegt, vel þess virði að taka þátt. Þökk sé rólegu byrjuninni og reglulegri kolvetnaneyslu, þá gekk hlaupið ansi vel hjá mér. Nægur kraftur til að hlaupa alla leið í markið og ég hefði léttilega getað hlaupið nokkra kílómetra til viðbótar og fyllt upp í heilt maraþon. Að venju var seinni hlutinn góður hjá mér þar sem ég pikkaði upp fáeina hlaupara sem voru komnir í vandræði. En lokatíminn var ekkert sérstakur, 38,2 km á tæplega 5 klst enda var farið varlega allt hlaupið.
Flensborgarhlaup og Powerade - PB skyldi náð
En talandi um keppnishlaup. Fyrr á árinu hafði ég sett mér það markmið að bestu tímarnir mínir í 5 og 10 km og hálfu- og heilu maraþoni, skyldu ekki vera eldri en eins árs. Sem sagt, ég stefndi á að gera pb í þessum fjórum vegalengdum, innan við ári eftir að núgildandi pb var sett. Það er algjörlega raunhæft fyrir mig næstu árin ef ég æfi áfram þokkalega. En það varð ljóst eftir Ármannshlaupið í byrjun júlí að besti tíminn minn í 10 km myndi verða ársgamall. Ég yrði ennþá í útlöndum þegar Adidas Boost hlaupið væri haldið og þar setti ég pb í fyrra. Þrátt fyrir að hafa tekið þátt í níu öðrum 10 km hlaupum á síðustu tólf mánuðum, var besti lokatíminn minn því orðinn ársgamall.
Því hugsaði ég mér gott til glóðarinnar í Flensborgarhlaupinu í september. Hlaupið er alls ekkert bætingarhlaup enda heildarhækkunin svipuð og í Powerade þó að brekkurnar dreifist svolítið betur. Það kom því vel á vondan að hlaupaleiðin var gjörbreytt þetta árið, nú skyldi hlaupin sama leið og í FH hlaupaseríunni og langleiðina að byggðinni út á Álftanesi og sama leið til baka. Hækkunin var því helmingi minni en venjulega, algjör veisla og frábært tækifæri til að setja pb í eina 10 km keppnishlaupinu sem er haldið á heimavelli mínum í Hafnarfirði. Planið var að rúlla þetta nokkuð jafnt á pb-peisi 4:20 og vera ekkert að þenja sig í byrjun til að eiga næga orku fyrir hraðari seinni hluta. Ég hef því oft farið mun hraðar af stað, rann nokkuð þægilega út á Álftanes en fann þá fyrir verk í maganum sem ég vonaði að myndi lagast.
Það voru því gríðarleg vonbrigði þegar hann versnaði og ekkert annað að gera en að hægja á sér. Það varð ljóst á 7 km markinu að ég myndi ekki ná að bæta tímann minn, það var ekkert hægt að harka þetta af sér og hlaupa hraðar, því miður. Lokatíminn var rétt undir 44 mín, sem er 22 sek frá mínu besta. Ég var hundfúll í markinu þar sem pb átti að vera algjört formsatriði í þessum toppaðstæðum en það er víst aldrei neitt öruggt í þessum hlaupum.
Bæting og rúmlega það
Síðasta keppnishlaupið var fyrsta Powerade hlaup vetrarins í október, rétt rúmlega þremur vikum fyrir maraþonið mitt og lenti á erfiðustu æfingarvikunni. Hins vegar var formið með allra besta móti en eftir vonbrigðin í Flensborgarhlaupinu var ég ekki með neinar væntingar. Ég fann samt fljótlega að ég var nokkuð sprækur, var á skynsömum hraða fyrstu 3 km og gat sprett verulega úr spori þegar leiðin fór að liggja niður á við. Næstu 4 km voru mjög flottir en svo versnaði í því, aftur fékk ég í magann og erfiðasti kaflinn var eftir. Sem betur fer gat ég harkað þetta af mér en mikið svakalega er vont að hlaupa með magaverk. Rafstöðvarbrekkan gekk nokkuð vel og ég komst auðvitað í markið, sárþjáður en á langbesta tíma sem ég hef náð í 10 km hlaupi, náði að bæta mig um 40 sek í þessari erfiðu braut.
Þar með náði ég að setja pb í öllum fjórum vegalengdunum á árinu 2018 sem er frábært veganesti vestur um haf.
En einn gjöfin framundan
New York maraþonið er handan við hornið, sunnudaginn 4. nóvember. Það verður sjötta maraþonið mitt og fjórða WMM en meiningin er að hlaupa í Chicago á næsta ári og klára seríuna í Boston 2020. Það ætti að vera óhætt að stefna á lokatímann 3:30 í New York en eins og alltaf er ekki hægt að ganga að neinum lokatíma vísum.
Ef þetta magavesen heldur áfram er eina markmiðið að skila sér í markið en vonandi fæ ég frið til að gera mitt besta. Allar aðstæður verða vonandi góðar, hitinn fer hæst í 13 gráður þessa dagana sem er frábært fyrir alla Íslendingana og mér sýnist ég fá að ræsa nokkuð framarlega í þessu fjölmennasta maraþonhlaupi veraldar. En hvernig sem þetta fer verður New York maraþonið enn eitt ævintýrið sem hlaupadellan hefur fært mér, vííí hvað ég hlakka til.
Axel Einar Guðnason, Hlaupahópi FH.