Fyrri hluti - Bílslysið og afleiðingar þess
Haustið 1995 lenti ég í bíslysi sem breytti öllu mínu lífi. Á þeim tíma var ég bæði að spila og þjálfa handbolta og vinna bæði á leikskóla og á bílaverkstæði föður míns. Gamli maðurinn sem á mig keyrði áttaði sig engan veginn á því tjóni sem hann olli og veit eflaust ekkert af því enn þann dag í dag. Ég slasaðist lítið við fyrstu sýn en fljótlega komu í ljós áverkar bæði á hálsi og hrygg sem áttu eftir að hafa alvarlegar afleðingar.
Sumarið 1996 eignaðist ég dóttur sem vildi helst vaka allan sólarhringinn. Ég versnaði í bakinu og hálsinum og öll sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálastungur, hnykkingar, grænmetisfæði, samtalsmeðferðir eða hvað eina sem í boði var, gagnaðist lítið! Lyf voru mín lausn. Þrátt fyrir að ég vissi vel að lyfin væru skammtímalausn og einungis örlítill friður á einkennum vandans, - þá hélt ég áfram, lyfjaskammtarnir urðu stærri og stærri og ég þurfti meir og meir til að deyfa sama verkinn. Vítahringur myndaðist og ég varð fíkill. Sterk verkjalyf, vöðvaslakandi lyf, svefnlyf o.s.frv. voru mínir vafasömu vinir, því mínum raunverulegu vinum ýtti ég frá mér eins og ég ýtti barnsmóður minni frá mér. Ég skaðaði hana með veikindum mínum og missti samband við barnið mitt sem ég þó elskaði og elska enn, heitar en nokkuð annað.
Tíminn leið og ég fékk enga lausn í mitt líf. Ég sökk dýpra og dýpra og fékk loks að sjá Helvíti sjálft, sem ég svo sannarlega færði sönnur á að væri til. Vegna eymsla og oft mikilla verkja gat ég lítið hreyft mig auk þess sem mataræðið var slæmt svo ég þyngdist og þyngdist og fór úr góðu formi yfir í slæmt. Ég þyngdist um ein 25 kg á skömmum tíma og slitnaði eins og ólétt kona. Ég reyndi að klóra í bakkann með hálfkáki á hverju sviði, hvort sem það var háskólanámið eða umgengni við dóttur mína. Ég var hálfur maður og leið ekki vel. Þráði frið. Þráði heilsuna á ný.
Svo sökk ég enn dýpra áður en ég náði botninum. Ég var öðru sinni á Heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði sumarið 2001 og þar hitti ég fyrir traustan lækni og kæran kunningja minn í dag, sem sá að ekki var allt með felldu. Hann benti mér á það sem aðrir höfðu lengi séð, að lyfjaneysla mín væri gengi fram úr góðu hófi og ég þyrfti hreinlega að fara í meðferð. Góðir vinir mínir og mínir nánustu höfðu af mér miklar áhyggjur og sáu vel að ekki var allt með felldu. Ég leit verr og verr út og leið greinilega ekki vel. En það dugði ekki til að ýta við mér. Ég þurfti að heyra þetta frá einhverjum sem ég þekkti ekki neitt. En það dugði samt skammt, til að byrja með a.m.k. ,,Þvílík ósvífni" hugsaði ég með mér og var mjög sár og móðgaður. En það leið ekki á löngu þar til ég sá hvað hann átti við. Ég áttaði mig á því einn daginn u.þ.b. mánuði síðar þegar ég fann dauðann koma.
Ég fór í meðferð inn á sjúkrastöðina Vog og þurrkaði þar lyfin úr líkama mínum. Etir 16 daga þar tók svo við 4 vikna endurhæfing á Vík uppá Kjalarnesi og þar hitti ég fyrir annan traustan mann, Sigurð Guðmundsson, maraþonhlaupara með meiru. Þar öðlaðist ég trú á að ég gæti hugsanlega komist í gegnum þetta án þess að þurfa á lyfjum að halda. Um leið og lyfin fóru úr líkama mínum minnkuðu verkirnir til muna. Ég hafði öðlast ómetanlegan hlut, - von.
Hallgrímur Sveinn Sævarsson.