uppfært 09. ágúst 2020

Árið 2019 er tvímælalaust nú þegar orðið eitt af viðburðaríkustu árum maraþonsögunnar. Þar ber auðvitað hæst „Sub-2" hlaup Eliuds Kipchoge í Vín 12. október og kannski ekki síður frekar óvænt heimsmet Brigid Kosgei degi síðar. Stórbrotin frammistaða Kenenisa Bekele í Berlínarmaraþoninu hlýtur líka að teljast til heimssögulegra viðburða á þessu sviði. En það eru ekki bara þessir topphlauparar sem hafa verið að skrifa maraþonsöguna síðustu daga, vikur og mánuði. Þegar listi Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF) yfir 100 bestu maraþonafrek karla og kvenna frá upphafi er skoðaður, fer ekki á milli mála að þetta ár er ekkert venjulegt maraþonár!

100 fljótustu maraþonkarlar sögunnar
Þegar þetta er skrifað, að kvöldi sunnudagsins 27. október 2019, þarf að hlaupa maraþon á 2:05:53 klst. til að komast á listann yfir 100 fljótustu maraþonkarla sögunnar. Sérstaka athygli vekur að af þeim 100 afrekum sem þar eru skráð voru 23 unnin á árinu 2019 og á „topp-10" eru sex afrek frá þessu ári. Og það sem af er árinu hafa fjórir hlauparar (Kenenisa Bekele (2:01:41), Eliud Kipchoge (2:02:37), Birhanu Legese (2:02:48) og Mosinet Geremew (2:02:55) hlaupið undir heimsmetstíma Dennis Kimetto frá því í Berlín 2014 (2:02:57).

100 fljótustu maraþonkonur sögunnar
Þegar listinn fyrir 100 fljótustu maraþonkonur sögunnar er skoðaður kemur í ljós svipað mynstur og hjá körlunum, þó að breytingarnar í efstu sætunum hafi ekki verið eins afgerandi. Til að komast á listann þarf að hlaupa á 2:22:23 klst. Hjá konunum voru 22 afrek af 100 unnin á árinu 2019 en á „topp-10" eru „aðeins" þrjú afrek frá þessu ári.

Afrískir yfirburðir
Eitt er það sem breytist lítið frá ári til árs á afrekaskrám IAAF, en það eru yfirburðir maraþonhlaupara frá Kenýu og Eþíópíu. Þetta er sérstaklega áberandi á karlalistanum, þar sem þjóðerni 100 efstu manna skiptast sem hér segir:

LandFjöldi hlaupara á „topp-100" frá upphafiKenýa51Eþíópía39Marokkó3Bandaríkin1Barein1Bretland1Japan1Noregur1Tyrkland1Uganda1

Reyndar er ekki nóg með að 90 af 100 bestu maraþonhlaupurum sögunnar komi frá Kenýu og Eþíópíu, heldur kemur stór hluti þeirra frá sömu héruðunum í þessum löndum, þ.e.a.s. frá bæjunum Iten og Eldoret í Kenýu og frá Bekoji í Eþíópíu. Og af hinum tíu eru átta af afrískum uppruna. Þeir einu sem eiga ættir að rekja til annarra heimshluta eru Norðmaðurinn Sondre Moen (90. sæti, 2:05:48) og Japaninn Suguru Osako (95. sæti, 2:05:50).

2:04
Í september voru liðin 11 ár frá því að goðsögnin Haile Gebrselassie hljóp fyrstur manna undir 2:04 (2:03:59). Á þessu ári hafa hins vegar hvorki meira né minna 8 manns náð betri tíma, þar af 7 frá Eþíópíu. Eliud Kipchoge er eini Kenýumaðurinn á þessum lista þetta árið. Breiddin á toppnum virðist sem sagt vera ívið meiri í Eþíópíu. Hins vegar virðist Kenýa eiga enn fleiri framúrskarandi hlaupara en Eþíópía. Kenýa á þannig 44 nöfn á 100 manna heimsafrekaskrá ársins, en Eþíópía „bara" 33. Þá má nefna að 100. maður á afrekaskrá ársins í Kenýu er á tímanum 2:11:01, en 2:13:53 í Eþíópíu og á lista IAAF má í andránni sjá 374 maraþonhlaupara frá Kenýu en 190 frá Eþíópíu sem allir hafa náð betri tíma en 2:35 á árinu 2019. Líklega er frekar erfitt að komast í landslið þessara landa í maraþonhlaupi!

Meiri breytileiki hjá konunum
Hundrað manna afrekaskrá í maraþonhlaupi kvenna frá upphafi er ekki eins einsleit og hjá körlunum. Hjá konunum skiptast þjóðernin sem hér segir:

LandFjöldi hlaupara á „topp-100" frá upphafiEþíópía43Kenýa29Japan8Bandaríkin6Barein3Rússland3Kína2Bretland1Írland1Ísrael1Noregur1Rúmenía1Þýskaland1

Þegar afrekaskrár landanna tveggja fyrir árið 2019 eru skoðaðar virðast Eþíópía og Kenýa standa nokkuð jafnt að vígi, en í hvoru landi um sig hafa rúmlega 160 konur hlaupið undir 3 klst. á árinu

Kipchoge á ferðinni í Vín.Hvað gerist á næsta ári?Þegar haft er í huga hversu stóran hlut árið 2019 á í maraþonsögunni þyrfti engan að undra þó að heimsmet falli á næsta ári, bæði í karla- og kvennaflokki. Og þó að nöfn á borð við Eliud Kipchoge, Kenenisa Bekele og Brigid Kosgei komi þar fyrst upp í hugann er hæpið að benda á einn frekar en annan sem líklegan næsta heimsmethafa.Það eitt að 7 eþíópískir karlar hafi hlaupið undir 2:04 klst. á árinu er nóg vísbending um að minna þekkt nöfn kunni að verða skráð á spjöld sögunnar á næstu mánuðum.

Við þetta bætist svo að á þessu ári hefur tveimur af stærstu hindrununum á þessu sviði verið rutt úr vegi, þ.e.a.s. annars vegar 2 klst. múrnum sem lengst af hefur verið talinn óbrjótanlegur og hins vegar 16 ára gömlu heimsmeti Paulu Radcliffe. Nú hefur sem sagt verið sýnt fram á að jafnvel það sem talið hefur verið ómögulegt er mögulegt þegar allt kemur til alls. Eða eins og Eliud Kipchoge orðar það: „No human is limited".

Efnisflokkur: Saga, keppnishlaup

Heimildir: Byggt á afrekaskrám Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF)

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.