uppfært 09. ágúst 2020

Hver kannast ekki við þá tilfinningu að hlaup sé allt of fljótt yfirstaðið og það hafi bara alls ekki verið nógu langt? Ég upplifði þessa tilfinningu sterkt í 100km hlaupi í Frakklandi í fyrra.

Hafdís Mikill Vill Meira 2
Hafdís tv. í OCC 2017 með Melkorku Kvaran.

Eftir að hafa hlaupið nokkur maraþon, þrisvar sinnum Laugaveginn og 56 km fjallahlaup í frönsku ölpunum ákvað ég að skrá mig í UT4M Master100 í Grenoble sem er einnig í frönsku ölpunum. Ég hljóp í OCC 2017 og sótti aftur um fyrir 2018 en var ekki svo heppin að komast inn. Á þessum tíma var ég farin að gæla við að langa að sækja um CCC hlaupið fyrir 2019 en til þess þurfti ég punkta og því varð þetta hlaup í Grenoble fyrir valinu. Daginn fyrir hlaupið fóru að renna á mig tvær grímur, allt í einu áttaði ég mig á því að þetta væri töluvert frábrugðið því að hlaupa Laugaveginn á 6 klukkutímum og OCC á 9 klukkutímum. Ég var búin að skrá mig í nærri helmingi lengra hlaup sem tæki mig í kringum 20-22 klukkutíma að klára. Ég fékk nett áfall og velti fyrir mér hvað ég hefði eiginlega verið að hugsa þegar ég skráði mig í þetta hlaup.

Ýmislegt í gegnum hugann í löngu hlaupi
Daginn áður en ræst var í mitt hlaup lagði Halldóra Gyða af stað í 170km hlaupið í Grenoble. Ég gat ekki skilið hvernig hægt væri að langa til að leggja upp í þessa vegalengd. Þessi hugsun átti eftir að breytast hraðar en mig hefði nokkurn tíma grunað.

Í miðju hlaupi eða þegar ég var komin um 50km fór ég að hugsa um hversu stutt mér fannst hlaupið vera, ég trúði því varla að ég væri hálfnuð með hlaupið og mér leið alveg rosalega vel.

Allt í einu fannst mér rökrétt að skrá mig í fleiri og lengri hlaup sem fyrst. Ég fór því að hugsa með hlýju til Halldóru sem á þessum tímapunkti var u.þ.b. hálfnuð með sitt 170km hlaup og það var ekki laust við smá öfund yfir því að hún ætti enn eftir hátt í 100km ófarna. Þarna læddist sú hugsun að mér í fyrsta sinn að mig langaði fyrr en síðar að hlaupa 170km hlaup.Ég átti alveg eins von á að þessi hugsun myndi breytast eftir því sem liði á hlaupið svo ég tali nú ekki um daginn eftir en þvert á móti, mér fannst ég verða að skrá mig í annað 100km hlaup sem allra fyrst og svo í 170km hlaup í kjölfarið. Ég fór því nánast strax að loknu hlaupi að vinna í því að reyna að komast inn í HK100 í janúar 2019. Ég sótti líka um í Lavaredo sem er 120km hlaup í Ítölsku Dolómítunum í júní og CCC hlaupið í Chamonix í ágúst.

Hafdís Mikill Vill Meira
HK100 í janúar 2019 með hlaupafélögum.

Ég komst inn í HK100 og fór með frábærum félögum til Hong Kong tæpum fimm mánuðum eftir hlaupið í Grenoble. Ég var óheppin og lagðist í flensu á ferðadaginn og hljóp hlaupið veik sem dró úr hraðanum en engan veginn úr gleðinni. Þegar ég kom í mark var ég enn staðráðnari en áður í að stefna á 170km hlaup árið 2020, fara í bæði Lavaredo og CCC sem ég var svo heppin að komast inn í stefna á að mæta aftur til Hong Kong að ári, án flensu!

Nú er næsta ævintýri í Lavaredo að skella á og tveir mánuðir í CCC. Ég er mjög spennt og nýlega farin að velta fyrir mér hvort Tor des Géants 2021 sé eitthvað sem ég ætti að hugsa betur, hvar endar þetta?

Heimildir:

http://www.hk100-ultra.com/
https://utmbworld.com/
https://ut4m.fr/en
https://www.tordesgeants.it/it

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.